- Advertisement -

Þurfum bjargir í stað plástra

Þau voru nánast á sama stað og mörgum árum fyrr og það sem verra var, börnin voru gjarnan á sömu leið.

Vilborg Kristín Oddsdóttir.

Vilborg Kristín Oddsdóttir, varaþingmaður Samfylkingarinnar, flutti, á Alþingi í dag, jómfrúrræðu sína. Hún gerði skjólstæðinga Hjálparstarfs kirkjunnar að umfjöllunarefni:

„Hvað er það sem gerist þegar velferðarkerfin okkar vinna ekki saman eða samráð milli þeirra er takmarkað? Stundum er það mannlegur harmleikur en oft margra ára þvælingur á milli kerfa þannig að mikilvægur tími í lífi einstaklinga og viðkvæmra fjölskylda líður án raunverulegrar úrlausnar.

Í mínu starfi hjá Hjálparstarfi kirkjunnar hef ég oft orðið vitni að því hvernig skortur á vilja frá bæði einstaklingum sem vinna í kerfinu og frá kerfinu sjálfu hafa haft alvarlegar afleiðingar. Ég þekki að sjálfsögðu farsældarlögin sem eiga að ná til hluta þessa hóps, en þessar aðstæður verða því miður oft til þess að öll vinna verður samhengislaus og að ólíkir aðilar beina mögulegum kröftum sínum og fjármagni á aðeins eitt atriði af mörgum. Oft er það á afmarkað vandamál í lífi fjölskyldunnar í stað þess að horft sé á heildarmyndina og að unnið sé heildstætt að betra lífi,“ sagði Vilborg.

„Ég skoðaði eitt sinn sögu þeirra sem höfðu leitað sér aðstoðar hjálparstarfsins í mörg ár og höfðu fengið þar mikinn efnislegan stuðning. Ég sá þá að þessir sömu einstaklingar höfðu fengið stuðning frá fjölda opinberra stofnanna um langt árabil. Í rauninni hafði lítið gerst hjá þessum fjölskyldum, hjá þessum hópi. Enginn hafði yfirsýn og engin raunveruleg úrræði eða endurhæfing til meiri sjálfbjargar eða betra lífs hafði átt sér stað. Þau voru nánast á sama stað og mörgum árum fyrr og það sem verra var, börnin voru gjarnan á sömu leið.

Það er kominn tími til að kerfin vinni betur saman, að nýta þriðja geirann með fjölskyldum þegar unnt er, því að það á oft við. Það verður að hlusta á drauma fólks og meta þarfir, vinna með fjölskyldum að lausn sem virkar og mun raunverulega breyta einhverju en ekki bara plástra.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: