- Advertisement -

Vilja setja skorður við uppkaup bújarða

Meðferð og notkun lands skiptir máli nú og til framtíðar.

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hrinda í framkvæmd aðgerðaáætlun til styrkingar á lagaumgjörð og reglum um ráðstöfun og nýtingu auðlinda á landi, ásamt aðgerðum til að styrkja grundvöll til eftirfylgni slíkra reglna. Aðgerðaáætlunin hafi það að markmiði að tryggja eignarhald landsmanna á jörðum á Íslandi, ásamt því að skapa frekari tækifæri til heilsársbúsetu í dreifbýli og fjölbreyttrar sjálfbærrar landnýtingar og matvælaframleiðslu í landinu.“

Þetta er þingsályktunartillaga sem rædd verður á Alþingi á mánudaginn. Líneik Anna Sævarsdóttir fer þar fyrir nokkrum þingmönnum sem vilja setja skorður við sölu og kaup bújarða.

„Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að ríkisstjórnin hrindi í framkvæmd aðgerðaáætlun til styrkingar á lagaumgjörð og reglum um ráðstöfun og nýtingu auðlinda á landi ásamt aðgerðum til að styrkja grundvöll til eftirfylgni slíkra reglna.
Land er takmörkuð auðlind, landið sjálft, jarðvegurinn og gróðurinn sem þar þrífst. Auk þess geta fylgt landi verðmætar viðbótarauðlindir, t.d. veiði og vatnsréttindi.
Meðferð og notkun lands skiptir máli nú og til framtíðar. Það felast því miklir almannahagsmunir í ákvörðunum um ráðstöfun lands og öll ákvarðanataka um eignarhald og landnýtingu hefur áhrif á almannahagsmuni til framtíðar. Það geta því ekki gilt sömu reglur um kaup og sölu á landi eins og á hverri annarri fasteign.
Stjórnvöld geta beitt ýmsum tækjum til að hafa áhrif á ráðstöfun lands. Mikilvægt er að taka grundvallarákvörðun um hvernig stjórnvöld ætla að gæta almannahagsmuna á þessu sviði. Til þess að það takist þarf að samhæfa lög, reglur og verklag en það er markmið aðgerðaáætlunarinnar. Til þess að ná árangri þarf sérstaklega að gæta að samspili laga, skipulagsáætlana og markmiða um landnýtingu og grunnupplýsinga um landið.“

Þingmennirnir benda á hvernig málum er háttað í örðum löndum. Til dæmis í Danmörku:

„Að auki gilda sérstök lög um landbúnaðareignir (lov om landbrugsejendomme) en þar er mælt fyrir um þá meginreglu að heimild til að öðlast réttindi yfir landbúnaðarjörð er háð því skilyrði að eigandi eigi fasta búsetu á jörðinni í 10 ár.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: