- Advertisement -

Ummyndun í Listasal Mosfellsbæjar

Menning Á laugardaginn verður opnuð í Listasal Mosfellsbæjar, Kjarna, Þverholti 2, einkasýning Þórdísar Jóhannesdóttur undir heitinu Ummyndun. Þar sýnir hún röð ljósmynda með ljóðrænu yfirbragði sem hún hefur unnið að undanfarið.

Þórdís Jóhannesdóttir útskrifaðist úr myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2007 og stundar nú nám í myndlist á meistarastigi við sama skóla. Hún hefur unnið ötullega að myndlist undanfarin ár og tekið þátt í fjölda sýninga hérlendis og erlendis.
Þórdís Jóhannesdóttir útskrifaðist úr myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2007 og stundar nú nám í myndlist á meistarastigi við sama skóla. Hún hefur unnið ötullega að myndlist undanfarin ár og tekið þátt í fjölda sýninga hérlendis og erlendis.

Þórdís Jóhannesdóttir útskrifaðist úr myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2007 og stundar nú nám í myndlist á meistarastigi við sama skóla. Hún hefur unnið ötullega að myndlist undanfarin ár og tekið þátt í fjölda sýninga hérlendis og erlendis. Þórdís er einnig annar helmingur myndlistartvíeykisins Hugsteypunnar. Sýningin Ummyndun í Listasal Mosfellsbæjar er önnur einkasýning Þórdísar.

Sýning Þórdísar í Listasalnum er opin á afgreiðslutíma Bókasafns Mosfellsbæjar kl. 12-18 virka daga og 12-15 á laugardögum. Sýningin stendur til 16. ágúst 2014. Aðgangur er ókeypis.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Á sýningunni sýnir Þórdís Jóhannesdóttir röð þrettán ljósmynda sem hún hefur unnið að undanfarið. Verkunum hefur Þórdís komið þannig fyrir í salnum að þau mynda innsetningu og kallast á innbyrðis í formum og litum. Líkt og í fyrri verkum Þórdísar hafa ljósmyndirnar yfir sér órætt og ljóðrænt yfirbragð og við fyrstu sýn virðist myndefni þeirra alls óskylt.

Myndirnar eiga það sammerkt að hafa allar verið teknar af verkum annarra listamanna þar sem Þórdís hefur fangað sjónarhorn og augnablik sem hafa heillað hana á sýningum sem hún hefur heimsótt. Þrátt fyrir að myndirnar séu teknar á opinberum sýningum þekktra listamanna koma flestar ljósmyndirnar sem hér um ræðir frekar ókunnuglega fyrir sjónir. Oftast er erfitt að greina hvaða listamenn eiga verkin sem hér eru notuð sem hráefni í ný verk, þó að inn á milli megi greina þekkt stef eða vísanir í sýningarstaði sem gefa ákveðnar vísbendingar. Þannig hefur Þórdísi tekist að fanga ný og áhugaverð sjónarhorn sem lýsa í raun ekki því sem almennt fyrir augu bar, heldur því sem fangaði athygli hennar hverju sinni og bera merki um næmt auga þeirrar sem myndavélina mundar.

Það að taka fundna hluti, myndir úr umhverfinu, sem og verk eða myndefni eftir aðra listamenn og nota sem hráefni í eigin verk er þekkt stef í myndlist og fékk á níunda áratugnum heitið yfirtökulist (e. Appropriation Art). Sú gjörð er oftast rakin til Duchamp og notkunar hans á fundnum hlutum í svokölluðum „ready-mades“ snemma á 20. öldinni. Popplistamenn á borð við Andy Warhol héldu þróuninni áfram með notkun hluta og myndefnis úr neyslumenningunni á sjötta og sjöunda áratugnum. Á níunda áratugnum fóru listamenn á borð við Sherrie Levine, Louise Lawler og Elaine Sturtevant að nota verk eftir aðra sem efni í eigin verk. Eitt þekktasta dæmið eru ljósmyndir sem Sherrie Levine tók af ljósmyndum Walker Evans og setti fram í óbreyttri mynd. Með verkunum setti Levine fram áhugaverðar spurningar um frummynd og eftirmynd, frumleika og höfundarrétt, en með því að setja verkin fram í nýju samhengi varð til ný umræða og þar með ný verk. Hugmyndafræðin bak við ljósmyndir Louise Lawler af verkum annarra listamanna á sýningum, heima hjá söfnurum, á uppboðum og í geymslum safna snerist um gagnrýni á umgjörð og meðhöndlun listaverka sem að hennar mati voru undirorpin sölu- og markaðslögmálum. Verk hennar snerust einkum um hvernig breyttar aðstæður hafa áhrif á samhengi listaverka og viðhorf okkar til þeirra.

En það sem skilur gjörðir Þórdísar frá verkum ofannefndra listamanna er að í tilfelli hennar virðist ekki vera um sérstaka gagnrýni eða hugmyndafræðilega nálgun að ræða. Hér er frekar um að ræða fagurfræðilega nálgun þar sem Þórdís nálgast viðfangsefni sitt á sama hátt og hún myndi ef til vill nálgast hvaða hversdagslega myndefni sem er. Hér væri kannski frekar hægt að færa rök fyrir því að Þórdís sé að feta í fótspor ljósmyndara sem nota ljósmyndavélina til skrásetningar á því sem á vegi þeirra verður og ljósmyndirnar þannig einskonar vitnisburður um samtímamyndlistarsýningar eða portrett af íslenskri samtímamyndlist – eða hvað? Óræð sjónarhorn, speglanir, mismunandi brennivíddir og leikur með fókuspunkt gera að verkum að frummyndirnar verða illgreinanlegar í meðförum Þórdísar. Litir, form og línur öðlast sjálfstætt líf og verða að nýjum verkum þar sem hvert verk virðist lúta eigin lögmálum og mynda eigin heim. Samband frummyndar og eftirmyndar öðlast óræða vídd og svo virðist frekar sem Þórdís noti myndavélina til að búa til óhlutbundin verk sem minna um margt á málverk. Eru verkin því kannski frekar vitnisburður um þau fagurfræðilegu áhrif sem Þórdís verður fyrir við skoðun á verkum annarra listamanna sem hún setur hér fram á malerískan hátt í ljósmynd?

Samband áhorfandans við verkin hverju sinni, hversu mikið verkin gefa uppi og á hvaða hátt áhorfandinn upplifir þau eru þættir sem Þórdísi hafa verið hugleiknir í talsverðan tíma. Í verkunum sem hér eru sýnd gengur hún ef til vill skrefi lengra en áður þar sem hún setur sjálfa sig í hlutverk áhorfanda á sýningum annarra listamanna og fangar sjónarhorn sem hún svo sýnir sínum áhorfendum. Má þá segja að listamaðurinn sé kominn með tvíþætt hlutverk: sem virkur áhorfandi og skapari á sama tíma. Ljóst er að hefðbundnar skilgreiningar draga skammt þegar kemur að verkum Þórdísar og því erfitt að setja þau undir ákveðinn hatt í listsögulegum skilningi. Er það einmitt sá eiginleiki sem gerir þau áhugaverð og spennandi. Órætt yfirbragð ljósmyndanna gerir að verkum að þær verða aldrei einsleitar og túlkun þeirra ennþá síður.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: