- Advertisement -

Vandræðalegt að vera íslenskur þingmaður

Rósa Björk: Alþingi taki skýra afstöðu gegn kvenfyrirlitningu.

„En nú er svo komið að það er vandræðalegt að vera íslenskur þingmaður erlendis. Þar sem kynjajafnrétti ber á góma spyr fólk um Klaustursmálið. Erlendir ráðherrar, þingmenn annarra þjóðþinga og starfsfólk Evrópuráðsþingsins spyr allt um þetta mál, enda vant því að Ísland sé í fararbroddi þegar kemur að jafnréttismálum,“ sagði Rósa Björk Brynjólfsdóttir á Alþingi fyrr í dag.

Rósa Björk sagði einnig: „Orðspor okkar þegar kemur að jafnréttismálum, okkar helsta stolt í alþjóðasamstarfi, er í mikilli hættu. Þess vegna er dapurlegt að hér skuli viðbrögð við Klaustursmálinu flækt í lagaflækjur sem, undarlegt nokk, þjóna oftast hagsmunum þeirra sem viðhafa kvenfyrirlitningu eða setja málið í fangið á minni hluta Alþingis.“

Hún sagði svo: „Þetta mál verður að leysa. Vilji þjóðarinnar er skýr um það og vilji þingsins er skýr. Allir viðstaddir þingmenn studdu breytingar á siðareglum þingmanna sem hnykktu á reglunum vegna #metoo. Markmiðið með þeim breytingum var að gera fólki kleift að sinna starfi sínu án þess að eiga á hættu að þurfa að þola kynferðislega áreitni, og stuðla þannig að öruggu og heilbrigðu starfsumhverfi.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Og Rósa Björk endaði ræðu sína svona: Ég hvet þingheim allan til að rifja upp hvað við samþykktum í þessum sal og láta ekki eins og ekkert hafi í skorist. Annars er ekkert að marka þessar fínu ályktanir okkar. Það er kominn tími til að viðbrögð Alþingis verði afdráttarlausari og að Alþingi taki skýra afstöðu gegn kvenfyrirlitningu og með þeim sem fyrir henni verða. Það er kominn tími til að hætta að draga málið í pólitíska dilka eða láta undan frekjukallapólitík. Virðing Alþingis er undir.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: