- Advertisement -

Villi vill á þing – hvað gerir Bjarni nú?

Án þess að fá aukatekið takk fyrir!

Vilhjálmur Bjarnason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Kraganum, ætlar að reyna á ný að komast á þing. Vilhjálmur hefur áður setið á þingi og náð fínum árangri í prófkjörum. Bjarni Benediktsson hefur breytt niðurstöðum prófkjörs og fært Vilhjálm neðar á lista.

Það hefur Bjarni gert til að færa Bryndísi Haraldsdóttur ofar á listann. Annars hefðu fjórir miðaldra karla verið í fjórum efstu sætunum; Bjarni, Jón Gunnarsson, Óli Björn Kárason og þá Vilhjálmur Bjarnason.

„Það er áleitin spurning hvort vit sé í að taka þátt í stjórnmálum, leggja sjálfan sig og verk í dóm kjósenda,“ skrifar Vilhjálmur í Mogga dagsins.

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Að leggja höfuðið undir! Ég hef tvisvar áður tekið þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi. Í hinu fyrra sinni árið 2012 fyrir kosningar 2013 fékk ég næstflest atkvæði í prófkjörinu og næstflest atkvæði í fyrsta sæti.

Niðurstaðan var 4. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins. Í hinu síðara sinni kom framboð sem beinlínis var stefnt gegn mér, en niðurstaðan var aftur fjórða sæti á lista Sjálfstæðisflokksins. Fyrir skipan lista Sjálfstæðisflokksins árið 2013 bauð formaður kjörnefndar fjórða sætið, sætið sem ég var kjörinn til, nokkrum mögulegum frambjóðendum, sem ekki höfðu tekið þátt í prófkjörinu.

Eftir að úrslit lágu fyrir í prófkjörinu 2016 var stefnt að því leynt og ljóst að ég skyldi færður niður um sæti. Sú varð niðurstaðan, ég var færður úr fjórða sæti í fimmta sæti! Og ég hélt friðinn!

Án þess að fá aukatekið takk fyrir! Þeir, sem á undan mér voru, töldu þessa tilfærslu tæra snilld, enda var hún ekki á þeirra kostnað. Fimmta sæti dugði til þingmennsku árið 2016 en það dugði ekki í kosningunum 2017.“

Í greininni segir einnig: „Ég er á góðum aldri. Ég er yngri en Bretadrottning og breski ríkisarfinn. Ég er yngri en forseti Bandaríkjanna. Þroskaðir þurfa sinn fulltrúa.“

Vilhjálmur endar greinina svona: „En, ég þarf að fá góða kosningu til að niðurstaða prófkjörsins verði virt!“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: