- Advertisement -

Vilja koma í veg fyrir þvinguð sambúðarslit eldri hjóna

Þingmenn Flokks fólksins, Guðmundur Ingi Kristinsson og Inga Sæland, hafa lagt fyrir Alþingi tillögu um að rétt stöðu eldri borgara. Þeirra sem þurfa á hjúkrunarheimili.

„Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að undirbúa og leggja fram lagafrumvarp sem kveði á um eftirfarandi:

     1.      Ríki og sveitarfélögum verði skylt að útvega öldruðum, sem hafa gengist undir færni- og heilsumat, dvalar- eða hjúkrunarrými eigi síðar en 60 dögum eftir að niðurstöður mats um að viðkomandi eigi rétt á slíku úrræði liggja fyrir.

     2.      Færni- og heilsumat skuli gefið út eigi síðar en 10 dögum eftir að umsókn um það berst.

     3.      Öldruðum einstaklingum, sem dvalist hafa lengur en 10 daga á sjúkrahúsi án sérstakrar meðferðar, verði útvegað dvalar- eða hjúkrunarrými.

     4.      Læknar geti ákveðið að einstaklingur sem bersýnilega þarf að fá vistun í hjúkrunarrými þurfi ekki að undirgangast færni- og heilsumat til þess að fá dvöl á viðeigandi stofnun.

     5.      Maki eða sambúðarmaki heimilismanns á stofnun fyrir aldraða skuli, án tillits til þess hvort hann hafi gengist undir færni- og heilsumat, eiga þess kost að dvelja á stofnun ásamt heimilismanni. Viðkomandi öðlist þá sjálfstæðan rétt sem heimilismaður á stofnun fyrir aldraða.

Ráðherra leggi fram frumvarp þessa efnis á haustþingi 2020.“

Í greinargerðinni segir til dæmis:

„Eldri borgarar sem dvelja á stofnun fyrir aldraða eru oft þvingaðir til sambúðarslita þar sem þeir eiga ekki kost á að vera samvistum við maka eða sambúðarmaka sinn. Það er mannréttindamál að tryggja að íbúar á öldrunarstofnunum geti verið áfram samvistum við maka sinn. Markmið tillögunnar er að gera fólki mögulegt að búa áfram með maka sínum sem hefur af heilsufarsástæðum þurft að flytjast á heimili sem krefst færni- og heilsumats til búsetu. Því yrði ekki lengur áskilið að heilbrigður eða heilbrigðari maki byggi annars staðar en hinn veikari. Þannig yrði komið í veg fyrir þvinguð sambúðarslit.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: