- Advertisement -

„Við megum ekki láta okkar eftir liggja“

„Eins og við Íslendingar gerum okkur mætavel grein fyrir lyftum við ekki stærstu byrðunum í því verkefni að streitast á móti árás Rússa en það er ánægjulegt að finna fyrir þeirri eindrægni sem ríkir hér á Íslandi. Við fylgjumst með þróuninni í Úkraínu og fyllumst hryllingi yfir því sem á sér stað en við horfum líka með aðdáun á hugrekki úkraínsku þjóðarinnar. Hugrekki er af skornum skammti í heiminum og því er gjarnan ruglað saman við fífldirfsku og stærilæti. Það er ekki fyrr en á reynir sem raunverulegt hugrekki kemur í ljós og raunverulegt hugrekki er ekki til að hreykja sér af eða skreyta sig með. Þegar raunverulega reynir á hugrekki er það dregið fram með semingi og af illri nauðsyn,“ sagði Þórdis K.R. Gylfadóttir á Alþingi í gær.

Hún hélt áfram: Í úkraínsku þjóðinni og forseta hennar sjáum við að sú dyggð sem stendur næst hugrekki er auðmýkt. Zelenskí Úkraínuforseti talaði af auðmýkt þegar hann tók við embætti sínu í maí 2019. Þá vissi hann ekki hvaða örlög biðu hans og þjóðarinnar. Í ræðu sinni þegar hann tók við embættinu ávarpaði hann sérstaklega úkraínska embættismenn og sagði m.a. við þá, með leyfi forseta:

„Ég myndi gjarnan kjósa að þið setjið ekki upp mynd af mér á skrifstofu ykkar. Engar slíkar myndir. Forseti er ekki helgimynd eða skurðgoð. Forseti er ekki heldur andlitsmynd á vegg. Setjið heldur myndir af börnunum ykkar á vegginn, horfið í augu þeirra áður en þið takið ákvarðanir.“

Þessi orð eru töluð áður en stríðið hófst. Heimurinn væri eflaust betri ef fleiri gerðu það að venju sinni að horfast í augu við framtíðina áður en teknar eru afdrifaríkar ákvarðanir. Við höfum heyrt örvæntingarfullt ákall Zelenskí um hjálp nú um helgina. Þar talar maður sem berst fyrir þjóð sinni og fyrir réttum málstað. Öll vildum við geta gert meira. Við viljum gera það sem við getum og það munum við gera. Það er skylda okkar gagnvart úkraínsku þjóðinni sem hefur orðið fyrir tilefnislausri og fólskulegri árás. Það er skylda okkar gagnvart okkar vina- og bandalagsríkjum sem standa með Úkraínu líka. Það er skylda okkar gagnvart þeim hugsjónum sem við trúum á um gott samfélag þar sem lýðræði, frelsi og mannréttindi ríkja. Það er skylda okkar gagnvart okkur sjálfum að láta ekki okkar eftir liggja þegar þörf er á okkur og okkar framlagi. Við erum þjóð meðal þjóða. Í því felast skyldur sem við eigum að rækja af alúð, ábyrgð og fyllstu alvöru og ekki síst af auðmýkt. Við megum ekki láta okkar eftir liggja.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: