- Advertisement -

Verðum að geta tryggt vernd fjölmiðlafólks gegn ágangi stórfyrirtækja

Ég vona líka að þessi mál öllsömul hjálpi okkur hér í þinginu til að ná saman um raunverulegar en ekki sýndarbreytingar á auðlindaákvæðinu í stjórnarskrá. Oft var þörf en nú er nauðsyn.

„Þrátt fyrir afsökunarbeiðni Samherja, sem var löngu tímabær en er mjög óljós, þá halda áfram að birtast fréttir af framgöngu forsvarsmanna fyrirtækisins gagnvart lykilstofnunum samfélagsins. Samherji hefur gengið óvenjuhart fram gegn fjölmiðlafólki, krafist þess með bréfi að ráðherra gefi skýringar á ummælum sínum hér í ræðustól Alþingis og í morgun kom fram að fyrirtækið hafi haldið áfram vegferð sinni gagnvart starfsfólki Seðlabanka Íslands og seðlabankastjóra. Ég endurtek það sem sagt var hér í gær: Alþingismenn skulda Samherja engar skýringar á ummælum sínum sem falla hér í ræðustól,“ sagði Rósa Björk Brynjólfsdóttir á Alþingi í gær.

„En stóra málið er að við verðum með einhverjum hætti að geta tekist á við svona framgöngu sem samfélag. Við verðum að geta tryggt vernd fjölmiðlafólks betur gegn ágangi stórfyrirtækja og tryggja nægjanlegar fjárheimildir til lögreglu, saksóknara og annarra eftirlitsstofnana til að hefja rannsókn ef upp kemur grunur um refsivert athæfi. Kerfið okkar verður nefnilega að virka og löggjafinn, við hér á Alþingi, verður að veita starfsfólki grunnstofnana samfélagsins vernd fyrir svona ásókn, eins og seðlabankastjóri sagði sjálfur.

Ég, og líklega fleiri, var að vona að afsökunarbeiðni Samherja mætti taka sem dæmi um einlægan vilja þessa mikilvæga fyrirtækis til sátta við samfélagið. En því miður virðist skorta auðmýkt gagnvart því að auðlindin sem fyrirtækið hefur fengið sinn arð af að nýta er í eigu þjóðarinnar allrar. Fyrirtæki sem nýta auðlind okkar verða líka að standa undir meiri kröfum en aðrir til samfélagslegrar ábyrgðar. Þau verða að vinna í sátt við samfélagið sem þau starfa í, fylgja lögum og reglum og ekki bara að greiða fullt gjald til eigandans fyrir nýtinguna heldur líka sýna eigandanum, sem er íslenskt samfélag, virðingu og auðmýkt.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ég vona líka að þessi mál öllsömul hjálpi okkur hér í þinginu til að ná saman um raunverulegar en ekki sýndarbreytingar á auðlindaákvæðinu í stjórnarskrá. Oft var þörf en nú er nauðsyn.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: