- Advertisement -

Tvöfeldni í hverfulum heimi

Menning Guðlaug Dröfn Gunnarsdóttir opnar sýninguna Geirfuglar í Gallerí Fold kl. 15 laugardaginn 9. maí.

Á sýningunni eru um 25 myndir unnar á plexíglerplötur en einnig verk máluð á striga og pappír. 

Á glæru plexígler-verkunum eru fuglar af ýmsu tagi. Allt eru það smáfuglar og þeir eru allir á flugi. Þetta eru íslensku fuglarnir, þessir helstu sem eru farfuglar margir hverjir en einnig gæludýrafuglar; undúlantar, sebrafínkur og kólibrífuglar.

Verkin sem unnin eru á striga eru hins vegar áhrifamikil portrett af einstökum dýrum sem horfa í augu áhorfandans. Pappírsverkin eru einnig af dýrum en þar er meiri fjarlægð og þau eru í sínum heimi. 

Þú gætir haft áhuga á þessum

Öll verkin einkennast af samspili ljóss og skugga þar sem Guðlaug vinnur með birtuna og andstæður.

Gauðlaug Dröfn Gunnarsdóttir sótti sér grunnmenntun í myndlist í Danmörku þar sem hún bjó og svo nam hún við listaháskólann í Nice í Frakklandi á árunum 2002-7 þar sem hún lauk bæði B.A.- og M.A. námi.  Guðlaug hefur haldið einkasýningar bæði á Íslandi og í Frakklandi og tekið þátt í samsýningum í Þýskalandi, Austurríki, Danmörku, Frakklandi og Íslandi.

Sýningin stendur til 24. maí.

Viðtal Margrétar Tryggvadóttur við Guðlaugu Dröfn: Tvöfeldni í hverfulum heimi

Ég hitti Guðlaugu Dröfn Gunnarsdóttur á vinnustofunni hennar í Garðabæ þar sem hún er að leggja lokahönd á verkin sem hún ætlar að sýna í Gallerí Fold, Rauðarárstíg. Þar hef ég áður séð verkin hennar og heillast af einfaldleika þeirra og töfrum. Og unnendur verka hennar eiga von á góðu því þrír tugir nýrra verka bíða þess að hitta gesta sýningarinnar.

Á meðan Guðlaug hitar te handa mér segir hún mér undan og ofan af sér. Hún er uppalin á Tindsstöðum sem er nyrðsti bærinn á Kjalarnesi. Ung flutti hún til Danmörku þar sem hún lærði saum, sótti sér grunnmenntun í myndlist og lauk stúdentsprófi og svo nam hún við listaháskólann í Nice í Frakklandi á árunum 2002-7 þar sem hún lauk bæði B.A.- og M.A. námi.

Viðfangsefni Guðlaugar Drafnar á sýningunni má lýsa með tvennum hætti.

Í fyrsta lagi er það myndefnið. Öll verkin eiga það sameiginlegt að vera af dýrum. Á sýningunni eru um 25 myndir unnar á plexíglerplötur en einnig verk máluð á striga og pappír.

Á glæru plexígler-verkunum eru fuglar af ýmsu tagi. „Þetta eru allt smáfuglar og þeir eru allir á flugi. Þetta eru íslensku fuglarnir, þessir helstu sem eru auðvitað farfuglar margir hverjir en einnig gæludýrafuglar; undúlantar, sebrafínkur og kólibrífuglar,“ segir Guðlaug.

Verkin sem unnin eru á strigann eru hins vegar áhrifamikil portrett af einstökum dýrum sem horfa í augu áhorfandans. Pappírsverkin eru einnig af dýrum en þar er meiri fjarlægð og þau eru í sínum heimi.

Hin leiðin til að lýsa verkunum væri að segja að þau einkennist öll af samspili ljóss og skugga. Guðlaug segir mér að hún sér heilluð af andstæðum og í fyrri verkum sínum hafi hún einnig unnið með birtuna, þótt það hafi verið með öðrum hætti en nú. Áður vann hún gjarna stór landslagsmálverk þar sem birtan myndaði andstæðu við landið.

Nú er það birtan sem framkallar verkin. Fuglarnir eru málaðir með hvítri akrílmálningu á glærar plexíglerplötur sem hanga nokkra sentímetra frá veggnum. Þegar myndirnar eru hengdar á hvítan vegg er auðvelt að gera sér í hugarlund að við viss birtuskilyrði séu myndirnar nánast ósýnilegar. Sé ljósi, manngerðu eða náttúrulegu, varpað á þær má segja að þær framkallist fyrir augum áhorfenda – bæði verður hvítur, fagurlega teiknaður fuglinn sýnilegur, sem og dökkur skugginn sem hann varpar á vegginn.

Guðlaug segir að henni finnist myndirnar njóta sín best í náttúrulegri birtu á stað þar sem sólin geti skinið beint á þær. Þá birtast þær og hverfa og lifa eiginlega eigin lífi og skuggamyndin færist til, skugginn lengist og styttist, ýmist skýrist eða verði þokukenndari, allt eftir sólarganginum. Þannig eru fuglarnir í raun á sífeldu ferðalagi.

Sé veggurinn í öðrum lit en hvítum er hvíti fuglinn ávallt greinilegur en skugginn fylgir honum engu að síður. Guðlaug brosir þegar við ræðum þetta og ég get ekki annað en dáðst að æðruleysinu sem fylgir því að eftirláta aðstæðum á hverjum stað endanlega útkomu verkanna.

Guðlaug segir mér að hún hafi byrjað árið 2013 að vinna með þessum hætti og það hafi eiginlega byrjað með fikti. Henni hafi verið gefnar nokkrar plexíglerplötur sem hún hafi lengi verið að vandræðast með. Fyrstu fuglarnir sem hún teiknaði á þá voru hvítir hrafnar, sem urðu auðvitað svartir þegar skugginn af þeim þeim féll á vegginn.

Guðlaug segist hafa gaman af þessari tvöfeldni í myndunum. Henni finnist heillandi að vinna við andstæður, bæði í efninu sem og birtuskilyrðum og ljósi. Hún útskýrir að þetta sé einnig tengt hugmyndunum um helli Plató; þú ert með eitthvert viðfang annars vegar og svo skuggamyndina sem getur verið allavega. Töfrarnir fæðist í ljósinu og það eru þeir sem geri það spennandi að mála. Litir eru í raun ljós og málun því vinna með ljósið.

Málverkin sem eru unnin á striga sýna öll sterkar myndir af dýrum, eiginlega eru þetta portrett. Fyrri verk Guðlaugar hafi verið laus við alla mannlega tilvist en nú segist hún vera að fikra sig nær mannheimum.

„Það besta við dýrin er að þau eru svo saklaus. Sakleysið á svo erfitt uppdráttar í heiminum, það er ofsalega íþyngjandi að vera meðvitaður um það. Heimurinn getur verið niðurdrepandi og sakleysið verður alltaf undir,“ segir Guðlaug og bendir einnig á að það sama eigi við um börn og hún finni fyrir því eftir að hafa orðið foreldri. „En það þýðir ekkert að æpa, það nennir enginn að hlusta á það. Ég velti fyrir mér hvernig ég geti miðlað þessu með öðrum hætti og unnið með þetta. Og einnig unnið með vanmáttinn gagnvart þessu fyrirbæri. Ég reyni að ná einhverjum essens sem ég get miðlað áfram.“

Guðlaug segist vilja draga fram kjarnann í hlutunum sem felst ekki síst í fegurð þeirra og sakleysi sem allir skilja án útskýringa. „Kannski gerir það fólk móttækilegra fyrir verndun náttúrunnar? Ég reyni að horfa í augun á fólki með sakleysinu.“

Guðlaug segir að sami kjarni sakleysis búi í dýrum og börnum, nema viðkomandi sé misþyrmt og það sé slökkt á einhverjum stöðvum. Veröldin sé öll svo viðkvæm og frá þeim pælingum sé heiti sýningarinnar fengið. Hún á að heita Geirfuglar þótt engir slíkir séu á myndunum. „Geirfuglinn hefur orðið að táknmynd fyrir dýrið sem við útrýmdum, rétt eins og voðaverk nasista í seinni heimsstyrjöld eru hið endanlega þjóðarmorð. Samt er hvoru tveggja enn að eiga sér stað. Við fáum fréttir af þjáningum og dauða fólks úti í heimi á hverjum degi, atburðum sem eru þjóðarmorð. Og á sama hátt erum við alltaf að ganga nær og nær náttúrunni,“ segir Guðlaug. Myndir hennar eru í raun táknmynd þessar. Um leið og birtuskilyrðin breytast hverfur myndefnið. Það þurfi ekki meira til.

Guðlaug tekur ábyrgð sína sem listamanns alvarlega. Henni finnst hún bera mikla ábyrgð sem listamaður. „Það er svo mikilvægt í dag að vera listamaður. Listamaðurinn má alltaf segja það sem honum finnst, hann á ekki að hafa neina hagsmuni eða vera tengdur hagsmunaaðilum.  Ég fær allt það frelsi sem ég vill taka mér og það eru forréttindi. Mér finnst ég bera ábyrgð á að virkja þann rétt en ég veit að það virkar ekki að standa og hrópa. Ég þarf að finna réttu leiðina til að koma hlutunum að. Sá fræjum á góðan hátt,“ segir Guðlaug að lokum.

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: