Þröstur Ólafsson hagfræðingur skrifaði:
„Skólakerfið okkar: Við rekum samfélag sem samanstendur af mörgum misflóknum þáttum. Á öllum sviðum þess þurfum við að meta árangur og niðurstöður. Við verðum að vita hvert markmiðið er og hve vel gengur að ná því. Ef markmiðin eru óljós eða mælikvarðinn mismunandi meðal þátttakenda verður niðurstaðan óljós og ómarktæk.
Þannig er komið fyrir skólakerfi okkar. Við erum sjálf ófær um að meta getu eða frammistöðu skólanema þar sem við höfum, engan sameiginlegan innlendan mælikvarða á námsárangur. Við fáum þetta mat sent erlendis frá í gegnum PISA könnunina.
Auðvitað er hún ekkert fullkomið verkfæri en gefur sterkar vísbendingar. Þar sem þær hafa ekki að jafnaði ekki hrósað eða smjaðrað fyrir íslensku skólakerfi hefur gildi þeirra verið dregið í efa af þeim sem engan samræmdan mælikvarða vilja. Í eina tíð voru samræmd próf (Landspróf) notuð til að meta getu nemenda við útskrift. Efnislega rekur mig ekki minni til að gildi þeirra hafi verið dregið í efa. Fræg er skröksagan um mektarmann sem átti að hafa barist gegn landsprófinu því sonur hans hafði fallið. Nei, landsprófið var afnumið vegna þess að það „hyglaði “ þeim nemendum sem voru í skólum þar sem best menntuðu kennararnir voru .
Það þótti ósvinna.
Auðvitað komu þeir betur undirbúnir til leiks en nemendur úr skólum þar sem menntunarstig kennara var lægra jafnvel lágt. Það þótti ósvinna. Fræðsluyfirvöld hófust því handa við að draga úr og léttvikta samræmdar kröfur til nemenda um allt land. Það endaði með að sjálfstæði hvers skóla til einkunnargjafar var nánast gefið frjálst. Við höfum því engan hlutlægan mælikvarða á getu íslenskra framhaldsskólanemenda. Fyrst og fremst er notast við huglægt mat kennara.
Það væri svo efni í aðra færslu að ræða um hvaða úrræði kennarar hafa til að halda uppi reglu í skólabekkjum, en mikið er kvartað undan uppivöðslusemi nemendahópa og klögunarfýsn foreldra gegn ávítunum eða reglubroti barna sinna í skóla. Takmörk yfirgangssemi verða að vera nokkuð skýr.“