- Advertisement -

Vilja auka skilarétt neytenda

Willum Þór Þórsson er fyrsti flutningsmaður tillögunnar.

„Hafa þarf í huga að þegar neytandi festir kaup á gjafabréfi er hann að leggja fé inn í rekstur þess fyrirtækis sem hann verslar við og alls kostar óeðlilegt og raunar ósanngjarnt að svo skammur tími sé veittur til að til að taka út vöru fyrir inneignina. Leiða má líkur að því að neytendur verði árlega af nokkuð háum fjárhæðum vegna þessa.“

Þetta segir meðal annars í greinagerð þingsályktunar nokkurra þingmanna, þar sem Willum Þór Þórsson er fyrsti flutningsmaður, um rétt neytenda og skilarétt þeirra.

Og í framhaldi: „Margar verslanir og þjónustuaðilar veita hins vegar mun skemmri frest og er þriggja til sex mánaða frestur algengur.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Mismunandi reglur bagalegar

„Neytendum og kaupmönnum er hins vegar frjálst að semja um ákveðinn skilarétt og er það gert í mörgum tilfellum með því að verslanir setja sér reglur um skilarétt sem neytendur ganga að með kaupum sínum. Það er hins vegar bagalegt að verslanir setja sér mismunandi reglur og neytendur eiga því oft erfitt með að finna út hvaða reglur gilda um einstök kaup. Þetta á sérstaklega við í jólaversluninni. Afar mismunandi er hversu langan tíma verslanir veita neytendum tækifæri til að skipta vörum sem þeir hafa fengið í jólagjöf, í sumum tilfellum er aðeins um örfáa daga að ræða.“

„Verslun hér á landi á undir högg að sækja gagnvart verslun á netinu“

Undir högg að sækja

„Verslun hér á landi á undir högg að sækja gagnvart verslun á netinu. Sífellt fleiri kjósa að versla á netinu frá útlöndum þar sem verð er oft hagstæðara og neytendur hafa fjórtán daga rétt til að falla frá kaupum ef verslað er við seljanda innan Evrópska efnahagssvæðisins,“ segir í greinagerðinni.

Tillagan sjálf er svohljóðandi: „Alþingi ályktar að fela ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að skipa starfshóp sem taki til endurskoðunar verklagsreglur um skilarétt neytenda, gjafabréf og inneignarnótur og geri tillögur að átaki til að auka notkun reglnanna. Í starfshópinn verði skipaðir aðilar samkvæmt tilnefningu Neytendasamtakanna, Samtaka verslunar og þjónustu, Alþýðusambands Íslands og Viðskiptaráðs Íslands. Formaður verði skipaður af ráðherra án tilnefningar. Starfshópurinn skili tillögum til ráðherra fyrir 1. mars 2019.“

Flutningsmenn eru: Willum Þór Þórsson, Ólafur Ísleifsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Þórunn Egilsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: