„Í gær urðum við vitni að því að þjóðhátíðardeginum okkar var sýnd mikil vanvirðing hér við Austurvöll og um leið þjóðfána okkar Íslendinga. Eigum við bara að láta slíkt viðgangast? Það eru næg tækifæri á Íslandi fyrir einstaklinga og hópa að koma pólitískum sjónarmiðum á framfæri alla aðra daga. Hvorki er staður né stund fyrir það á þjóðhátíðardaginn okkar. Getum við ekki verið sammála um að íslenska þjóðin fái að fagna lýðveldisafmælinu og hampa þjóðfána sínum í friði? Þetta var dapurleg tilraun til að niðurlægja íslensku þjóðina og hrein vanvirðing við þjóðfánann. Komum í veg fyrir svona atburði á þjóðhátíðardaginn okkar í framtíðinni og berum öll virðingu fyrir þessum mikilvæga hátíðisdegi,“ sagði Rósa Guðbjartsdóttir á Alþingi fyrir skemmstu.
Fyrr sagði Rósa:
„Í gær fögnuðum við 81 árs afmæli íslenska lýðveldisins og eins og jafnan á þessum hátíðisdegi komum við saman og gleðjumst yfir merkum og mikilvægum áfanga. Á þjóðhátíðardaginn klæðum við okkur upp og fögnum frelsinu, lýðræðinu, mannréttindunum, sjálfstæði og sérstöðu þjóðarinnar. Þá fögnum við sérstaklega gildunum okkar. Við leggjum áherslu á hvað sameinar okkur, hvað það er að vera Íslendingur og búa á Íslandi. Hingað til höfum við sammælst um að leggja stjórnmál og deilur til hliðar á þessum degi, hampa þess í stað því sem sameinar, minnumst á gildin okkar, menninguna, upprunann, hefðirnar og sérstöðuna og það undir merkjum íslenska þjóðfánans sem við erum svo stolt af og umgöngumst af mikilli virðingu. Að hópar fólks skuli koma saman á þessum degi og það við hátíðarhöld við Alþingishúsið, veifandi fána annars lands og hrópa ókvæðisorð að ráðamönnum og öðrum viðstöddum er óboðlegt.“