- Advertisement -

VG veldur mér sárum vonbrigðum

Það er virkilega sárt að sjá kjörna fulltrúa VG teymda áfram af Sjálfstæðismönnum í að styðja ofbeldismenn til valda.

Sóley Tómasdóttir, sem var borgarfulltrúi Vinstri grænna er ekki sátt með viðbrögð flokksins vegna Klaustursmálsins. Hún skrifar:

„Klaustursmálið vakti mikla og verðskuldaða reiði meðal þjóðarinnar. Mjög margir kjörnir fulltrúar brugðust við og fordæmdu framferði þingmannanna, ýmist í fjölmiðlum eða á vettvangi Alþingis. Einhver vinna hefur farið fram í forsætisnefnd þingsins, en að öðru leyti virðast önnur „og mikilvægari“ mál nú eiga hug þingheims.

Minn gamli flokkur, VG, veldur mér sárum vonbrigðum með því að láta Rósu standa eina á móti straumnum í þessu máli og með því að vera ekki með samræmd viðbrögð við endurkomu klaustursmanna. Það er virkilega sárt að sjá kjörna fulltrúa VG teymda áfram af Sjálfstæðismönnum í að styðja ofbeldismenn til valda. Það er sorglegt að ríkisstjórnarflokkarnir hafi ekki sammælst um að standa saman gegn ofbeldismönnum inni á Alþingi. Ef ekki með því að kjósa með vantrausti á Bergþór, þá með einhverjum öðrum hætti sem sýnir þjóðinni, konum og jaðarsettum hópum þann sóma sem þeim ber eftir allt sem á undan er gengið.

Í raun kemur þetta mér svo sem ekki mikið á óvart. Kvenfrelsisáherslur VG hafa alltaf verið byggðar á að örfáir einstaklingar þori að standa á móti straumnum þegar á reynir. Restin talar vissulega um kvenfrelsi, en yfirleitt á tyllidögum og algerlega án þess að styggja eða leggja til raunverulegar aðgerðir til breytinga. Viðbrögðin við Klaustursmálinu eru því mjög dæmigerð. Því miður.“
Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: