- Advertisement -

Vandi aldraðra í áður óþekktum hæðum

Landspítali rekinn með halla sem skýrist meðal annars að starfsfólk er of fátt og því þarf fólk að vinna óhóflega yfirvinnu.

„Fyrir liggur því miður að halli verður á starfsemi spítalans á þessu ári og rekstur næsta árs verður áskorun,“ segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, í helgarpistli sínum.

„Helgast þetta af annars vegar skorti á mannauði við hjúkrun sem leiðir til þess að starfsfólk þarf að vinna miklu meiri yfirvinnu en góðu hófi gegnir. Hins vegar fær spítalinn ekki allar þær launabætur sem þarf til að standa straum af kjarasamningum. Við eigum í ágætu samtali við velferðarráðuneytið um viðbrögð við hallanum eins og lög gera ráð fyrir. Það er mikilvægt að árétta að þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir að framlög til byggingar nýs Landspítala dragist talsvert saman á næsta ári samkvæmt frumvarpinu þá eru eðlilegar skýringar á því. Fyrirsjáanlegar tafir hafa verið á framkvæmdum sem skýra þessa breytingu en munu þó ekki hafa áhrif á ætluð verklok heildarverksins, sem er árið 2024.“

Og það er fleira sem veldur vanda. Páll skrifar:

„Eins og allir sem á spítalanum starfa þekkja vel hefur mikið álag verið á starfseminni og hinn þekkti „fráflæðisvandi,“ eða útskriftavandi aldraðra í áður óþekktum hæðum. Á hverjum tíma eru nú um 130 einstaklingar á spítalanum sem lokið hafa meðferð, hafa færni- og heilsumat og bíða rýmis á hjúkrunarheimili. Þá eru ótaldir þeir sem ekki komast heim vegna þess að tiltekna þjónustu skortir í umhverfi þeirra. Þetta getur haft vond áhrif á þjónustu við bráðveika, unga sem aldna, enda náum við ekki að nýta allt að fjórðungi bráðarýma eins og ætlað er. Því miður gerast góðir hlutir afar hægt í uppbyggingu þjónustu við aldraða þótt viljinn sé svo sannarlega fyrir hendi á öllum stigum stjórnsýslunnar og fer þar heilbrigðisráðherra fremstur. Það var því ánægjulegt að sjá tilkynningu ráðuneytisins í gær um opnun nýrra hjúkrunarrýma á næsta ári. Það er afar mikilvægt að þessi uppbygging haldi áfram að fullum krafti, samhliða þróun fjölbreyttrar þjónustu við fólk í heimahúsum og þar er mikið grasrótarstarf þegar unnið.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: