- Advertisement -

Til hvers er stjórnarskráin?

„En þeim finnst samt ekkert mál að setja lög sem brjóta gegn henni. Skemmtileg mótsögn.“

„Til hvers er stjórnarskráin eiginlega? Jú, stjórnarskrá lýðveldisins er æðstu lög Íslands sem öll önnur lög landsins verða að hlíta, grundvallarplagg þar sem stjórnskipan landsins er ákveðin og grundvallarréttindi borgaranna vernduð. Þrátt fyrir það hefur þessi spurning ásótt mig upp á síðkastið: Til hvers er stjórnarskráin? vegna þess að stundum er eins og ríkisstjórninni og þingmönnum meiri hlutans sem henni hlýða finnist stjórnarskráin bara vera upp á punt. Lagafrumvörp sem innihalda tillögur um lagaákvæði sem fela í sér inngrip í okkar allra mikilvægustu mannréttindi, inngrip sem teldust í allra besta falli afar vafasöm með tilliti til samræmis við stjórnarskrá, eru keyrð hérna í gegnum þingið og nefndir án þess að á neinum tímapunkti sé metið með formlegum og skipulögðum hætti hvort tillögurnar standist stjórnarskrá,“ sagði Anna Arndís Kristínardóttir Gunnarsdóttir á Alþingi.

„Frumvörp sem varða breytingar á lögum sem snerta á skuldbindingum íslenska ríkisins um grundvallarmannréttindi eru send út til þinglegrar meðferðar án þess að stakt orð í greinargerð frumvarpanna takist á við samræmi þeirra við stjórnarskrá. Nýverið fékk löggjafarvaldið væna áminningu af hálfu Hæstaréttar Íslands þegar dæmt var í máli sem varðaði neikvætt félagafrelsi, sem eru einmitt ein af okkar mannréttindum, en þá komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að lögin stönguðust á við stjórnarskrána. Í dómnum reifar Hæstiréttur hvernig löggjafinn sinnti ekki stjórnskipulegri skyldu sinni til að meta hvort lagasetning rúmaðist innan þeirra marka sem stjórnarskráin setur. Þá vísar dómurinn einmitt til greinargerðar með frumvarpinu sem varð að lögunum sem um ræðir, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Ekki hafi þótt gefa tilefni til að skoðað yrði sérstaklega að samræmi við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.“

Við erum með meirihluta sem elskar gildandi stjórnarskrá svo mikið að þau vilja helst ekki heyra minnst á þá nýju. En þeim finnst samt ekkert mál að setja lög sem brjóta gegn henni. Skemmtileg mótsögn.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: