- Advertisement -

Þykir RÚV kröfugerð Eflingar of lágkúruleg og ómerkileg til að fjalla um hana?

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, skrifaði:

Úr Kastljósi kvöldsins.

Það var áhugavert að sjá formann BHM og plássið sem að hann fékk í Kastljósi til að kynna málflutning sinn og félaga sinna. Það var sérstaklega áhugavert að bera plássið hans saman við þá athygli sem að við hjá Eflingu, lang-stærsta félagi verka og láglaunafólks á landinu með um það bil 26.000 félagsmenn (10.000 fleiri félagsmenn en BHM) höfum fengið síðan að við birtum kröfugerð okkar. Eftir að við birtum kröfugerðina hef ég fengið eitt símtal frá RÚV. Þá var ég spurð um það hvenær samninganefndin ætlaði að birta “fullburða” kröfugerð. Áhuginn var ekki tilkominn vegna málflutnings okkar eða þess sem að kröfugerðin innihélt, heldur vegna þess að Halldór Benjamín framkvæmdarstjóri SA hélt því fram opinberlega að Efling væri í raun ekki búin að vinna „heimavinnuna“ sína og kröfugerðin okkar væri ekkert tilbúin. Þetta gerði hann þrátt fyrir að ég hefði fyrir hönd samninganefndar Eflingar sent kröfugerðina á Samtök atvinnulífsins og birt hana opinberlega, m.a. sent fréttatilkynningu á alla fjölmiðla. Ég svaraði fréttamanni RÚV þegar að hún hringdi í mig og útskýrði skilmerkilega alla málavöxtu; kröfugerð okkar væri sannarlega fullburða og að ekkert væri til í fullyrðingum um að svo væri ekki. Eftir því sem að ég best veit birtist viðtalið þar sem að ég útskýrði þetta aldrei.

Ég get ekki annað en velt því fyrir mér þegar ég sé áhugann og athyglina sem að BHM fær og þegar að ég ber þetta saman við algjört áhugaleysið á kröfum Eflingar, hvort að stétta og láglauna-kvenna fyrirlitning ráði för þegar ákveðið er hvaða talsmenn stéttarfélaga fá pláss til að segja frá stöðu síns félagsfólks og kröfugerðum hjá RÚV. Er það svo að kröfugerð verka og láglaunafólks er metin of lágkúruleg, of ómerkileg, til að eiga skilið pláss hjá RÚV?

Sólveig Anna:

Þær manneskjur sem dvelja neðst í stigveldi íslensks vinnumarkaðs eru láglaunakonur.

Ég ætla ekki að svara þessari spurningu. En ég get sagt frá því ef einhver spyr mig, að RÚV hefur sýnt því sem næst 0% áhuga á kröfugerð Eflingar, lang-stærsta félags verka og láglaunafólks á landinu öllu. Þrátt fyrir að barátta félagsins síðustu ár hafi skilað miklum og raunverulegum árangri, þrátt fyrir að vinna félagsfólks Eflingar knýi áfram hagvöxtinn á höfuðborgarsvæðinu, þrátt fyrir að félagsfólk Eflingar sé augljóslega ómissandi fólk (hér væru t.d allir leikskólar lokaðir ef að Eflingar-félagar mættu ekki til vinnu), þrátt fyrir að efnahagsleg réttlætisbarátta Eflingar-fólks sé augljóslega einstaklega mikilvæg, eða ætti í það minnsta að vera það í samfélagi sem vill kenna sig við jöfnuð og velferð.

Staðreyndin er þessi: Þær manneskjur sem dvelja neðst í stigveldi íslensks vinnumarkaðs eru láglaunakonur. Samkvæmt kjarakönnun Eflingar sem að metþátttaka var í eru það konurnar sem að hafa mestar fjárhagsáhyggjur. Vinna undir mestu álagi. Hafa það verst. En eru þrátt fyrir þetta, en einmitt vegna alls þessa, þær manneskjur sem að hafa verið í framvarðasveit allrar verkalýðsbaráttu síðustu ár. Eða finnst ykkur kannski að háskólamenntuðu karlarnir hafi leitt baráttuna fyrir efnahagslegu réttlæti?

Ein af staðreyndum okkar efnahagslega veruleika er sú að tímaakaup háskólaamenntaðra karla 112% hærra en tímaakaup grunnskólaamenntaaðra kvenna. Kannski eru mörg ykkar sem viljið að munurinn verði enn meiri, 150%, 200%, 250%…, að flottu strákarnir fái ávallt meira, og að ómenntaðar láglaunakonur þjóðfélagsins haldi áfram að svitna fyrir hagvöxtinn og umönnunarkerfin, að þær haldi áfram að fá fyrir það laun sem hlekkja þær fastar á botni íslensku jafnréttis-paradísarinnar? Örmagna, aldrei lausar við fjárhagsáhyggjur, eilíflega fórnarlömb hins grimmilega verðmætamats sameiginlegra hagsmuna kapítalismans og feðraveldisins, þar sem að kven-vinnuaflið skal ofur-arðrænt í nafni náttúrulögmála efnahagskerfisins svo að flottu mennirnir haldi áfram að rísa ofar og ofar, óstöðvandi í leið sinni alla leið á toppinn.

Sólveig Anna:

Við munum halda áfram að berjast, stolt og sameinuð. Og við munum ná árangri.

Kannski finnst ykkur mikilvægast að auka launamun ómenntuðu konunnar og háskólamennta karlsins enn meira? Ég ætla þá að vera ykkur í það minnsta 112% ósammála.

Sem Eflingarkonu finnst mér fáránlegt að RÚV hafi engan áhuga á kröfugerð okkar og baráttu. Mér finnst fáránlegt að hægt sé að láta eins og við séum ekki til. En þrátt fyrir að þetta sé auðvitað til háborinnar skammar er staðreyndin þó sú að á endanum skiptir það okkur í samninganefnd Eflingar engu máli:

Stéttablinda þeirra sem að halda að þau séu betri en við er vissulega ömurleg. Vilji þeirra til að líta fram hjá og gera lítið úr ógeðslegu arðráninu sem að við höfum þurft að þola er til skammar. En áhugaleysi þeirra segir á endanum allt um þau og ekkert um okkur. Við munum halda áfram að berjast, stolt og sameinuð. Og við munum ná árangri. Vegna þess að við erum bókstaflega ómissandi fólk. Vinnuafl okkar er það verðmætasta sem til er í þjóðfélaginu. Án þess stoppar allt. Menn geta reynt að telja sér trú um að við séum ekki til í alvöru. En sömu lögmál gilda þar og um aðra sjálfsblekkiningu: Á endanum knýr raunveruleikinn að dyrum. Og að þessu sinni er raunveruleikinn risastór hópur af verka og láglaunakonum sem að ætla ekki lengur að láta koma fram við sig eins og hvert annað rusl. Við erum hér, við erum ómissandi og við ætlum alla leið. Það er í það minnsta 112% öruggt.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: