- Advertisement -

Borgin þrengir að húsbyggjendum

„Meirihluti borgarstjórnar leggur stein í götu þeirra sem vilja koma sér upp sínu eigin húsnæði. Með því að afnema lánakjör borgarinnar á sölu byggingarréttar sem hefur staðið einstaklingum til boða í áratugi var stigið skref í þá átt að gera húsbyggjendum erfiðara fyrir,“ svo segir í bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Á fundi borgarráðs var lagt fram bréf með tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks um að auðvelda einstaklingum kaup á lóðum. Tillagan er felld með 4 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna með vísan til umsagnar fjármálaskrifstofu gegn tveimur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina sat hjá.

Meirihlutinn felldi tillögu Sjálfstæðismanna.
Meirihlutinn felldi tillögu Sjálfstæðismanna.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram bókun þar sem segir að meirihlutinn virðist telja að lög um neytendalán hafi verið sett í þeim öfugsnúna tilgangi að koma fyrir í veg fyrir að almenningur geti tekið lán. Það er misskilningur. Tilgangur laganna er ekki að torvelda lántökur heldur að veita lántakendum ákveðna neytendavernd sem felst m.a. í aukinni upplýsingagjöf. Með setningu laga um neytendalán á árinu 2013 var ekki hvað síst verið að bregðast við og vernda ungt fólk fyrir smálánafyrirtækjum en uppgangur slíkra fyrirtækja hefur verið mikill hér á landi frá árinu 2010 sem og annars staðar í Evrópu og hefur sú þróun verið áhyggjuefni. Önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu bjóða lán til einstaklinga og fyrirtækja vegna sölu byggingarréttar og hafa ekki í hyggju að breyta því. Kjörin eru þau sömu og borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til að í boði verði hér í Reykjavík. Stærsta sveitarfélag landsins hefur hafnað því að veita lánafyrirgreiðslu með sama hætti og minni sveitarfélög gera og sem einkafyrirtæki á neytendamarkaði bjóða almenningi. Hagkvæmara er fyrir ungt fólk að búa í eigin húsnæði heldur en leigja. Áherslur Reykjavíkurborgar eiga að vera að liðka fyrir og auðvelda ungu fólki að festa kaup á fasteign. Með því að bjóða fyrirtækjum áframhaldandi lánafyrirgreiðslu vegna sölu byggingarréttar en afnema þá þjónustu til einstaklinga er verið að draga úr möguleikum einstaklinga og fjölskyldum þeirra til að eignast eigið húsnæði.

 

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: