- Advertisement -

Stjórnvöld eru ætíð tilbúin að verja fjármálakerfið og atvinnulífið

Vilhjálmur Birgisson:

Boltinn er hjá þessum aðilum en þeir þegja þunnu hljóði og gott væri ef sveitarfélögin myndu byrja á að svara hvort þessar miklu gjaldskrárhækkanir sem þau hafa boðað muni standa og ef svo er verður allt tal um langtímasamninga og þjóðarsátt að engu!

Við núverandi forystufólk í verkalýðshreyfingunni höfum reglulega fengið spurningar um af hverju ekki sé samið eins og gert var í þjóðarsáttarsamningunum árið 1990. Þar tala fræðimenn og hagfræðingar um að samið hafi verið með skynsamlegum hætti sem skilaði umtalsverðum árangri fyrir launafólk og heimili. Það hefur m.a. verið skrifað um að þjóðarsáttin 1990 hafi skipað sér á bekk með merkisatburðum 20. aldar og hefur hún yfir sér goðsagnakennt yfirbragð.

Það má segja að ástandið núna sé alls ekkert ósvipað og ástandið var 1990 þótt vissulega hafi verðbólgan verið mun hærri eða sem nam 25% og vextir umtalsvert hærri en þeir eru nú. Það sem er sammerkt með því sem er að gerast nú og því sem gerðist fyrir þjóðarsáttasamninginn er það að stjórnvöld á þeim tíma hugsuðu fyrst og fremst um hagsmuni atvinnulífsins og fjármálakerfisins. Í hvert sinn og samið var um launahækkanir á þessum árum komu stjórnvöld og felldu gengið sem hafði þær afleiðingar að ávinningur kjarasamninga þurrkaðist upp á skömmum tíma. Þessar stanslausu gengisfellingar stjórnvalda gerðu það að verkum að verðbólgan hér á landi varð stjórnlaus en allar þessar gengisfellingar gengu út á að styrkja útflutningsfyrirtækin á kostnað launafólks.

Á þessum forsendum segi ég að 1990 var svipað ástand og er í dag enda liggur fyrir að stjórnvöld horfa ætíð á hagsmuni fyrirtækja og fjármálakerfisins og þegar talað er um fjármálastöðugleika þá loka stjórnvöld ætíð báðum augum þegar kemur að fjármálastöðugleika heimilanna, þeim má fórna á altari fjármálakerfisins.

…endurreisn bankanna hafi kostað skattgreiðendur 414 milljarða, núvirt 624 milljarða.

Það er af nægu að taka til að rökstyðja þetta og nægir að byrja á bankahruninu þar sem hagnaður og gróði viðskiptabankanna var einkavæddur en tapið ríkisvætt eins og kemur fram á vef stjórnarráðsins. En þar segir að endurreisn bankanna hafi kostað skattgreiðendur 414 milljarða, núvirt 624 milljarða. Hvað var gert fyrir heimilin á þessum tíma? Jú, lán heimilanna voru færð niður að 110% af verðmæti fasteignar og um tíu þúsund fjölskyldur misstu heimili sín.

Hvað var gert fyrir fyrirtækin vegna Covid? Í skýrslu sem birtist á vef stjórnarráðsins kemur fram að alls námu mótvægisaðgerðir stjórnvalda nær 450 ma.kr. á árunum 2020-2022.

Á þessu sést að stjórnvöld eru ætíð tilbúin að verja fjármálakerfið og atvinnulífið en þegar kemur að launafólki, neytendum og heimilum þessa lands verður því miður afar fátt um aðgerðir.

Það má því segja eins og áður hefur komið fram að ástandið núna og fyrir þjóðarsáttasamninga 1990 séu alls ekki ólík þar sem stjórnvöld komu með stanslausar gengisfellingar til að þurrka upp ávinning af þeim kjarasamningum sem gerðir voru. Í dag er það Seðlabankinn sem þurrkar upp allan ávinning af kjarasamningum með stanslausum stýrivaxtahækkunum og opinberir aðilar sem og verslun og þjónusta varpa viðstöðulaust öllum kostnaðarhækkunum á launafólk!

Ég spyr eru stjórnvöld, sveitarfélög, Samtök atvinnulífsins og verslun og þjónusta tilbúin að gera þjóðarsáttarsamning eins og gert var 1990? Samning sem byggðist á því að ná verðbólgunni niður og ná niður okurvöxtum fjármálakerfisins. Það tókst í þjóðarsáttarsamningum árið 1990 en verðbólgan fór úr 25% niður í 6% á 12 mánuðum og vextir lækkuðu um tæp 40%.

Rifjum upp kröfur Dagsbrúnar í þjóðarsáttarsamningunum.

  • 1. Peningamarkaðurinn yrði tekinn til gaumgæfilegrar athugunar og okurlánahluti hans afnuminn. Einnig var krafa Dagsbrúnar að bönnuð yrði öll tenging fjárskuldbindinga við vísitölu og öll vísitölutenging hverju nafni sem hún nefndist yrði bönnuð með lögum.
  • 2. Sameiginlegt átak yrði gert í húsnæðismálum af ríki, sveitarfélögum og aðilum vinnumarkaðarins s.s lífeyrissjóðunum. Markmið þessa átaks yrði að stytta byggingartíma og lækka byggingarkostnað, þannig að allt launafólk gæti fengið þak yfir höfuðið án þess að fórna bæði heilsu og afkomumöguleikum til langs tíma.

Báðar þessar kröfur eiga svo sannarlega við varðandi komandi kjarasamninga en það verður að taka á okurvöxtum fjármálakerfisins og það verður ekki gert nema að ráðist verði í kerfisbreytingar sem byggja á nýju húsnæðislánakerfi þar sem neytendum standi til boða lánakjör með sambærilegum hætti og gerist í þeim löndum sem við erum að bera okkur saman við.

Enginn stjórnmálamaður hefur getað svarað því af hverju Færeyingum stendur til boða óverðtryggt húsnæðislán til 30 ára á 4,8% vöxtum meðan vextir hér á landi eru um 11% Já stjórnvöld geta ekki svarað þeirri spurningu af hverju vaxtakjör til heimila þessa lands eru þetta frá 150% til 250% hærri hér á landi heldur en á Norðurlöndunum.

Þjóðarsáttarsamningurinn!

Forsendur fyrir þjóðarsáttarsamningunum frá árinu 1990 voru útlistaðar í 10 liðum. Ætla að fara yfir nokkur atriði:

  • 1. Gengi krónunnar verði stöðugt á samningstímanum
  • 2. Lækkun vaxta, svigrúm vaxtalækkana mun hjálpa fyrirtækjum að standa undir launahækkunum.
  • 3. Ýtrasta aðhalds fyrirtækja verði gætt í verðlagshækkunum
  • 4. Verð á búvörum verði óbreytt í 10 mánuði
  • 5. Ekki komi til frekari hækkana á opinberri þjónustu en þær sem kynntar voru 28. janúar 1990
  • 6. Jafnframt var gert ráð fyrir að sveitarfélög endurskoðuðu gjaldskrár sínar. Mjög mikilvægt var að þessi forsenda stæðist í því skyni að koma böndum á verðbólgu og áform um að kaupmáttur launa héldi.
  • 7. Ríkisstjórnin skipaði starfshóp til sameiginlegrar athugunar og aðgerða bankakerfisins og ríkisstjórnarinnar í því skyni að tryggja að vaxtalækkanir til samræmis við hjaðnandi verðbólgu fái staðist til frambúðar. Samningurinn átti að leggja grunn að frekari lækkun raunvaxta.

Þetta voru nokkur þeirra atriða sem komu fram í þjóðarsáttarsamningunum árið 1990 og eiga svo sannarlega við í dag. Ef nýr þjóðarsáttarsamningur yrði gerður þyrftu nokkur atriði að vera alveg á hreinu.

Stjórnvöld, sveitarfélög, Samtök atvinnulífsins og verslun og þjónusta þurfa að svara því hvort þau eru tilbúin að tryggja að gjaldskrár og verðlag hækki ekki um meira en 2,5% árið 2024.

Eru stjórnvöld tilbúin að gera hér kerfisbreytingar á fjármálakerfinu með það að markmiði að neytendum hér á landi hafi kost á sambærilegum vaxtakjörum og hjá þeim þjóðum sem við berum okkur saman við?

Eru stjórnvöld tilbúin að gera Landsbanka Íslands að samfélagsbanka?

Eru stjórnvöld tilbúin að gera Landsbanka Íslands að samfélagsbanka?

Eru stjórnvöld tilbúin að láta mæla neysluvísitöluna út eins og aðrar þjóðir gera þ.e.a.s taka reiknuðu húsaleiguna úr mælingunni og nota greidda húsleigu?

Eru stjórnvöld tilbúin að styrkja réttarstöðu leigjenda umtalsvert t.d. með leigubremsu?

Er ríkisstjórnin tilbúin að lagfæra og leiðrétta tilfærslukerfin eins og barna-og húsaleigubætur?

Þessum spurningum ásamt fleirum þurfa þessir aðilar að svara ef það á að gera hér þjóðarsáttarsamninga. Málið er að allir verða að leggja sitt af mörkum og það þarf að liggja fyrir áður en farið verður að stað í viðræður.

Nú liggur fyrir að sveitarfélög og ríki hafa verið að kynna hugmyndir að gjaldskrárhækkunum að undanförnu og eitt er víst að þær hækkanir eru alls ekki í anda þjóðarsáttar og það nema síður sé. Enda eru fyrirhugaðar hækkanir sveitarfélaganna þetta frá 6% uppí allt að 20% á einstökum liðum.

Hvað ætla t.d. tryggingarfélög og verslun og þjónusta að gera um áramótin? Verður það eins og alltaf að öllum kostnaðarhækkunum verði varpað á herðar launafólks, neytenda og heimila?

Það þýðir lítið fyrir alla þessa aðila að tala um að þjóðarsáttin sem gerð var 1990 hafi verið svo skynsamleg en vera svo kannski ekkert tilbúnir að leggja neitt af mörkum til að ná verðbólgunni niður. Enda afar „þægilegt“ að geta viðstöðulaust varpað hækkunum yfir á herðar neytenda.

Ég tel að meirihluti verkalýðshreyfingarinnar sé tilbúin til að gera langtímasamninga í anda lífskjarasamningsins…

Ég tel að meirihluti verkalýðshreyfingarinnar sé tilbúin til að gera langtímasamninga í anda lífskjarasamningsins að því gefnu að stjórnvöld og allir aðrir verði með og leggi sitt af mörkum og þar getur enginn verið stikkfrí

Nú er tími sérhagsmunagæslu fjármálakerfisins og hinna ríku liðinn og kominn tími til þess að stjórnvöld slái skjaldborg um lág-og millitekjufólk í þessu landi.

Ég óttast því miður að sérhagsmunaöflin hér landi vilji halda áfram að skara eigin eld að sinni köku á kostnað launafólks, neytenda og heimila

Boltinn er hjá þessum aðilum en þeir þegja þunnu hljóði og gott væri ef sveitarfélögin myndu byrja á að svara hvort þessar miklu gjaldskrárhækkanir sem þau hafa boðað muni standa og ef svo er verður allt tal um langtímasamninga og þjóðarsátt að engu!


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: