- Advertisement -

Orkuauðlindir Íslands – verkefni íslenskra stjórnmála

Við höfum hlustað. Við höfum kallað til sérfræðinga. Hlustað á álit. Við höfum komist að niðurstöðu.

Sigurður Ingi Jóhannsson skrifar:

Þriðji orkupakkinn kom síðastliðið haust inn í umræðuna af fullum krafti. Þá tók ríkisstjórn og Alþingi hann til athugunar. Á haustmánuðum var ályktað á miðstjórnarfundi Framsóknar: „Orkuauðlindin er ein af mikilvægustu forsendum velmegunar í landinu. Miðstjórn Framsóknarflokksins áréttar mikilvægi þess að allar ákvarðanir í orkumálum verði í höndum Íslendinga og minnir á að stjórnarskrá Íslands leyfir ekki framsal ríkisvalds til erlendra stofnana. Aðstæður Íslands í orkumálum eru gjörólíkar þeim sem liggja til grundvallar orkulöggjöf ESB og því er óskynsamlegt að innleiða það regluverk hér. Auk þess hefur Ísland enga tengingu við orkumarkað ESB og Framsóknarflokkurinn telur slíka tengingu ekki þjóna hagsmunum landsmanna. Því skal fá undanþágu frá innleiðingu þriðja orkupakkans.“

Eftirlit Orkustofnunar
Síðan þá hefur málið verið til stöðugrar umræðu. Utanríkisráðherra fundaði með framkvæmdastjóra orkumála hjá ESB og rituðu þau sameiginlega yfirlýsingu um að orkukerfi Íslands væri án tengingar og undirstrikað að það félli ekki undir ACER (Orkustofnun ESB) heldur væri um tveggja stoða kerfi þar sem Orkustofnun færi með eftirlit og dómsmál færu til EFTA-dómstólsins, ekki ACER.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Við ráðum þessu einfaldlega sjálf
Í grein minni sem birtist á Kjarnanum um páska lagði ég áherslu á að málið væri til meðferðar hjá þinginu og brýndi þingmenn til að skoða málið vandlega og hlusta á þær áhyggjur sem almenningur hefði. Eftir grandskoðun þingsins hefur verið búið þannig um hnúta að við erum ekki að framselja vald yfir íslenskum orkuauðlindum til yfirþjóðlegra stofnana. Við ráðum þessu einfaldlega sjálf, Íslendingar.

Það sem hefur verið kallað eftir af þjóðinni er að íslenskir stjórnmálamenn standi vörð um íslenskar orkuauðlindir.

Stöndum vörð um íslenska hagsmuni
Það sem hefur verið kallað eftir af þjóðinni er að íslenskir stjórnmálamenn standi vörð um íslenskar orkuauðlindir og það fyrirkomulag sem hefur ríkt hér sem felst einna helst í því að orkufyrirtækin eru að langstærstum hluta í samfélagslegri eigu. Það hefur einnig verið mjög skýrt ákall um að erlendir aðilar geti ekki gert stórinnkaup á íslensku landi. Það er því ljóst að þær áhyggjur sem margir hafa snúa að íslenskri pólitík. EES-samningurinn og ESB koma þar hvergi nærri. Við höfum hlustað á áhyggjuraddir og því hefur verið stigið lengra í því að vernda íslenska hagsmuni.

Hvernig aukum við traustið?
Málið snýst því, eins og ég ritaði í grein minni um páska, um traust á stjórnmálamönnum og stjórnsýslu. Og hvernig aukum við traust í íslensku samfélagi? Jú, við aukum það með því að hlusta á rök annarra, hlusta á almenning, greina áhyggjurnar, leita lausna og ræða málin til hlítar og taka ákvarðanir samkvæmt bestu fáanlegum upplýsingum og með hagsmuni þjóðarinnar, allrar, að leiðarljósi.

Ábyrgð eða ábyrgðarleysi?
Framsókn stendur vörð um hagsmuni Íslendinga. Það höfum við áður gert í stórum málum og er þar skemmst að minnast baráttu flokksins gegn því að íslensku almenningur tæki á sig skuldir einkabankanna með Icesave. Við stöndum vörð um hagsmuni heildarinnar. Ef það er ástæða til að setja EES-samninginn í uppnám þá munu ábyrg stjórnvöld gera það. En þá aðeins að ástæða sé til. Aldrei eiga stjórnvöld að sýna af sér svo ábyrgðarlausa hegðun að fórna mikilvægasta milliríkjasamningi Íslendinga nema að ástæðan sé svo rík að slíkt verði ekki umflúið.

Enginn getur án samþykkis Alþingis og þess vegna íslensku þjóðarinnar lagt raforkusæstreng.

Við gefum ekki eftir fullveldi okkar
Enginn getur án samþykkis Alþingis og þess vegna íslensku þjóðarinnar lagt raforkusæstreng. Við gefum ekki eftir fullveldi okkar. Með fyrirvörum Alþingis, sem vísa bæði í yfirlýsingar utanríkisráðherra og orkumálastjóra ESB annarsvegar og hinsvegar yfirlýsingar sameiginlegu EES-nefndarinnar höfum við bæði pólitískar, þjóðréttarlegar og lagalegar yfirlýsingar, máli okkar til stuðnings.

Framsókn stendur vörð um eign þjóðarinnar
Við þurfum hinsvegar að nýta okkur áhuga og áhyggjur margra til að setja pólitíska umræðu í gang um lög og reglur á Íslandi. Í því skyni mun Framsókn standa vörð um eign þjóðarinnar í Landsvirkjun. Hún verður ekki bútuð upp og seld – ekki með okkar samþykki. Við munum berjast fyrir því að á Íslandi sitji allir við sama borð þegar kemur að kostnaði við dreifingu raforku úr okkar sameiginlegu auðlindum sem eru í eigu þjóðarinnar. Við viljum styrkja þennan sameiginlega grunn og eignarhald t.a.m sjáum við fyrir okkur að sameina Landsnet og RARIK. Allt eru þetta málefni sem íslensk stjórnmál og íslenska þjóðin ræður hvernig farið verður með. Enginn annar.

Nærum ekki óttann
Það er hættuleg braut að ætla að gera EES-samninginn að óvini. Það er hættuleg braut að næra umræðuna með tortryggni og ótta. Og ótta við hvað? Jú, við það samstarf sem við höfum átt við nágrannaþjóðir okkar í Evrópu. Ég er ekki með þessu að mæla ESB bót. Það er félagsskapur sem Ísland á að standa utan við. EES-samningurinn hefur hins vegar fært okkur Íslendingum mikil lífsgæði. Viðskiptahagsmunir okkar eru augljósir en samningurinn hefur ekki síður áhrif á unga Íslendinga sem geta stundað nám í háskólum um alla Evrópu þaðan sem þeir snúa heim með þekkingu og reynslu sem er íslensku samfélagi nauðsynleg og verður mikilvægari með hverju árinu sem líður.

Og þá erum við að tala um framtíð Íslands – hvernig hún verður best tryggð fyrir komandi kynslóðir.

Lífsgæði framtíðarkynslóða
Ísland er í mikilli og harðnandi samkeppni um ungt fólk og krafta þess. Ég fullyrði það að án EES-samstarfsins væri erfiðara að byggja upp þau lífsgæði á Íslandi sem ráða í framtíðinni því hvar ungt og metnaðarfullt fólk velur sér að vinna og búa með fjölskyldum sínum. 
Við horfum fram á breytta tíma þar sem atvinna tekur stökkbreytingum, þar sem menntun og nýsköpun mun skipta gríðarmiklu máli. Við þurfum að skapa verðmætari störf sem ganga ekki á auðlindir náttúrunnar heldur nýta þær á sjálfbæran hátt er framtíð Íslands. Og þá erum við að tala um framtíð Íslands – hvernig hún verður best tryggð fyrir komandi kynslóðir.

Stjórnmál skynseminnar
Það er mikilvægt þegar kemur að auðlindum Íslands að tryggja full yfirráð þjóðarinnar yfir þeim. Það er mikilvægt að við hugsum um hagsmuni heildarinnar – í bráð og lengd. Það er einnig mikilvægt að við tökum ákvarðanir um hagsmuni þjóðarinnar á réttum forsendum. Að við göngum ekki inn í stjórnmál reiðinnar, stjórnmál óttans, og gerum þau að okkar lögheimili og varnarþingi.

Við höfum hlustað. Við höfum kallað til sérfræðinga. Hlustað á álit. Við höfum komist að niðurstöðu. Hagsmunir Íslands eru tryggðir með fyrirvörum og aðgerðum sem eru skrifaðar eftir ráðgjöf helstu sérfræðinga og taka tillit til þeirra áhyggjuradda sem hafa verið uppi í samfélaginu.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: