- Advertisement -

VLFA: Landsvirkjun ógn við stóriðju

Vinnumarkaður Forysta Verkalýðsfélags Akraness hefur áhyggjur af þróun raforkuverðs til stóriðju. Á heimasíðu félagsins er löng grein um stóriðjuna á Grundartanga.

Þar segir meðal annars:

„Það er alveg ljóst miðað við þessar fréttir að framtíð stóriðjunnar á Grundartanga, bæði Elkem og Norðuráls, er eins og áður sagði verulega ógnað vegna þeirrar verðlagsstefnu sem Landsvirkjun er með á orku hér á landi. Það er eins og forsvarsmenn Landsvirkjunar hafi ekki verið að fylgjast með því sem er að gerast í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við.“

Rafmagn 112 prósent dýrara en í Skandinavíu

Í greinni segir að samkvæmt heimasíðu Landsvirkjunar kemur fram að verð á raforku er 43 dollarar fyrir megavattstund en í Skandinavíu er raforkan komin niður í rétt rúma 20 dollara fyrir hverja megavattstund þannig að  á Íslandi  er raforkuverðið 112% hærra heldur en það verð sem boðið er í Skandnavíu. „Það er mikilvægt fyrir almenning að vita það að Elkem rekur fyrirtæki víða í Skandinavíu og því ljóst að ef samkeppnisskilyrði hér á landi eru að verða ívið lakari en gerist á hinum Norðurlöndunum og þá eru umtalsverðar líkur á að þessari starfsemi verði hætt hér á landi. Enda blasir það við hverjum vitibornum manni að ef móðurfélagið getur fengið raforku sem er 53% ódýrari en Landsvirkjun er nú að fara fram á þá velja menn slík rekstrarskilyrði. Þetta á einnig við um Norðurál en samningar hjá þeim eru einnig lausir 2019 og hefur formaður verulegar áhyggjur af atvinnuöryggi sinna félagsmanna.“

Raforkuverð hefur hríðfallið

„Það er eins og forsvarsmenn Landsvirkjunar átti sig ekki á því að raforkuverð í heiminum hefur hríðfallið á undanförnum árum og misserum og því eru samkeppnisskilyrði hér á landi að verða mun bágbornari heldur en í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Sem dæmi þá er raforkan eins og áður sagði 53% ódýrari í Skandinavíu heldur en verðlagsskrá Landsvirkjunar segir til um, um 28% lægri í Þýskalandi og 34% lægri í Kanada. Það er mikilvægt að menn átti sig á því að ef Landsvirkjun horfir ekki á þessar staðreyndir þá eru umtalsverðar líkur á því að þúsundir starfa í stóriðjum muni tapast á næstu árum,“ segir Verkalýðsfélag Akraness.

 

 

Skefjalaus árás á stóriðjuna

 

„Sú skefjalausa árás sem stóriðjan hefur þurft að þola, orð eins og að þeir fái raforkuna gefins, stenst ekki nokkra skoðun enda liggur fyrir að afkoma Landsvirkjunar hefur verið gríðarlega góð og sem dæmi hefur Landsvirkjun greitt niður um 100 milljarða af sínum skuldum og verður jafnvel orðin skuldlaus eftir 7-8 ár og það þrátt fyrir að hafa ráðist í dýrustu fjárfestingu Íslandssögunnar sem var bygging Kárahnjúkavirkjunar. Landsvirkjun er gullkálfur íslensku þjóðarinnar sem mun skila íslensku þjóðarbúi tugum milljarða í arðgreiðslur eftir örfá ár en það mun ekki gerast ef þeir ætla að slátra sínum stærsta viðskiptavini sem eru stóriðjurnar.“

Sjá nánar hér.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: