- Advertisement -

Vopnin kvödd?

Reyndar segir hún westanhafs að hún ætli að flytja félagið vestur um haf.

Halldór Árni Sveinsson skrifar:

Þann 28. mars sl. var flugfélagið WOW úrskurðað gjaldþrota í Héraðsdómi Reykjavíkur. Vegna stærðar félagsins voru skipaðir tveir skiptastjórar, Þorsteinn Einarsson og Sveinn Andri Sveinsson hæstaréttarlögmenn. Mikill kurr varð vegna skipunar þeirra, sér í lagi Sveins Andra, og stigu fram lögmenn, m.a. úr stétt kvenna í lögmannsstörfum, sem bentu á að Sveinn Andri hefði ekki lokið störfum sem skiptastjóri annars stórs þrotabús, EK 1923, og hefðu nokkrir kröfuhafa þess þrotabús stefnt Sveini Andra vegna meintra vafasamra vinnubragða hans og óheyrilegs kostnaðar við skiptastörfin. En Sveinn mun taka sér um 50 þúsund krónur á tímann að meðtöldum virðisaukaskatti, sem mun vera tvöfalt gjald á við það sem tíðkast í þessum bransa. Hefur komið fram í fréttum að undanförnu – og ekki dregið til baka – að innheimtur lögfræðikostnaður hans vegna skiptanna, sem þó er ekki lokið, nemi nú 120 milljónum króna. Auk þess er hann borinn þungum sökum um að neita að semja um neitt og að sölsa undir þrotabúið eigur sem þegar hafi verið keyptar og greitt fyrir. Þau mál verða viðfangsefni Hæstaréttar á næstunni.

Þrátt fyrir þessa gagnrýni, varði Símon Sigvaldason dómstjóri við Héraðsdóm Reykjavíkur skipan skiptastjóranna, án þess þó að færa nokkur einustu málefnalegu rök fyrir embættisfærslu sinni, enda ekki hægt að segja að neinar marktækar reglur gildi í þessu geðþóttavali.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Því má gera ráð fyrir að allt handbært fé í þrotabúinu sé löngu runnið í vasa þeirra, en þóknun þeirra er greidd á undan öllum öðrum kröfum í þrotabúinu.

Nú skiptastjórarnir létu þess getið í fjölmiðlum við skipunina að þeir myndu ganga rösklega til verks þetta sama kvöld að reyna að meta umfang þessa eftirsótta verks sem þeim var falið. Síðan eru liðnar 17 vikur rúmar. Miðað við verðskrá Sveins Andra og verklag hans við sams konar verkefni má ætla að vinna hans miðað við 40 tíma vinnuviku sé því samtals 34 milljónir á þessum stutta tíma, og ekki ætlum við félaga hans, Þorsteini Einarssyni, minni þóknun. Því má gera ráð fyrir að allt handbært fé í þrotabúinu sé löngu runnið í vasa þeirra, en þóknun þeirra er greidd á undan öllum öðrum kröfum í þrotabúinu. Hafi þeir einnig unnið ötullega að skiptum um helgar gæti þóknun þeirra tveggja numið yfir 100 milljónum króna nú þegar. Langt er hins vegar í land að skiptum sem þessum ljúki.

Hver er svo árangurinn? Í júnímánuði kom risafrétt í Fréttablaðinu um að skiptastjórar hefðu selt bandarískum aðilum vörumerki WOW, bókunarkerfi og flugrekstrarbækur. Haft var eftir Sveini Andra að verðmæti samningsins væri upp á hundruð milljóna króna og hefði verið staðgreitt. Síðan hefur komið í ljós að ekkert er að marka þessar upplýsingar – frekar en annað forvitnilegt sem dúkkað hefur upp úr þessari „hugsjónakonu“ Michele Ballarin, vopnaframleiðanda og vopnasala. Kaupverð samningsins mun hafa verið skitnar 180 milljónir, sem er eins og dropi í haf heildarkrafna þrotabúsins, sem er metið á að minnsta kosti 24 milljarða. Og ekki króna hefur verið greidd!

Ekki vantar stóryrtar yfirlýsingar Ballarin, sem lítur á sig sem frelsandi engil fyrir okkur Íslendinga, ætlar að hafa höfuðstöðvar flugfélagsins sem næst Hallgrímskirkju, enda um kristilegt flugfélag að ræða sem hún ætlar að byggja á grunni hins fallna félags. Reyndar segir hún westanhafs að hún ætli að flytja félagið vestur um haf. Þá hefur hún rætt möguleika á blönduðu farþega- og fraktflugi, sennilega til að flytja sín kristilegu vopn um lofthelgi landsins til kristilegra stríðsherra í Sómalíu og víðar um Afríku. Hafi hún m.a. átt vinsamlega fundi með Samgöngustofu vegna flugrekstrarleyfis. Þessu get ég vel trúað, enda hefur flugrekstraraðilum gengið vel að fá undanþágur þar á bæ vegna vopnaflutninga – allt þar til fréttamenn hér á landi fóru að forvitnast um þá endaleysu alla.

Af fréttum verður þetta varla skilið öðruvísi en að skiptaráðendur hafi afhenti henni öll þessi gögn – eða afrit af þeim – til gaumgæfilegrar skoðunar. Án þess að inna af hendi neina greiðslu eða tryggingu.

Þá hefur þessi drottning háloftanna fundað með Isavia og tók með sér uppdrætti að nýjum landgangi sem hún vill að verði hent upp í snatri á Keflavíkurvelli, auk veglegrar biðstofu WOW í Fríhöfninni. Svo ekki verður kvartað yfir að þessum guðhrædda vopnasala hafi ekki verið tekið með kostum og kynjum. Hún gæti svo auðvitað aukið flugöryggi farþega sinna með því að láta þá fljúga milli landa í skotheldum vestum sem hún framleiðir einnig. Eina sem ekki hefur skilað sér eru aurarnir sem hún ætlaði að koma með. Sem reyndar eru ekki nema 1,8% af heildarfjárfestingunni sem hún gumar af að hafa tryggt þessum nýja rekstri. Skyldi nokkurn undra þó maður nefni brunaútsölu skiptaráðenda í þessu sambandi.

Ballarin hefur krafist þess að sitt fólk í Bandaríkjunum fái að gera áreiðanleikakönnun á þeim eignum sem hún er að kaupa, og ganga úr skugga um hvort þær séu raunverulega til. Af fréttum verður þetta varla skilið öðruvísi en að skiptaráðendur hafi afhenti henni öll þessi gögn – eða afrit af þeim – til gaumgæfilegrar skoðunar. Án þess að inna af hendi neina greiðslu eða tryggingu.

Nú þegar þessi væntanlegi kaupandi gagnanna á þessu líka tombóluverði hefur þessi gögn undir höndum, er þá líklegt að hún vilji kaupa pakkann? Þarf hún þess? Hún veit núna nákvæmlega hvaða upplýsingar hann hefur að geyma. Upplýsingar sem eru svo verðmætar þeim sem er að hefja rekstur en vantar allar slíkar upplýsingar.

Og ef þetta fokkast nú allt upp, hver er ábyrgð þessara ódýru skiptastjóra, sem kosta þrotabúið 4-5 milljónir í laun á viku? Hætti Ballarin við, munu þá einhverjir aðrir vera áhugasamir um að kaupa þessar upplýsingar? Alla vega vita þeir að þeir geta keypt þær á algeru hrakvirði.

Verður niðurstaðan kannski sú, að í þessu gríðarstóra gjaldþroti flugfélagsins WOW upp á 24 milljarða, að einu eigurnar sem seljist úr þrotabúinu, séu nokkur reiðhjól, fagurfjólublá? Og enginn fái nokkurn skapaðan hlut úr þrotinu – nema skiptastjórarnir auðvitað?

„Í upphafi skyldi endinn skoða“ segir gamalt máltæki. Og þá er ég ekki að vísa til þeirrar einkunnar sem andstæðingar skiptastjórans Sveins Andra hafa gefið honum meðal lögmannastéttarinnar.


Booking.com

Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: