- Advertisement -

Tvöföld refsing fyrir að reyna að bjarga sér

„Flokkur fólksins lagði fram tillögu um að 360 millj. kr. yrði varið til þess að hjálpa 6.000 eldri borgurum svo þeir fengju nú 60.300 kr. skatta- og skerðingarlaust núna um jólin. Þetta er lægri upphæð en er verið að hækka til Ríkisútvarpsins og er sennilega nálægt því að vera helmingi lægri upphæð heldur en það sem er lagt til að borga til svokallaðra frjálsra fjölmiðla. Svo fundust 150 milljónir í skúffu til Kvikmyndasjóðs,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson.

GIK: Finnst honum að honum hafi tekist það?“

Hann hélt áfram: „Við vorum búin að skera niður tillöguna um eldra borgara niður í 2.000, sem hefði gert 120 milljónir, en það var ekki hægt að samþykkja það. Síðan fundust allt í einu 100 milljónir sem er hægt að setja í sjónvarpsstöð úti á landi sem útgerðarmenn eiga sem vaða í peningum og vita ekki aura sinna tal. Á sama tíma eru einstaklingar með 240.000 kr. útborgað að flýja húsnæði sitt sem þeir hafa ekki efni á að leigja lengur og eru komnir í hjólhýsagarð í Laugardalnum. Það er ekki nóg að viðkomandi sé refsað fyrir það að eiga ekki fjármuni til að standa undir leiguhúsnæðinu heldur á að refsa líka fyrir það að hún fari í hjólhýsagarð í Laugardalnum því þá fær hún ekki húsnæðisuppbót. Það þarf tvöfalda refsingu fyrir það að reyna að bjarga sér. Ég spyr því hæstvirtan fjármálaráðherra hvort honum finnist þetta eðlilegt og hvort honum finnist ekki að það ættu að vera til peningar fyrir þetta fólk vegna þess að hann var búinn að segja það einhvern tíma að hann ætlaði að sjá til þess að draga verulega úr skerðingum eldri borgara. Finnst honum að honum hafi tekist það?“

„Þannig að já, svarið er já, við drógum gríðarlega úr skerðingunum,“ sagði Bjarni Benediktsson.

BB: En við gerðum meira en það.

„En við gerðum meira en það. Við sameinuðum bótaflokka og við hækkuðum framlögin. Þannig eru heildarframlögin inn í ellilífeyri almannatrygginga núna yfir 100 milljarðar en voru rétt um 40 milljarðar árið 2013 þegar ég kom í fjármálaráðuneytið á verðlagi þess tíma. Aukningin er gríðarleg og við sjáum það á tekjusagan.is að jafnvel þótt fólk sé með mun betri réttindi í lífeyriskerfunum okkar, er sem sagt að fá meira útborgað sem lífeyrisréttindi á efri árum, þá eru bæturnar samt miklu hærri. Hvernig getur það gerst öðruvísi en að við höfum hækkað bótaréttindin og dregið úr skerðingum? Ella hefði þetta ekki getað gerst. Þetta er að gerast hjá öllum tekjutíundum eldri borgara. Þannig að svarið er já. Við stóðum við það sem við sögðumst ætla að gera.“

Guðmundur Ingi: „Ég þakka hæstvirtum ráðherra fyrir svarið. Samkvæmt heimasíðu TR er 286.000 kr. lægsti lífeyrinn. Sumir eru með 10% minna, sem verða fyrir búsetuskerðingum og krónu á móti krónu skerðingum og eru að reyna að lifa af 240.000 kr. á mánuði. Nú hefur verið fullyrt hér í þessum ræðustól að stór hópur, flestir ellilífeyrisþegar, fái jóla- og orlofsbónus, sérstaklega jólabónus var talað um núna. Orlofs- og jólabónusinn er 104.000 kr. En vill hæstvirtur fjármálaráðherra skýra út fyrir mér hvers vegna í ósköpunum hann er skertur alveg niður í 0 hjá stórum hópi þessa fólks og sumir fá bara smá af þessu, aðrir ekki? Hvers vegna í ósköpunum getið þið ekki einu sinni leyft þessum hópi að fá skerðingarlausan orlofs- og jólabónus?“

BB:…það er fólk sem hefur engin réttindi neins staðar og engar tekjur.


„Í réttindakerfi okkar hjá almannatryggingum er gengið út frá því að þeir sem hafa betri stöðu fái minna og þeir sem hafa verri stöðu fái meira og það gildir um öll réttindin,“ sagði Bjarni og sagði svo: „Við höfum hins vegar verið að byggja upp mjög flókið kerfi og það eru mismunandi skerðingarhlutföll eftir því hvaðan tekjustraumarnir eru og það má alveg gagnrýna það. Ég held hins vegar að breytingarnar sem við gerðum 2016 hafi verið mjög til einföldunar og við eigum eftir að ljúka þessu sama fyrir öryrkja.“

Bjarni var ekki hættur: „Mér finnst vera skortur á því þegar háttvirtur þingmaður tekur til máls um þennan málaflokk að hann sýni því skilning að á Íslandi erum við að byggja upp kerfi sem ganga út á það að fólk hafi náð að nýta starfsævina til að leggja til hliðar, byggja upp lífeyrisréttindi fyrir efri ár. Kerfið sem fólk á þess vegna að treysta á er skyldusparnaðarkerfið á Íslandi. Það ætti, eftir því sem tímar líða, að verða minna um það að fólk þurfi að treysta á almannatryggingar. Dæmin sem háttvirtur þingmaður var með hér um fólk sem er á algerum strípuðum bótum almannatrygginga, það er fólk sem hefur engin réttindi neins staðar og engar tekjur. Þannig að við erum ekki að tala hér um hið dæmigerða almenna tilvik eldri borgara. Það heyrir til algerra undantekninga að fólk komi á efri ár án þess að hafa getað nýtt starfsævina að nokkru leyti til þess að leggja til hliðar.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: