- Advertisement -

Við getum og við munum breyta

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, skrifar:

Magnaður leiðari Ingibjargar Daggar í Stundinni, um hina yfirgengilegu stéttaskiptingu sem fengið hefur að grafa um sig í íslensku samfélagi. Ein leið til að snúa af þeirri hörmulegu vegferð er að breyta skattkerfinu okkar allra þannig að það raunverulega virki sem tæki til endurúthlutunar á gæðunum. Þá gætum við komist á stað, í þessu litla og auðuga landi, þar sem staðreyndin um samfélagið er ekki sú að 17 ára stúlka elst upp við slíkan skort að hún á aðeins eitt götótt skópar og stundum er varla til matur á heimili hennar á meðan að 25 ára „fjárfestir“, sonur auðjöfurs, er búinn að kaupa sér 3 lúxusíbúðir.

Í loforðum ríkisstjórnarinnar vegna nýundirritaðra kjarasamninga eru nefndar skattalækkanir til handa hinum tekjulægstu á Íslandi, upp á 10.000 krónur. Við hefðum auðvitað viljað hafa þessa upphæð miklu hærri en ég verð þó að fá að hrósa dálitlum sigri; sérstakur fulltrúi íslenskrar auðstéttar, maður sem kemur innan úr veröld þeirra sem telja sig eiga landið, er fjármálaráðherra og herská barátta okkar neyddi hann til að horfast í augu við að þegar verka og láglaunafólk setur fram kröfur verður að bregðast við. 
Við Drífa Snædal sendum frá okkur yfirlýsingu í vikunni þar sem við kröfðumst þess, fyrir hönd vinnuaflsins, að ríkisstjórnin svaraði því ekki seinna en núna, hvenær von er á því að skattalækkanirnar verði að raunveruleika. Við munum ekki sætta okkur við að þúsundkallarnir verði látnir mjatlast inn löturhægt; stúlkur af lágstétt eiga allan rétt í heiminum á því að fjölskyldur þeirra hafi örlítið meira á milli handanna, þurfi ekki að lifa við eins yfirgengilegan skort. Og svo eiga þær auðvitað allan rétt í heiminum á því, grundvallarrétt, að lifa frjálsar undan grimmd stéttaskiptingarinnar.

Þá gætum við komist á stað, í þessu litla og auðuga landi, þar sem staðreyndin um samfélagið er ekki sú að 17 ára stúlka elst upp við slíkan skort að hún á aðeins eitt götótt skópar og stundum er varla til matur á heimili hennar á meðan að 25 ára „fjárfestir“, sonur auðjöfurs, er búinn að kaupa sér 3 lúxusíbúðir.

Tímarnir verða að breytast; í leiðara Ingibjargar segir að enginn hópur hafi grætt jafn mikið á því hvernig skattkerfinu okkar hefur verið stýrt en ríkasta eina prósentið, á meðan að skattbyrði á lágtekjufjölskyldur hefur hvergi aukist meira í OECD ríkjunum en á Íslandi, frá aldamótum. 
Ég get ekki og ætla ekki að sætta mig við að samfélagið mitt, barnanna minna, fólksins í kringum mig og félaga minna í Eflingu verði áfram notað sem sérstök gróðamaskína fyrir firrta auðstétt. Við breytum ekki valdahlutföllunum á Íslandi á einni nóttu, ekki á einum vetri, ekki í einni snarpri orrustu. En við getum og við munum breyta þeim, það er ég sannfærð um. Með samstöðu og með því að horfast í augu við dýpt vandans og með því að taka slaginn getum við tryggt að öll sem dvelja hér saman á þessari skrýtnu og fallegu eyju njóti góðrar tilveru. Og eitt það mikilvægasta sem við getum barist fyrir er að skattkerfið sé notað til að tryggja réttlæti og efnahagslegan jöfnuð, að það verði tekið úr höndunum á auðstéttinni svo að við þurfum ekki lengur að lifa við þá fráleitu staðreynd að sum eigi allt en önnur eigi ekkert. Einhvers staðar þurfa allar stórar breytingar að byrja og 10.000 króna skattalækkun á lágtekju-fólk er aðeins byrjunin. Sameinuð eigum við eftir að komast miklu, miklu lengra. 

Skrifin birtust á Facebooksíðu höfundar.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: