- Advertisement -

Því sætir DV ekki opinberri rannsókn?

Fjölmiðlar „Af hverju ætli ríkissaksóknarinn mæli ekki fyrir um opinbera rannsókn á meðferð DV á margvíslegum trúnaðarupplýsingum frá opinberum stofnunum? Getur verið að sá embættismaður stjórnist af þörf fyrir þátttöku í aðgerðum sem talið er að geti komið ráðherranum illa en láti liggja hjá garði alls kyns brot á reglum um þagnarskyldu sem þjóna ekki þeim markmiðum? Svo mikið liggi við að ákæra sé gefin út á hendur aðstoðarmanni ráðherra í máli sem engan veginn hefur verið upplýst, eins og best sést af verknaðarlýsingu ákærunnar,“ skrifar Jón Steinar Gunnlaugsson í Morgunblaðið í dag.

Hann segir ákæruna á hendur aðstoðarmanni Hönnu Birnu Kristjánsdóttur vera ómarkvissa, „…að ákærði maðurinn hlýtur að eiga í erfiðleikum með að verjast ákærunni. Hverjum á hann að hafa veitt upplýsingarnar? Ríkissaksóknarinn veit ekkert um það og ákærir manninn því fyrir að hafa »látið óviðkomandi í té« efni samantektar um málið, án þess að einu sinni komi fram með hvaða hætti hann á að hafa gert þetta. Getur verið að saksóknarinn geti haft af hinum ákærða möguleika til varnar með því að lýsa veigamestu þáttum verknaðarins með svo almennum hætti að sakfella megi án þess að nauðsynlegt verði í dómi að taka afstöðu til þess hvernig verknaðinum var háttað? En jafnvel þó að við blasi að þessi ákæra þoli ekki málsmeðferð og vísa beri henni frá dómi er því miður ekki hægt að treysta því að dómstólar standi sig í því. Af hverju ætli það sé? Kannski gefst tækifæri til að víkja að því síðar.“

Fyrr í greininni segir Jón Steinar frá samskiptum sínum við blaðamann DV.
„Svo tekið sé dæmi get ég nefnt að blaðamaður frá DV hafði samband við mig fyrir nokkrum dögum og sagðist hafa upplýsingar um að ég hefði komið í innanríkisráðuneytið til funda við Hönnu Birnu ráðherra og veitt henni ráð í lekamálinu mikla, sem þetta sama blað hefur lítillega verið að fjalla um undanfarið misseri eða tvö! Auðvitað er það trúnaðarmál í ráðuneytinu hverjir þangað koma til að eiga fundi með embættismönnum, hvort sem um ráðherra ræðir eða aðra. Einhver þar á bæ hafði samt gefið þessu blaði upplýsingar um nokkrar komur mínar í ráðuneytið. Í orðum blaðamannsins lá ráðagerð um að betra væri fyrir mig að viðurkenna þetta því blaðið hefði fengið öruggar upplýsingar um slíkar heimsóknir mínar. Ég svaraði blaðamanninum engu af þeirri einföldu ástæðu að ég vil ekki eiga viðtöl við þetta blað. Þetta er bara áróðursblað sem stundar einhliða málflutning í málum sem það hefur áhuga á og velur úr því sem viðmælendur segja það til birtingar sem hentar erindagjörðum þess. Við svona pappíra vil ég ekki tala. Svo las ég í „frétt“ blaðsins að ég hefði ekki viljað svara því hvort ég hefði fengið greitt fyrir ráðgjöf við ráðherrann í þessu máli. Samtalið hafði samt aldrei komist svo langt að blaðamaðurinn næði að spyrja mig um þetta. Með orðalagi sínu í fréttinni náði snáðinn sem við mig talaði að dulbúa dylgjur um að ég hefði þegið slíkar greiðslur.

Ef einhver fjölmiðill í þessu landi stundar þá iðju að birta á opinberum vettvangi upplýsingar úr trúnaðargögnum opinberra aðila um menn og málefni er það þetta dapra blað DV. Blaðið sem hefur hamast á Hönnu Birnu innanríkisráðherra vegna ætlaðs leka úr ráðuneytinu á slíkum upplýsingum, þó að fyrir liggi að hún hefur enga aðild átt að slíkum leka. Sjálft á þetta blað áreiðanlega refsiverða aðild að fjölda mála þar sem það hefur stuðlað að því að opinberir starfsmenn veiti því upplýsingar um alls kyns málefni einstaklinga sem leynt eiga að fara. Þessi aðild er á lögfræðimáli kölluð hlutdeild.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: