- Advertisement -

Verðmæti verða til á sjúkrahúsum

Sprengisandur Hér er inngangsorðin í Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.

Það sem ég vil segja eða tala um er ófremdarástandið í heilbrigðiskerfinu og eðlilega beinast spjórin helst að Landspítalanum. Við megum aldrei og eigum aldrei að sætta okkur við hvernig komið er. Það vonda er, að það þarf ekki verkföll til að færa heilbrigðiskerfi á verri stað en viljum hafa það, og það kannski var fyrir nokkrum árum, nokkuð mörgum árum. Við höfum lengi sofið á verðinum og margt fólk hefur bent á að við höfum dregist aftur úr.  Hættulega langt.

Okkar bíður það verkefni að sækja á, bæta í, laga það sem aflaga hefur farið, en þess í stað veikist þessi mikilvæga stoð hvern einasta dag. Og við, fólkið í landinu, eða réttara sagt það fólk sem var kosið til að leiða þjóðina áfram, stendur ráðalaust hjá. Meðan veikist veik grunnstoð velfernaðar í landinu.

Faðir skrifaði mér bréf, sem hundruðir eða þúsundir annarra hefðu getað skrifað, allavega svipað eðlis. Dóttir þessa manns, sem er veik af krabbameini, mætti í eftirlit, en var tilkynnt að hún þyrfti frá að hverfa vegna verkfalls. Hún gekk út, settist inn í bílinn sinn og grét í langan tíma. Hún er eitt fjölmargra fórnarlamba átaka fólks um allt annað, átaka um peninga. Það eru átök um peninga og vopnin í þeim átökum eru veikt fólk, heilsa þess, fjölskyldur þess og vinir. Þetta er hreint ömurlegt.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Bæði það fólk sem berst við ríkið um peninga og fulltrúar okkar hjá ríkinu verða að bregðast við. Við viljum ekki svona ástand. Við erum fámennn þjóð og fólk þekkist vel. Öll okkar vitum af tilfellum þar sem fólk er í angist, hræðslu, reiði og ótta vegna átaka annarra um bætt um kjör.

Kjararáð úrksurðar laun til margra opinberra starfsmanna. Reynslan frá því vetur og reynslan sem við fáum nú hvern einasta dag, hlýtur að vekja upp spurningar um hvort fólk sem starfar við heilbrigði annarra eigi að hafa verkfallsrétt eða hvort úrksurða eigi því fólki laun, laun sem miðast við annað sem gerist á vinnumarkaði. Í svipinn man ég ekki til þess að nokkur sem býr við að fá launahækkanir með þeim hætti kvarti undan.

Svo mikið er víst að við ástand einsog nú er, ástand einsog var í verkfalli lækna í vetur er óþolandi. Okkur á að þykja svo vænt hverjum um annað að við eigum aldrei að sættast á að hluti okkur  búið við að heilsa, framtíð, jafnvel möguleikar til lífs, sé notað í kjarabaráttu fólks. Jafnvel þó launakröfurnar séu sanngjarnar og tímabærar.

Eitt virðist oft gleymast í þessu öllu saman og það er hversu mikil verðmætasköpun fer fram í heilbrigðiskerfinu. Hvern dag og endalaust  eiga að skapast þar ótrúleg verðmæti. Fjárhagslegur ávinningur fyrir samfélagið.

Það skiptir miklu að veikt fólk eða slasað komist sem fyrst til sinna verka, að fólki verði gert kleift að halda áfram sínu lífi, að skapa verðmæti með hinu ýmsasta móti. Hver dagur í verkfalli skapar bara þjáningar og óvissu hjá fórnarlömbunum. Hann kostar samfélagið allt mikil efnahagsleg verðmæti. Þessu verður að linna, vegna þess að ástandið er óþolandi.

Í vetur sem leið vöktu fjölmiðlar yfir verkfalli lækna, fylgdu þeim jafnvel hvert fórspor, sögðu frá leku sjúkrahúsi, lokunum vegna skordýra, biluðum lyftum og hvað eina. Síðar kom í ljós að læknar höfðu ráðið til sín almannatengsla til að hjálpar í launabaráttunni.

Fjölmiðlar féllu ekki á prófinu. Allt við verkfall lækna var fréttnæmt. Til dæmis vegna þess að læknaverkföll eru fátíð, allar afleiðingar verkfallsins voru ókunnar, voru fréttnæmar. Það var, og er, skylda fjölmiðla að greina frá afleiðingunum og eins báborinni vinnuaðstöðu lækna og annarra sem starfa við hjúkrun veikra og slasaðra.

Stundum velti ég fyrir mér hvort fjölmiðlar hafi slakað á, segi ekki frá því fjölmarga sem er að gerast núna vegna yfirstandandi kjarabáttu og verkfalla. Hver dagur er fréttnæmur. Er svo komið að byrjað sé að eyða elstu blóðsýnunum, sem bíða rannsóknar, til að koma nýjum að í frystinum. Er verið að eyða blóðprufum vegna einhverja ákveðinna sjúkdóma og nota rýmið sem þannig fæst til að geyma önnur blóðsýni, sem eru metin mikilvægari. Ég veit ekkert um hvað er verið að gera. Mig grunar að þurft hafi að grípa til margra óhefbundinna ákvarðanna, ákvarðana sem við eigum að fá að vita um.

Getur verið að nú sé fólk útskrifað af sjúkrahúsum, sem í eðlilegu árferfði væri ekki gert, að fólk sé sent veikara heim en ella? Og ef svo er, hverjar verða afleiðingarnar? Fyrir fólkið, fyrir samfélagið?

Aldrei verða sagðar of margar fréttir af afleiðingum þess þegar verið að víla og díla með heilsu fólks. Aldrei. Allt er þetta óviðunandi. Þau sem bera ábyrgðina vita þetta, og þau verða að enda þetta ófremdarástand.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: