- Advertisement -

Þreyta mig í von um uppgjöf

- mögulega meira en einn milljarður króna. Ætli það sé ekki sú fjárhæð sem þau tóku frá fátækasta fólkinu í Reykjavík.

„Þrátt fyrir álit umboðsmanns borgarbúa og úrskurðarnefndar velferðarmála um að Reykjavíkurborg hafi tekið af mér 38 þúsund krónur á mánuði í bráðum tvö ár, hefur borgin ekki endurgreitt mér krónu. Líklega reiknar fólkið hjá borginni með að ég hafi ekki efni á að ráða mér lögfræðing, þau eru að þreyta mig og vona að ég gefist upp. En ég mun aldrei gefast upp, ekki fyrir fólki sem klípur fé af öryrkjum, sem rétt ná skrimta út mánuðinn og varla það. Ég mun aldrei gefast upp fyrir þessu fólki,“ segir Gústaf Grönvold, eftirlaunamaður og leigjandi hjá Félagsbústöðum. Hann er í stríði við borgaryfirvöld. Hann lagði einn í stríð en hefur nú fengið umboðsmann borgarbúa í lið með sér og líka borgarfulltrúa úr minnihlutanum. Og hann er viss um sigur. „Þau vilja ekki borga vegna þess að þau vita að þá þyrftu þau að borga öllum öðrum sem fengu skerðingu á húsnæðisbætur. Ég veit ekki hvað það verður mikið í heildina, mögulega meira en einn milljarður króna. Ætli það sé ekki sú fjárhæð sem þau tóku frá fátækasta fólkinu í Reykjavík.“

„Og þegar maður er að reyna að draga fram lífið á lágmarks ellilífeyri er það eins og að kasta manni fyrir björg. Það er útilokað að lifa af lífeyri. Það á að veita öllum þeim sem tekst það fálkaorðuna í lok árs. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvaða áfall það var fyrir fólk í þeirri stöðu að missa 38 þúsund krónur í hverjum mánuði.“ Mynd: reykjavik.is.

Tóku af mér 38 þúsund krónur

Málið hans Gústafs er svo til eins og málið sem Öryrkjabandalagið vann gegn Reykjavíkurborg fyrir Hæstarétti vegna skerðingar sérstaks húsnæðisstyrks til þeirra sem leigðu hjá Brynju, íbúðafélagi öryrkja. Borgin afnam sérstakan styrk hjá leigjendum Brynju með rökum sem Hæstiréttur svo hafnaði, um að þar sem leigan hjá Bjargi væri undir leigu á almennum markaði ættu leigjendur þar ekki rétt á sérstökum húsnæðisstyrk. Leigjendur hjá Félagsbústöðum eru í raun í sömu stöðu, Reykjavíkurborg felldi niður sérstakar húsnæðisbætur til Gústafs og annarra leigjenda Félagsbústaða um þar síðustu áramót. Og Gústaf sætti sig ekki við það. Og mátti alls ekki við því. „Þau tóku af mér 38 þúsund krónur, hækkuðu húsaleiguna og lækkuðu bæturnar. Allt í einu missti ég 38 þúsund krónur af ráðstöfunarfé mínum í hverjum mánuði,“ segir Gústaf. „Og þegar maður er að reyna að draga fram lífið á lágmarks ellilífeyri er það eins og að kasta manni fyrir björg. Það er útilokað að lifa af lífeyri. Það á að veita öllum þeim sem tekst það fálkaorðuna í lok árs. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvaða áfall það var fyrir fólk í þeirri stöðu að missa 38 þúsund krónur í hverjum mánuði.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Var hættur að geta labbað

Gústaf leigir hjá Félagsbústöðum í Þórðarsveig 1 í Grafarholti og er bara nokkuð ánægður með íbúðina. Þetta er stórt hús með um fimmtíu íbúðum, öllum í eigu Félagsbústaða. Gústaf fékk inni þarna eftir margra ára baráttu við að losna út úr íbúð í Hraunbænum, sem hann segir að hafi verið að drepa sig. „Ég var hættur að geta labbað, var kominn í göngugrind,“ segir Gústaf og kennir myglu um og óheilnæmum vistarverum. „Ég fór einu sinni í IKEA að borða og eins og þið vitið þarf maður að labba í gegnum verslunina til að komast út. Ég þurfti að hvíla mig fjórum sinnum á leiðinni, ég var orðinn algjör ræfill. Um daginn fór ég í IKEA, borðaði og gekk út í bíl án þess að stoppa einu sinni, blés varla úr nös. Ég er orðinn allt annar. Og það eina sem hefur breyst er að ég losnaði út úr íbúðinni í Hraunbænum. Nú þarf ég ekki göngugrindina lengur.“

Ég bað Félagsbústaði um að merkja stæði fyrir utan heimilið mitt og þau sögðust ætla að athuga málið. Ég rak á eftir en þegar ég flutti næstum ári seinna var merkingin ekki enn komin.

Sumir eru algjörlega bugaðir 

Gústaf leggur ekki gott orð til félagsþjónustunnar, Félagsbústaða eða yfirstjórnar Reykjavíkurborgar. Hann segir fólk veigra sér við að leita til félagsþjónustunnar jafnvel þótt það sé í mikilli neyð. „Ég hef verið heppinn með félagsráðgjafa, það var kona í Árbænum sem hjálpaði mér mikið, hlustaði og studdi mig,“ segir Gústaf, „En margir sem vinna þarna eru bara að sækja launin sín og gera ekkert fyrir fólk. Sumir eru algjörlega bugaðir eftir að hafa leitað til félagsþjónustunnar, upplifa sig einskis virði, að enginn vilji hlusta, að það verði bara að sitja áfram í sínum vanda. Sem oft er óbærilegur.“

Hryllilegur rekstur

Og ekki eru Félagsbústaðir skárri. „Framkvæmdastjórinn er með 1.800 þúsund á mánuði og auk þess með 1.800 þúsund á ári í bílastyrk, meira en ég hef til framfærslu,“ segir Gústaf. „Samt er allt í ólestri hjá þessu fyrirtæki. Það dó maður á hæðinni fyrir ofan mig fyrir átta mánuðum og íbúðin er enn laus. Það gæti örugglega einhver af þúsund manna biðlistanum notað þessa íbúð. Þegar ég bjó í Hraunbænum fékk ég blátt merki í bílinn minn vegna þess að ég gat varla gengið. Ég bað Félagsbústaði um að merkja stæði fyrir utan heimilið mitt og þau sögðust ætla að athuga málið. Ég rak á eftir en þegar ég flutti næstum ári seinna var merkingin ekki enn komin. Leigjendur kvarta undan lélegu viðhaldi og ég held að viðhaldsdeildin sé öll flúin. Það starfsfólk sem við þekktum og treystum hefur flest hætt. Ég held að Félagsbústaðir séu hryllilega illa rekið fyrirtæki. Samt er framkvæmdastjórinn á launum eins og hann sé einhver afburðamaður, ómetanlegt sení.“

Þetta er algjör glæpastarfsemi

Og Gústaf talar heldur ekki vel um yfirstjórn Reykjavíkurborgar. Skiljanlega. Hann hefur í höndunum álit umboðsmanns borgarbúa og úrskurð frá úrskurðarnefnd velferðarmála um að borgin skuldi honum pening. Borgin á nóg af peningum en hann á sjálfur minna en ekki neitt. Samt borgar borgin ekki. „Þau þora ekki að borga mér, vita að þá þurfa þau að borga fjölda fólks líka,“ segir Gústaf. „Þetta er algjör glæpastarfsemi, þau eru að taka peninga af fólki sem má ekki missa krónu, af fólki sem er allan mánuðinn að berjast fyrir því að eiga fyrir mat.“

Fátækt einangrar fólk

Fátækt einangrar fólk. Og einangrunin gerir það enn bjargarlausara.

Gústaf þekkir vel þá baráttu, að berjast fyrir lífinu á lægstu bótum og búa við algjört öryggisleysi. Hann var leigubílstjóri þangað til hann veiktist og fór á örorkubætur. Það tók tíma, hann átti bæði erfitt með að sætta sig við það sjálfur að vera orðinn ófær til vinnu og var lengi að rata á réttan stað í kerfinu. Og það var erfitt að aðlagast því að þurfa að lifa af örorkubótum. „Með hámarks stuðningi áttu kannski 100 þúsund krónur eftir til að reka þig og bílinn út mánuðinn, kaupa þér mat, föt, lyf og allt sem þú þarft,“ segir Gústaf. „Þú þarft að neita þér um margt, næstum allt, og smátt og smátt einangrast þú. Þú getur ekki tekið þátt í því lífi sem aðrir lifa. Ég er mjög einangraður í dag, hef ekki getað haldið tengslum við ættingja og vini. Það skilur þetta kannski enginn sem ekki hefur lent í þessu sjálfur, en það er eins og maður lendi á einhverju hliðarspori, sé ekki með í samfélaginu. Fátækt einangrar fólk. Og einangrunin gerir það enn bjargarlausara.“

Skelfingu líkast

Líf Gústafs undanfarin ár hefur einkennst af fátækt og baráttu hans við fátækt og afleiðingar hennar. En líka baráttu hans við kerfið sem hann festist í eftir að hann varð öryrki. Hann missti íbúðina sem hann átti þegar hann varð tekjulaus og svaf í bílnum í heilt ár og var lengi í raun hústökumaður í verksmiðjuhúsi sem átti að rífa og stóð við Borgartún. „Þetta er skelfingu líkast,“ segir Gústaf. Hann fékk þá íbúð hjá Félagsbústöðum og hélt henni í þrjú ár. Þá var hann borinn út vegna vangoldinnar leigu.

Ég var borinn út 

„Hvað gerirðu þegar þú átt ekki fyrir mat? Hvað gerirðu þegar það leitar einhver til þín sem á ekki fyrir mat?“ spyr Gústaf. „Borgarðu frekar húsaleiguna en að borða? Og frekar en að gefa öðru fólki að borða?“ Hann segist hafa verið í vonlausri aðstöðu og einfaldlega ekki átt fyrir húsaleigunni. Og þegar hann borgaði ekki húsaleigu kom bréf frá innheimtufyrirtæki með tilheyrandi kostnaði og svo bréf frá lögmanni með enn meiri kostnaði. „Ef ég gat ekki borgað húsaleigu hvernig átti ég að geta borgað lögfræðingi laun?“ spyr Gústaf, gáttaður yfir hvernig kerfið virkar sem hann er fastur í. „Þetta endaði með því að ég var borinn út og velferðarsvið þurfti að borga innheimtufyrirtækinu og lögfræðingnum. En ég var á götunni.“

Þetta var bara herbergi 

Hann neitar að láta vísa sér sætis þar sem fólk á að upplifa sig sem annars flokks. Gústaf Grönvold er staðinn upp. Það á eftir að koma í ljós hvort aðrir munu fara að dæmi hans.

Og Gústaf spyr mikilvægrar spurningar: „Hvernig getur sveitarfélag sem ber lögum samkvæmt að tryggja öllum húsnæði, sem ekki geta án hjálpar keypt eða leigt, borið út úr félagslegu húsnæði mann sem á ekki einu sinni efni á að borga húsaleiguna þar?“

Eftir þetta bjó Gústaf í rúmt ár í iðnaðarhúsnæði í Hafnarfirði. Kunningi hans leyfði honum að vera þar í einu herbergi. „Það var ágætt,“ segir Gústaf, „ég þurfti ekki að borga húsaleigu og fólki fannst ágætt að það væri einhver í húsinu á nóttunni. En þetta var náttúrlega ekki heimili, þetta var bara herbergi og svo klósett frammi á gangi.“

Gústaf sótti því aftur um hjá Félagsbústöðum og fékk úthlutað íbúðina í Hraunbænum, íbúðina sem var svo illa farin að honum fannst hún vera að drepa sig. Og nú er hann kominn í mun betri íbúð, er allur að hressast og uppfullur af baráttuanda. Hann ætlar að leggja Reykjavíkurborg og fá borgina til að endurgreiða sér það sem borgin tók af honum. Og í leiðinni það sem borgin skuldar öðru fátæku fólki sem leigir hjá Félagsbústöðum.

Eins og að ferðast aftur í tímann

Hann horfir í kringum sig þar sem hann situr í setustofunni á jarðhæðinni í Þórðarsveig. Íbúarnir koma þangað niður og morgnanna og fá sér kaffi. „Veistu,“ segir hann, eins og hann sé að hugsa upphátt, „blöðin koma ekki hingað. Þeir hafa ekki fyrir því að stinga Fréttablaðinu hingað inn. Og fæst af þessu fólki hefur efni á að eiga tölvu, fer aldrei á Netið. Þetta er í raun samfélag eins og þekktist á fyrri hluta síðustu aldar. Að koma hingað inn er eins og að ferðast aftur í tímann. Þar búa fátæklingarnir, fátæku öryrkjarnir og eftirlaunafólkið, það býr einangrað í fortíðinni.“

Sættir sig ekki við óréttlætið

En Gústaf sættir sig ekki við það kerfi, sem hann hefur verið settur inn í. Hann sættir sig ekki við óréttlætið innan þess og hann sættir sig heldur ekki við vanvirðingu sem honum finnst kerfið sýna fólkinu sem það á að aðstoða. Gústaf hefur ögrað þessu kerfi alla tíð, neitað að beygja sig undir kúgunina og vanvirðinguna. Hann er Rosa Park. Hann neitar að láta vísa sér sætis þar sem fólk á að upplifa sig sem annars flokks. Gústaf Grönvold er staðinn upp. Það á eftir að koma í ljós hvort aðrir munu fara að dæmi hans.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: