- Advertisement -

Launaskriðið mest hjá þeim sem eru með hæstu launin

Marinó G. Njálsson skrifar:

Vinnumarkaður Hef stundum gaman af því, þegar tölfræðin fer í skrúfuna hjá þeim ætla að sýna fram á, hve taxtahækkanir fólksins á lægstu eru skaðsamlegar fyrir þjóðfélagið. Besta leiðin til að „sanna“ slíkt er að nota hlutfallstölur (prósentur) og forðast eins og heitan eldinn að nota krónutölur.

Ég skoðaði tölur Skattsins um framtalin laun eftir tekjubilum og reiknaði meðallaun á hverja tekjufimmtung, þ.e. frá 1-20, 21-40, o.s.frv. Ath. að í hverju tekjubili eru jafnmargir einstaklingar og að hér eru eingöngu tekin laun eins og þau koma fram í gögnum Skattsins. Hér eru bornar saman breytingar meðalárslauna milli áranna 2016 og 2021, en ég tók einnig saman upplýsingar fyrir árin 2001, 2006 og 2011.

Tekjubil: Breyting á meðallaunum

  • 1-20 109.009 kr.
  • 21-40 395.214 kr.
  • 41-60 952.711 kr.
  • 61-80 1.514.537 kr.
  • 81-100 2.306.116 kr.

Svo eru einhverjir sem vilja halda því fram að jöfnuður hafi aukist og tekjubilið minnkað.

Neðsti hópurinn fékk rétt rúmlega 9.000 kr. hækkun alls á mánuði á milli 2016 og 2021. Svo sem ekki alveg marktækur hópur, því hann er líklega að stórum hluta á greiðslum frá TR. Næsti hópur fékk um 26.400 kr. hækkun launa á mánuði. Þriðji hópurinn hækkaði um rétt rúmlega 30.000 kr. á mánuði. Fjórði hópurinn hækkaði um tðplega 90.000 kr. og sá fimmti um ríflega 168.000 kr. Tölfræðin segir okkur hins vegar að hópur 2 hafi hækkað mest eða um 27,3%, meðan síðasti hópurinn, sem fékk meiri hækkun en allir hinir samanlagt hafi „bara“ hækkað um 21,8%. Það var að vísu meiri hlutfalls hækkun en hópar 1, 3 og 4 fengu hver um sig.

Sé horft aftur til ársins 2001 og 20 ára tímabil skoðað, þá kemur í ljós að tekjuhæstu 20% þjóðarinnar hafa hækka um 7,5 m.kr. í laun (aftur eru bara launin skoðuð). Það er hærri upphæð en hin 80% þjóðarinnar samanlagt. Meðan hópar 1, 2, 3 og 4 hafa hækkað um 183%, 179%, 161% og 199%, þá hefur hópur 5 hækkað um 198%. Svo eru einhverjir sem vilja halda því fram að jöfnuður hafi aukist og tekjubilið minnkað. Vissulega eru sveiflur á milli áranna sem voru skoðuð, en jafnvel hlutfallslega er tekjulægra fólkið að dragast aftur úr hvort heldur efstur 20 prósentunum eða efstu 40 prósentunum. Að efsta hópnum finnist síðan ekki nóg, að fá yfir 20 ára tímabil hærri krónutöluhækkun launa sinna, en allir aðrir samanlagt og vilji meira, sýnir í besta falli græðgi og í versta falli siðblindum.

Nú er það svo, að hreyfingar verða á milli hópa. Það hins vegar þýðir gagnvart efsta hópnum, að launaskrið þeirra, sem voru í honum árið 2021, hefur í reynd verið meira en þessar tölur gefa í skyn.

Greinina birti Marinó á eigin Facebooksíðu. Greinin er birt hér með góðfúslegu leyfi höfundar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: