- Advertisement -

Við vonum að þið standið með okkur

Sólveig Anna:

Þar kemur í ljós hvort að Samtök atvinnulífsins fallast á að tilboð okkar sé grundvöllur frekari viðræðna eða hvort að þau telji sig þess umkomin að reyna að svipta Eflingu, langstærsta félag verka og láglaunfólks á landinu, sjálfstæðum samningsrétti.

Innan skamms förum við í samninganefnd Eflingar á samningafund hjá ríkissáttasemjara. Þar kemur í ljós hvort að Samtök atvinnulífsins fallast á að tilboð okkar sé grundvöllur frekari viðræðna eða hvort að þau telji sig þess umkomin að reyna að svipta Eflingu, langstærsta félag verka og láglaunfólks á landinu, sjálfstæðum samningsrétti vegna þess að kjarabarátta Eflingar-fólks er þeim ekki þóknanleg. Við í samninganefndinni vonum auðvitað að SA fallist á okkar málefnalega og skynsama málflutning en á þessum tímapunkti erum við búin undir að svo verði ekki.

Við í samninganefnd Eflingar vonum af öllu hjarta að þið standið með okkur. Við vonum að þið skiljið og viðurkennið að við erum ómissandi fólk í samfélaginu, að vinna okkar knýr áfram hjól atvinnulífsins og heldur í sívaxaandi mæli uppi vanfjármögnuðum umönnunarstofnunum. Við vonum að þið skiljið og viðurkennið að það er óásættanlegt fyrir okkur að taka við kjarasamningi annara, sem hentar okkur ekki, sem kemur ekki til móts við þarfir Eflingar-félaga. Við vonum að þið skiljið og viðurkennið að þrátt fyrir háværan og hömlulausan málflutning um að við séum óalandi og óferjandi óeirðaseggir sem vilji ekki semja, vilji átök öðru fremur, er það ekki svo. Við í samninganefnd Eflingar höfum hist 20 sinnum til vinna kröfugerð, og svo þrjú tilboð í kjölfar hennar til SA. Við höfum mætt vel undirbúin á alla samningafundi. Við höfum byggt vinnu okkar á efnahagslegum raunveruleika og þörfum félagsfólks, sem við höfum hollustu við og störfum fyrir. Við höfum sýnt aftur og aftur að við höfum raunverulegan samningsvilja. Það hefur ekki skilað okkur neinu.

Félagsfólk Eflingar er ómissandi. Það á skilið virðingu og viðurkenningu á grundvallarmikilvægi sínu. Það á skilið sanngjörn laun. Og það hefur lögvarinn rétt til að gera sína eigin kjarasamninga. Innan skamms göngum við í samninganefnd Eflingar á stað. Við vonum það besta en erum við öllu búin. Við stöndum saman í baráttu okkar. Við vonum að þið standið með okkur.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: