- Advertisement -

„Aumingja vitlausu mennirnir á Viðskiptablaðinu“

Sólveig Anna Jónsdóttir:

„Þá gætu þeir mögulega skilið að forsenduákvæði Breiðfylkingarinnar snúst um varnir fyrir vinnandi fólk.“

Vinnumarkaður Aumingja vitlausu mennirnir á Viðskiptablaðinu. Þeir skrifa leiðara í blaðið sitt um að Breiðfylkingin sé með kröfum sínum um forsenduákvæði í langtíma kjarasamningi varðandi vaxtastig að fara fram á „afnám sjálfstæðis Seðlabanka Íslands“. Aðför! Fráleitt! Aftur fráleitt! Og enn einu sinni fráleitt! Dálítill orða-forða skortur í gangi á Viðskiptablaðinu, smá Pisa-fall sjáanlegt. Aumingja þeir að vera svona fráleitt vitlausir. Í gær lýsti sjálfur stjóri alls á Íslandi, Ásgeir Jónsson, því yfir að aðilum vinnumarkaðarins væri frjálst að setja hvaða forsenduákvæði sem væri inn í kjarasamninga. Slíkt hefði ekki áhrif á ákvarðanir Seðlabankans. Semsagt: Það er beinlínis svo að forsenduákvæði um vaxtastig eru aldeilis ekki aðför að sjálfstæði Seðlabankans og fráleitt að halda slíku fram. Í raun til marks um annað af tvennu: Heimsku eða óheiðarleika. Reyndar er það svo að þetta tvennt fer oft saman, því miður.

Í gær birti Efling álit lögmannsstofunnar MAGNA, sem að beiðni félagsins athugaði áhrif forsenduákvæða í kjarasamningum á sjálfstæði Seðlabanka Íslands. Niðurstaðan er alveg skýr. Og í samræmi við afstöðu Seðlabankastjóra: Engin lög banna að forsenduákvæði um vaxtastig verði skrifuð í kjarasamninga. Réttur samningsaðila til að semja um slíkt sín á milli er ótvíræður. Forsenduákvæði um vaxtastig binda ekki á nokkurn hátt hendur Seðlabankans eða peningastefnunefndar.

Já, aumingja vitlausu mennirnir á Viðskiptablaðinu. Það hlýtur að svíða að hafa svona agalega rangt fyrir sér. En auðvitað er það svo að vitlausu mennirnir, líkt og blessuð börnin, læra það sem fyrir þeim er haft. Og Samtök atvinnulífsins hafa blákalt haldið því fram að Breiðfylkingin vilji bæði vega að og binda fólkið í peningastefnunefnd, tjóðra og mýla sjálf Svörtuloft. Martraðir vitlausu mannana um sadíska hugmyndaauðgi Breiðfylkingarinnar eru til komnar vegna fullyrðinga aðal-samningafólks íslenskrar auðstéttar, sem vill frekar hræða vitglóruna úr hugleysingjum en að vinna að farsælum langtíma-kjarasamningum. Það er sannarlega fremur óhugguleg staðreynd.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þegar ég var lítil stelpa voru Þjóðsögur Jóns Árnasonar lesnar fyrir mig. Sagan af djáknanum á Myrká varð til þess að mamma mín þurfti að hengja á mig kross og ég æpti faðir-vorið á Guð og Jesú ef ég þurfti að fara á milli húsa í Breiðholts-myrkrinu. Ef ég gerði það ekki þuldi ég í staðinn hástöfum:

Máninn líður,

dauðinn ríður;

sérðu ekki hvítan blett

í hnakka mínum,

Garún, Garún?,

og gerði með því sjálfa mig sífellt hræddari. Helvítis ógeðslegi hvíti blettur! Aðför að andlegu heilbrigði.

Þá var ég sex ára, og svo rjátlaðist tryllingslegasta hræðslan af mér smám saman og ég þurfti ekki lengur að ganga með kross þegar ég varð sjö ára. Það væri óskandi að vitlausu mennirnir hættu að góla af áróðurs-innblásinni hræðslu og reyndu þess í stað að prófa að hugsa. Því að til þess setti Guð í okkur heilann að við gætum hugsað. Þá gætu þeir mögulega skilið að forsenduákvæði Breiðfylkingarinnar snúst um varnir fyrir vinnandi fólk svo að við séum ekki tjóðruð og mýld, föst í fjögurra ára kjarasamningi á meðan að kaupmátturinn okkar fuðrar upp og vaxtabyrðin kremur okkur. Slíkt fyrirkomulag væri sannarlega ekkert annað en ljót saga og hræðileg, bönnuð börnum og öllu sæmilega normal fólki.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: