- Advertisement -

XD: Nær Fíladelfíu en Samtökunum 78

„Þessu fólki finnst fráleitt að vinnukona geti tekið óstudd og ein slíka ákvörðun og telja að rétt sé að húsbóndinn hafi vit fyrir henni.“

Gunnar Smári.

Gunnar Smári skrifar:Heimskort sem flokkar lög um fóstureyðingar/þungunarof í löndum heims. Með frumvarpinu sem nú er til meðferðar á Alþingi yrði Ísland blátt, sem byggir á að því að þungunarrof er ekki háð heilbrigðis- eða félagslegum skilyrðum. Í nágrenni okkar eru það bara Bretland og Finnland sem skilgreind erum með sambærilegar takmarkanir og við, önnur lönd hafa stigið sama skref og líklegt er að Alþingi geri í vor; að ákvörðun um þungunarrof sé konunnar. Írland er appelsínugult á kortinu, en þar var samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu í fyrra að rýmka mjög fóstureyðingarlöggjöfina. Pólland er eina land Austur-Evrópu með stranga löggjöf, en þar (eins og á Írlandi) gegndi kaþólska kirkjan veigamiklu hlutverki í stjórnmálum; á Írlandi í sjálfstæðisbaráttu gegn Englendingum en í Póllandi í andstöðunni gegn einræði kommúnistaflokksins. Kirkjan hefur misst þennan sess í Írlandi, en alls ekki í Póllandi. Það er svo rannsóknarefni hvers vegna íhaldssemi í persónumálum hefur haft sterkari tök í Englandi, Finnlandi og á Íslandi en í öðrum ríkjum í okkar nágrenni.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Englandi hefur smáborgaraleg íhaldssemi verið andlegt upplag Íhaldsflokksins, bakbein flokksins er miklu fremur meðal lesenda Daily Mail en The Times.

Í Englandi hefur smáborgaraleg íhaldssemi verið andlegt upplag Íhaldsflokksins, bakbein flokksins er miklu fremur meðal lesenda Daily Mail en The Times, með tilheyrandi hneykslun á öllu því sem ekki fellur innan agaðra leiðinda miðaldra millistéttarlífs. Við þekkjum þetta líka hér; Morgunblaðið verður aldrei sakað um frjálslyndi og hefur verið áratugum á eftir öðrum fjölmiðlum í að fjalla um kynferðislegt ofbeldi og áreitni, svo dæmi sé tekið. Það sama á við um Sjálfstæðisflokkinn, andlegt upplag hans hefur verið nær Fíladelfíu í Reykjavík en Samtökunum ’78. Þegar ég var að alast upp og frjálslyndis- og mannréttindakröfur ’68-bylgjunnar léku um samfélagið og Rauðsokkur ögruðu áður viðurkenndum viðhorfum voru Hvatarkonur teiknaðar upp sem helstu andstæðingar þessara breytinga, en Hvöt var (og er kannski enn) kvenfélag Sjálfstæðisflokksins.

Það er í anda þessara arfleifðar íhaldsins sem þingmenn og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins setja upp ægilegan þjáningarsvip þegar þeir ræða frumvarp um þungunarrof. Þrátt fyrir mörg orð um frelsi er Sjálfstæðisflokkurinn andstæðingur persónufrelsis. Ekki alveg þó, því hann er allur fyrir frelsi hinna ríku. En hann er andstæðingur frelsi til annarra vegna þess að hann vantreystir öllu fólki nema hinum ríku, finnst það fólk hafa sannað að því sé ekki treystandi til að taka sjálft ákvarðanir um eigið líf einmitt vegna þess að það er ekki ríkt. Flokksfólk í Sjálfstæðisflokknum trúir að þau sem ekki eru rík hafi einmitt sýnt fram á að þau séu ekki gott fólk eða skynsamt, ekki alveg lukkað. Þess vegna vill flokkurinn, í nafni hinna ríku, taka sér húsbóndavald yfir almenningi. Ekki bara í efnahagnum eða sameiginlegum úrlausnarmálum, heldur líka í persónumálum.

Þess vegna er flokkurinn til dæmis fljótur til refsinga gegn þeim sem nota fíkniefni en tilbúinn að auka aðgengi að áfengi. Sjálfstæðisflokksfólk metur svo að það noti áfengi en þau sem nota fíkniefni séu „hin“, hitt fólkið sem þarf að stýra með boðum og bönnum. Og refsingum.


Sú kúgun er óaðskiljanlegur hluti kúgunar samfélagsins, kúgun valdastéttarinnar á þeim sem hún vill kúga og þarf að kúga til að halda völdum sínum.

Þessa andstöðu flokksins gegn frelsi og vantrú hans á framtakssemi einstaklinga sést einnig í afstöðunni til starfsgetumats. Það er kerfi sem ætlað er að þröngva öryrkjum í atvinnuleit og svipta þá örorkubótum ef þeir fá ekki vinnu. Þetta byggir á sannfæringu um að öryrkjar, sem er hitt fólkið séð frá hrauk Valhallar, séu liðleskjur sem leggist í leti og ólifnað ef húsbændurnir beiti ekki húsbóndavaldi sínu til að aga þær og siða. Sjálfstæðisflokkurinn hefur enga trú á framtakssemi öryrkja, að þeir séu drifnir áfram af sömu þrá og annað fólk í að þroskast og dafna og finna leið til að blómstra sem manneskjur og samfélagsþegnar. Slíka trú sóar Sjálfstæðisfólk ekki á aðra en hin ríku og þau sem fljóta ofan á í samfélaginu. Flokkurinn vill gefa þeim sem fljóta ofan á óréttlæti samfélagsins frelsi en aga hina kúguðu. Sú kúgun er óaðskiljanlegur hluti kúgunar samfélagsins, kúgun valdastéttarinnar á þeim sem hún vill kúga og þarf að kúga til að halda völdum sínum.

Það er í þessu samhengi sem við ættum að meta andstöðu Sjálfstæðisflokksfólks og annarra íhaldsmanna gagnvart breytingum á lögum um þungunarrof. Flokkurinn veit að hin ríku eru ekki háð þessum lögum og hafa aldrei verið, þau þurftu ekki einu sinni að beygja sig undir bann við fóstureyðingum. En þingmönnum og ráðherrum flokksins finnst fráleitt að alþýðukonur geti metið sjálfar hvort þær kjósi þungunarrof, telja sig verða að setja þeim skýr tímamörk og hafa vit fyrir þeim með öðrum hætti. Þessu fólki finnst fráleitt að vinnukona geti tekið óstudd og ein slíka ákvörðun og telja að rétt sé að húsbóndinn hafi vit fyrir henni.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: