- Advertisement -

Yfirlætið er algjört og traustið er farið

„Traust er forsenda góðra vinnubragða. Síðastliðið fimmtudagskvöld gengu hæstvirtur forseti og meirihlutinn á bak orða sinna og stóðu ekki við samkomulag um lengd þingfundar. Traust var rofið,“ sagði Jón Pétur Zimsen Sjálfstæðisflokki.

„Stjórnarandstaðan kveinkar sér ekkert undan vinnu en traust er áunnið. Það er ekki þvingað fram með völdum. Enn eitt dæmið um óásættanleg vinnubrögð gagnvart þingheimi öllum. Meirihlutanum lá svo mikið á að klára hið sanngjarna og réttláta veiðiskattamál að forseti breytti starfsáætlun þingsins, eitthvað sem gerist mjög sjaldan, og boðaði til þingfundar á laugardaginn var. Stjórnarandstaðan mætti en stjórnarliðar gátu ekki mannað atkvæðagreiðslu um sitt eigið mál. Allt þvaður meiri hlutans um annað er fyrirsláttur enda þurfti að fresta þingfundi tvisvar á laugardaginn á meðan reynt var að smala ríkisstjórninni, árangurslaust, til vinnu. Vandræðalegt.

Hæstvirtur fjármála- og efnahagsráðherra sat síðan hér og glotti undir réttmætum spurningum um fjarveru sínu á laugardaginn og svaraði engu. Hæstvirtur ráðherra mætti ekki í þingsal í lokahnykk 1. umræðu um þetta risastóra mál. Hvar var hæstv. ráðherra? Hann var hérna í næsta húsi, 50 metra í burtu, á vinnustofu Viðreisnar þegar honum ber skylda til að taka fundi Alþingis fram yfir aðra fundi. Hæstvirtur ráðherra var svo svældur í pontu í óundirbúnum fyrirspurnum og þar kom fram að hæstv. ráðherra taldi vinnustofu Viðreisnar markverðari en þingfund og hægt væri að horfa á Alþingi í sjónvarpinu. Yfirlætið algjört, traustið farið, léleg vinnubrögð regla og vanvirðing við þingmenn og landsmenn alla.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: