- Advertisement -

„Þórhildur Sunna segir sannleikann“

…er náð í sápuna og óþekka konan látin bíta í hana.

Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar:

Þórhildur Sunna segir sannleikann, það sem öll með heila hugsa, bendir rökföst á yfirgengilega spillingu, ekki til að „bæta ímynd“ (að „bæta ímynd“ er verkefni þeirra sem vita að innihaldið er rotið og þess vegna þarf að gæta þess að yfirborðið sé slétt og fellt) eða til að slá sig til riddara heldur vegna þess að hún er með siðferðiskennd og vegna þess að að ef þú sækist eftir áhrifum og ert með siðferðiskennd þá ber þér einfaldlega skylda til að segja sannleikann. Fyrir þetta skal henni nú refsað, fyrir að geta ekki þagað þegar hún verður vitni að skammarlegu og siðlausu framferði.

Refsigleði valdastéttarinnar gagnvart þeim sem dirfast að segja satt er aumkunarverð; þegar ekki er lengur hægt að treysta því að samtryggingin virki, þegar ekki er lengur hægt að treysta því að fégræðgin ráði för hjá fólki þegar kemur að möguleikum á því að komast í peninga er náð í sápuna og óþekka konan látin bíta í hana, henni til refsingar og öðrum til aðvörunar. 

Þú gætir haft áhuga á þessum

Einu sinni fyrir löngu, þegar ég var ásamt öðrum neydd til að leika í langdregnu og aumkunarverðu leikriti skrifuðu af refsingadeild borgarastéttarinnar (refsingadeildin er leiðinlegasta deild borgarastéttarinnar, þar fá bara þau að vinna sem hafa sannað að frá þeim mun aldrei koma neitt gaman eða gleðilegt) las ég mér til skemmtunar og yndisauka The Coming Insurrection eftir Ósýnilegu nefndina. Eftir að hafa lesið textann varð ég forvitin um þau sem skrifuðu hann enda er hann skemmtilegur og gleði-vekjandi. Ég fann viðtal við einn af meðlimum Ósýnilegu nefndarinnar, tekið þar sem hann sat í fangelsi fyrir að hafa ekki viljað sætta sig við að vera undirgefinn þegn í ríki fáráðlinga. Ég gleymi aldrei svarinu hans þegar hann var spurður um ásakanir valdhafa um að hann væri hættulegur glæpamaður: Such a pathetic allegation can only be the work of a regime that is on the point of tipping over into nothingness.

Ég hugsaði um þetta dásamlega svar í morgun þegar ég las fréttina um að Þórhildur Sunna hefði brotið siðareglur með því að segja satt. Ég styðst við innsýnina sem franski „glæpamaðurinn“ veitti mér og segi: Svona aumkunarverð niðurstaða getur aðeins verið til marks um siðleysi þeirra sem að henni komast.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: