- Advertisement -

Er Íslandsvarðan gæluverkefni?

Alls ekki segir borgarmeirihlutinn, þvert á skoðanir Sjálfstæðisflokksins. Kemur niður á grunnþjónustunni, segja borgarfulltrúarnir.

Ósætti gætir innan borgarráðs um hvort rétt sé að borgin kaupi verkið Íslandsvörðuna, eftir Jóhann Eyfells, og greiði 27,5 milljónir fyrir. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í borgarráði lögðu til að í stað þess að kaupa verkið yrði öðrum listamönnum gefið færi á að sýna verk sitt á þessum fjölfarna og eftirsótta stað, þ.e. við Sæbraut. þar sem Íslandsvarðan stendur nú. „Forgangsraðað er í þágu gæluverkefna í stað nauðsynlegrar grunnþjónustu,“ segja þeir.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata bókuðu, ásamt áheyrnarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina.

Þar segir: „Lánssamningur frá árinu 2010 um verkið Íslandsvörðuna eftir Jóhann Eyfells, sem stendur við göngu- og hjólastíg við Sæbraut, er runninn út og við því þarf að bregðast. Það er mat safnstjóra Listasafns Reykjavíkur að verkið hafi tvímælalaust gildi sem vandað og gott listaverk í opinberu rými borgarinnar. Safnstjóri mælir með að verkið verði keypt af listamanninum til þess að tryggja því sess til framtíðar í borgarlandinu, en það hefur nú þegar öðlast sess sem eitt af kennileitum borgarinnar. Sjálfstæðismenn greiða atkvæði gegn varðveislu verksins á núverandi stað, kalla það gæluverkefni og vilja frekar ný verk á staðinn, sem eru þá væntanlega ekki gæluverkefni.“

Eins segir í bókuninni: „Að sjálfsögðu er líka mikilvægt að gefa ungu og upprennandi listafólki tækifæri, enda liggur nú þegar fyrir að 150 milljónir króna muni renna í samkeppni um list í almannarými í hinni nýju Vogabyggð sem kostað verður af uppbyggingaraðilum og borginni. Það er augljóst mál að besta aðferðin til að gefa nýju listafólki tækifæri er ekki að fjarlægja sígilda list úr borgarrýminu, heldur einmitt að bæta við og fjölga listaverkum alls staðar í Reykjavík.“

 

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: