- Advertisement -

Tilefni er til rannsóknar

Björn Leví Gunnarson skrifar:

Mig langar til þess að fara yfir þessa yfirlýsingu í smáatriðum.

Fyrst: „Skrifstofan hefur engin gögn sem benda til þess að rangt hafi verið haft við og röngum eða tilhæfulausum reikningum verið skilað inn til endurgreiðslu.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Nei, auðvitað ekki. Það myndi benda til þess að skrifstofan greiði viljandi tilhæfulausa reikninga. Það er enginn að halda því fram.

„Rétt er að Ásmundur endurgreiddi að eigin frumkvæði akstursgreiðslur sem hann hafði fengið þegar hann var í þáttagerð fyrir ÍNN en þingmaðurinn viðurkenndi að það hefðu verið mistök að leggja inn beiðni um endurgreiðslu fyrir þann akstur.“

Þarna er einmitt dæmi um tilhæfulausa reikninga sem ekki var sjáanlegt að væru tilhæfulausir fyrr en Ásmundur var spurður um hvort hann hafi fengið endurgreitt fyrir þessar ferðir, sem hann neitaði fyrst í Kastljósi en játaði svo eftir viðtalið. Hann neitaði af því að hann vissi væntanlega að það var ekki rétt að fá endurgreiðslu vegna þessara reikninga. Játaði svo þegar hann fattaði að hann myndi ekki komast upp með þessar endurgreiðslur. Ég samþykki því ekki „eigin frumkvæði“ athugasemdina í þessu.

Er þetta eini tilhæfulausi reikningurinn? Ja, það eru þessir með prófkjörin væntanlega. Þeir líta samt eðlilega út í augum skrifstofunnar, eru sem sagt ekki merktir með tilefninu „prófkjör“ Ég veit ekki hvaða tilefni er skráð er það er augljóslega tilefni sem passar við endurgreiðslureglur. Auðvitað finnur skrifstofan því ekki tilhæfulausa reikninga sem eru rangt merktir, ef ummæli Ásmundar um prófkjörin eru rétt … sem ég hef auðvitað enga ástæðu til þess að efast um.

„Það er starfsmönnum skrifstofu Alþingis þungbært að sitja undir ásökunum um að greiða tilhæfulausa reikninga og gæta ekki að meðferð almannafjár.“

Skrifstofan endurgreiddi augljóslega tilhæfulausa reikninga vegna ÍNN. Það er staðreynd. Það þýðir ekki að það sé skrifstofunni að kenna. Eins og fram hefur komið í skjölum málsins er þingmönnum treyst til þess að leggja fram rétta reikninga. Skrifstofan er fáliðuð, fagleg og hjálpsöm en það væri gríðarlegt verk að hringja á eftir öllum ferðum út af öllum reikningum.

Það sem ég gagnrýni helst snýr auðvitað að forseta og meirihluta forsætisnefndar, sem virðist ekki sjá það augljósa. Skrifstofan, eins miklar hetjur og þau eru, eru kannski ekki rannsóknarteymi þegar kemur að svona málum.

Tilefnið til rannsóknar er augljóst. Að þvermóðskast gegn því er afneitun.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: