- Advertisement -

Ríkisstjórnin eykur ójöfnuð

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands er ekki hrifin af fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnar Katrínar. Segir afkomu fólks vera ógnað.

Miðstjórn Alþýðusambands segir í ályktun apð fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar ógni afkomuöryggi fólks og það verði til að auka ójöfnuð enn frekar.

Bilið eykst

„Í rannsókn hagdeildar ASÍ á þróun skattbyrði launafólks síðastliðin 20 ár kemur skýrt fram að skattbyrði launafólks hefur aukist og þeim mun meira eftir því sem tekjurnar eru lægri. Það eru því mikil vonbrigði að ekki sé brugðist við þessari þróun í fjárlagafrumvarpinu heldur þvert á móti haldið áfram á sömu braut með því að lækka útgjöld til barnabóta, vaxtabóta og húsnæðisbóta. Tekjuójöfnuður mun halda áfram að aukast þar sem dregið er enn frekar úr jöfnunarhlutverki skattkerfisins,“ segir í álymtuninni.

Afkomuöryggi launafólks ógnað
Afkomutrygging launafólks í atvinnuleysistryggingum, ábyrgðasjóði launa og fæðingarorlofi er veikt enn eitt árið. Atvinnuleysisbætur eru í sögulegu lágmarki sem hlutfall af lágmarkslaunum og mun það hlutfall enn lækka á milli ára. Hámarksgreiðslur úr Ábyrgðasjóði launa nema nú rétt um 50% af meðaltekjum á vinnumarkaði en voru um 90% á árinu 2009. Ekki á að endurreisa fæðingarorlofskerfið þrátt fyrir tillögur starfshóps stjórnvalda þar um. Kaupmáttur hámarksgreiðslna úr fæðingarorlofssjóði mun því rýrna áfram og verður um 40% lægri en á árinu 2007. Engin áform eru heldur uppi um lengingu fæðingarorlofsins.

Vanefndir í húsnæðismálum
Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga vorið 2015 var gert ráð fyrir byggingu 600 íbúða í almenna íbúðakerfinu árlega til ársins 2019. Árleg framlög til að mæta þessu hafa verið 3 milljarðar kr. en byggingarkostnaður hefur hins vegar hækkað á tímabilinu og því dugir framlagið ekki fyrir þeim fjölda íbúða sem lofað var.

ASÍ hefur ítrekað lýst því yfir að fjölga þurfi íbúðum í almenna íbúðakerfinu mun hraðar en áformað er  eða um a.m.k. 1.000 á ári næstu árin til að mæta uppsafnaðri þörf og slá á þenslu á húsnæðismarkaði. Almennar íbúðir eru fyrir tekjulægsta launafólkið en margir í þeim hópi eru í alvarlegum húsnæðisvanda. Stjórnvöld verða að sjá sóma sinn í því að tryggja öllum húsnæðisöryggi. Núverandi ástand er smánarblettur á samfélaginu.

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: