- Advertisement -

Útgerð: Er vitlaust gefið?

Síðan eru tíu ár liðin og nú er ætlun ráðherra að geirnegla fyrirkomulagið til sex ára til viðbótar.

Gunnar Ingiberg Guðmundsson skrifar. Höfundur er í framboði til formanns Landssambands smábátaeigenda:

Nú er tæpur mánuður síðan að umsagnaferli um nýtt frumvarp til laga um stjórn fiskveiða lauk.  Frumvarpið tekur saman tillögur starfshóps um 5.3% frjálsa hluta fiskveiðistjórnunarkerfisins. Í því mengi teljast byggðakvótar, línuívilnun, varasjóður og svo strandveiðar. Þetta eru raunar öll þau kerfi sem hafa í gegnum árin verið plástur á núverandi aflamarkskerfi.

Heimildirnar sem um ræðir tilheyra allar þeim 5.3% hluta ríkisins sem tilgreindur er í lögum um stjórn fiskveiða. Samkvæmt stefnuyfirlýsingu þá var ætlunin að auka fyrirsjáanleika í sjávarútvegi. Það er skemmst að minnast þess þegar strandveiðikerfinu var breytt þannig að miðlægur pottur næði yfir allt landið. Það var ætlunin að meta áhrifin að ári liðnu en síðan eru liðin 3 ár.  Ennþá er beðið eftir að einhverjir hefji rannsóknina. Núna er ætlunin að fá sex ára tilraun samkvæmt yfirlýstum markmiðum starfshópsins.

…eins og gerðist í Grímsey, Djúpavogi eða Akranesi?

Í forsendum starfshópsins sem ráðherra skipaði til að skila skýrslu um tillögum að breytingum voru markmiðin meðal annars að:

• Auka ætti svigrúm stjórnvalda til þess að bregðast við óvæntum áföllum í sjávarútvegi til skemmri tíma.

• Stuðla ætti að fjölbreytni og tækifærum til nýliðunar í sjávarútvegi.

Það er ekkert óvænt við áföll í sjávarútvegi og það er hreinlega firra að ætla ráðherra 8.1% til að mæta slíkum áföllum. Er það óvænt áfall ef útgerð ákveður að pakka saman og flytja bæjarfélaga á milli eins og gerðist í Grímsey, Djúpavogi eða Akranesi? Er það fullnægjandi forsenda til þess að ráðherra taki þá til síns ráðs og verðlauni hegðunina með sérstökum potti?

Þetta er nákvæmlega það sama og er búið að gerast á ári hverju áratugum saman. Hvaða lausn er það að ráðherra komi með plástur svona rétt til þess að sefa háværustu raddirnar þangað til að næsta “áfall” dynur á. Það virðist vera sem að eini fyrirsjáanleikinn í sjávarútvegi sé sá að við fórnum einu byggðarlagi á nokkurra ára fresti. Það skýtur því skökku við að starfshópurinn segi þessi 8.1% séu til þess að stjórnvöld hafi sveigjanleika en gleymir að nefna að hin 91.9% verði ósveigjanleg.

Eins og staðan er í dag eru í gangi tvö afbrigði af byggðakvóta. Annars vegar sá sem úthlutast eftir mjög flóknum reglum um smærri byggðir og byggðarkjarna. Hins vegar þessi sértæki byggðakvóti þar sem aðilar þurfa að hafa á bak við sig heimildir og vinna hann í eigin vinnslu. Oft eru það mjög stæðilegar útgerðir sem fá til sín þessar heimildir og halda uppi vinnslu í bæjarfélögum þar sem annars væri ekki vinnsla. Í öðrum tilvikum er aflinn keyrður í burtu eftir ísun á staðnum og vinnslan ekki raunveruleg.

 Annars vegar í strandveiðum og svo við grásleppuveiðar.

Þetta hefur í för með sér töluverð særindi þar sem oftar en ekki er aðilum sem ætla sér að hefja útgerð gert að leigja heimildir fá þessum sömu aðilum. Í almenna byggðakvótanum er það í hlutverki sveitastjórna að ákvarða frekari reglur um úthlutun gæðanna og oftar en ekki er gerð krafa um að menn leigi sér aflaheimildir á móti þeim sem þeir fá úthlutað.  Það verður til þess að eftirspurn eftir kvóta til leigu eykst og verðið eftir því.  Það er því fyrir einhverja hagstæðasta rekstrarformið að sitja í landi telja peninga fyrir kvótaleigu og láta einhverja aðra um að veiða.

Enginn skilur svo neitt í því að það gangi eitthvað brösuglega að fá ungt fólk til þess að hefja útgerð. Það eru 4 mánuðir á ári þar sem hægt er að gera út smábát á Íslandi án þess að vera undir aðra kominn. Annars vegar í strandveiðum og svo við grásleppuveiðar. Niðurstaðan er nú samt sú að starfshópurinn ætlar sér að byggja í öllum megindráttum á núverandi fyrirkomulagi. Því er hjal um nýliðun bara orðagjálfur.

Hvernig má það vera að sami starfshópur hafi markmiðið að auka nýliðun og fjölbreytni en í sömu andrá að halda sér við óbreitt fyrirkomulag í öllum megindráttum?

Fulltrúar sveitastjórna leggja til vilja að þeir fái leyfi til þess að áframleigja heimildirnar sem þeim er úthlutað til þess að styðja við aðra atvinnuuppbyggingu.  Jafnframt mæðir þetta töluvert á sveitarstjórnarmönnum lítilla bæja að þurfa að útdeila þessum takmörkuðu gæðum þar sem lítil eða engin umgjörð kemur frá ríkinu, því er mjög mikill þrýstingur á sveitastjórnirnar sjálfar.

…að nýliðun sé möguleg og aðgerðir við óvæntum áföllum óþarfar?

Aflareglan sem stjórnvöld vinna með getur til um 20% nýtingu á heildarstofni þorsks, en mönnum reiknast til að raunnýting er ekki nema 18% þegar gögnin eru skoðuð til hlítar.  Hvernig væri nú að fara eftir aflareglunni sem getur til um 20% nýtingu. Auknar veiðar kæmu sér vel sem innspýting fyrir hagkerfið sem nú hangir á engu öðru en lyginni. Þess ber að geta að hún var bundin við 25% af heildarstofni fyrir ekki svo löngu og fyrir daga kerfisins var nýtingin einhvers staðar á bilinu 35-40%.

Í lokaorðum kemur svo fram að það sé mikilvægt að stjórnvöld geti brugðist við til skemmri tíma við óvæntum áföllum. Af hverju má ekki hátta kerfinu þannig að það sé fyrirsjáanleg niðurstaða að nýliðun sé möguleg og aðgerðir við óvæntum áföllum óþarfar?

Þetta bara gengur ekki lengur, hvernig má það vera að á þrjátíu og sjö ára tímabili sem við höfum notað aflamarkskerfið við stjórnun fiskveiða hefur engum reynst unnt að koma kerfinu fyrir þannig að það sé mögulegt að hefja útgerð og jafnframt að fyrir eljusama aðila fáist uppskera erfiðisins ?. Það ætti undir eðlilegum kringumstæðum að vera úthlutað úr almenna pottinum eftir aflareynslu í frjálsu kerfunum.

Því legg ég til að byrjun á útgerð verði strandveiðar eða grásleppa. Í lok sumars leggurðu inn þína veiðireynslu og færð að launum uppskeru erfiðisins. Fiskurinn sem úr þessu kemur fer síðan á frjálsan markað rétt eins og fyrirkomulag strandveiða. Þetta myndi að lokum leiða til þess að þeir sem leggja kraft í veiðarnar geta haldið áfram eftir sumarið og eftir því sem árin líða fengið stöðuga úthlutun byggt á vinnunni sem lögð var til. Einnig mun aukið framboð á fiskmörkuðum landsins stærri hluta úr ári auka fyrirsjáanleika þeirra sem stunda fiskvinnslu. Þessar heimildir myndu taka til hvernig árin á undan hafa gengið og rýrna svo ef aðilinn hættir útgerð eða leggur inn sitt veiðileyfi.

Þessar heimildir eiga ekki undir neinum kringumstæðum að verða sölu- eða leiguvara. Fyrir utan þann kost að vera augljós stökkpallur fyrir þá sem eru til í að leggja þetta á sig myndi þetta leiða til niðurstöðu sem flestir sætta sig við. Það væri þá í fyrsta sinn í áratugi þar sem nýliðun væri fyrirsjáanleg í sjávarútvegi.

Það er enginn heilög ritning að úthlutað skuli út frá veiðireynslu einu sinni og svo aldrei aftur eftir það. Skynsamlegast væri að úthlutað væri reglulega út frá veiðireynslu. Regluleg úthlutun er eðlileg ef við viljum ekki erfðaveldi byggt á áratugagömlum gögnum.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: