- Advertisement -

WOWair, hrunbankar og þunnt eigið fé

Því hraðari vöxtur, því hærri lántökur, því hærri vextir.

Marinó G. Njálsson skrifar:


Vandræði WOW air afhjúpa gamalkunnugt vandamál í íslensku viðskiptalífi. Þunnt eigið fé fyrirtækja í örum vexti.

Fyrir hrun leit svo sem ekki út fyrir að bankarnir þrír væru með þunnt eigið fé, en þegar flett var ofan af bókhaldsblekkingunum, þá kom í ljós að keisarinn var ekki í neinum fötum. Reynt hafði verið að búa til eigið fé með alls konar brellum og þannig tókst bönkunum að uppfylla kröfur FME. En þar sem eigið féð fólst í ýmist óefnislegum eignum eða óseljanlegum föstum eignum, s.s. húsnæðinu þar sem reksturinn fór fram, þá var ekki hægt að nýta það í neitt annað en að uppfylla bókhaldslegar kröfur um eigið fé. Það er ekki hægt að selja viðskiptavild sama hvað menn reyna og væri húsnæðið selt, þá skaðaði það starfsemina.

Hvorki Skúli né eigendur hrunbankanna voru með neina fjárhagslega getu til að leggja fram handbært fé til rekstrar sinna fyrirtækja, þegar gaf á bátinn.

Hjá WOW var þetta einfaldlega þannig, að einn maður lagði fram nokkur hundruð milljónir í upphafi, sem ég held að hafi verið lagt fram í raunverulegum peningum. Þar sem reksturinn skilaði ekki neinum teljandi hagnaði fyrr en árið 2017, þá var öll uppbygging byggð á lofti eða lánum. Slíkt getur aldrei gengið til lengdar.

Hvorki Skúli né eigendur hrunbankanna voru með neina fjárhagslega getu til að leggja fram handbært fé til rekstrar sinna fyrirtækja, þegar gaf á bátinn. Þetta varð til þess að þau urðu að treysta á lánsfjármögnun til að styðja við reksturinn og vöxtinn. Þróunin er að öllu leyti eins. Því hraðari sem vöxturinn varð, því hærri urðu lántökurnar, því hærri urðu vextirnir. Engum datt í hug að taka fótinn af bensíngjöfinni. Þetta er yfirleitt dauðadæmt viðskiptamódel og varð að lokum banabiti bankanna. Það sem gæti bjargað WOW er að kröfuhafar breyti kröfum sínum í hlutafé. Það hefði líka getað orðið undankomuleið bankanna, en þá hefðu einhverjir fullorðnir séð að þetta var bara sandur sem litlu strákarnir á Íslandi létu líta út sem falleg hús og flottir kastalar. Skúli á hins vegar ekkert val. Það er dauði eða viðurkenna að keisarinn er ekki í neinum fötum.

Ég vona að WOW komist á réttan kjöl, alveg eins og ég vonaði að bankarnir lifðu af. Von mín um bankana var byggð á mikilli vanþekkingu á svikamyllum þeirra sem smátt og smátt hefur verið flett ofan af á undanförnum árum. Ég vona jafnframt að ég sé ekki eins blindur fyrir einhverju sem er að gerast hjá WOW og ég var blindur gagnvart óstjórn og ruglinu sem var í gangi hjá bönkunum.

Það er síðan eitt í viðbót sem þessi fjögur fyrirtæki þurftu öll að kljást við, en það er fáránlega kjánaleg peningamálastjórnun Seðlabanka Íslands. Er ekki kominn tími til, að einhver fullorðinn taki yfir stjórnun peningamála á Íslandi? Sú einfeldni og kjánagangur sem hefur verið í gangi í stjórnun peningamála þjóðarinnar verður að fara að taka enda áður en allt fer í bál og brand, AFTUR!


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: