- Advertisement -

Vilja þrengja enn að heilsugæslu á Suðurnesjum

Háttvirtir þingmenn geta tekið fram fyrir hendurnar á hæstvirtum ráðherrum og gert það sem er rétt að gera.

Oddný Harðardóttir, kom inn á í þingræðu hvernig ráðherra þrengja enn og aftur að heilsugæslu á Suðurnesjum. Oddný sagði:

„Í janúar 2018 voru íbúar Suðurnesja 25.770. Þremur árum seinna, 1. janúar 2021, voru íbúarnir orðnir 28.195. Íbúunum hafði fjölgað á þessum stutta tíma um 2.425. Þetta eru 400 íbúum fleiri en samanlagður íbúafjöldi Stykkishólmsbæjar og Grundarfjarðarbæjar, svo að dæmi séu tekin til þess að setja þá íbúafjölgun í samhengi. Allt þetta fólk á rétt á almennilegri heilbrigðisþjónustu í heimabyggð. Fjárveitingar til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja hafa hins vegar ekki gert ráð fyrir þessari íbúafjölgun allri eða íbúafjölgun sem hefur verið mikil í fleiri ár en þrjú. Enda er það svo að það eru þúsundir Suðurnesjamanna sem leita eftir heilbrigðisþjónustu til höfuðborgarsvæðisins.

Fjárlagafrumvarpið fyrir næsta ár mun ekki laga stöðuna. Reyndar er í frumvarpinu lækkun á fjárframlögum til stofnunarinnar, ef ég skil tölurnar rétt, þannig að staðan mun enn versna nema Alþingi grípi í taumana. Háttvirtir þingmenn geta tekið fram fyrir hendurnar á hæstvirtum ráðherrum og gert það sem er rétt að gera. Það þarf að gera Heilbrigðisstofnun Suðurnesja kleift að mæta þörfum íbúanna fyrir heilsugæslu og grunnþjónustu á svæðinu. Það er miklu ódýrara fyrir alla, bæði íbúana og ríkissjóð, að gera stofnuninni kleift að sinna sínu lögbundna verkefni í heimabyggð. Það er illa farið með skattfé að svelta heilbrigðisþjónustu í heimabyggð, svelta Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þannig að íbúarnir neyðist til að sækja þjónustu til Reykjavíkur, þjónustu sem er í flestum tilfellum dýrari og undir miklu álagi.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: