- Advertisement -

„Ég fordæmi þessa hegðun og þessa forgangsröðun íslenskra stjórnvalda“

Hundruð milljóna er stolið á hverju ári af vinnandi fólki og ef það kemst upp gerist ekkert nema að atvinnurekandinn sem stal skilar þýfinu og er þá laus allra mála.

Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar:

Þetta er ömurlegt. Hér er verið að eltast við og hrella jaðarsettasta hóp samfélagsins, það fólk sem á bókstaflega í engin hús að vernda. Þetta er fólkið sem þarf oft að þola ofbeldi og þjófnað á launum og treystir sér ekki að leita til stéttarfélaga eða lögreglu þegar slíkt gerist, vegna þess að það veit að það á ekki von á góðu.

Það er sam-mannlegasta upplifun sem hægt er að hugsa sér að gera það sem þarf til að komast af. Og þó að við höfum ekki persónulega verið í þeirri stöðu að vera á flótta eða vera að leita að samfélagi þar sem við getum fundið skjól og vinnu hljótum við að vera nógu þroskuð og með nægilega mikla samhygð til að skilja af hverju fólk grípur til ýmissa ráða til að hafa í sig og á. Staðreyndin er sú að ef fólk hefur um það að velja að vinna ólöglega undirboðsvinnu eða komast ekki af, þá mun það velja ólöglegu vinnuna. Það er óheiðarleiki að viðurkenna það ekki og láta eins og við sjálf myndum ekki gerast „sek“ um nákvæmlega það sama. Við eigum að sjá sóma okkar í því að glæpavæða ekki neyð annars fólks. Við eigum að sjá sóma okkar í því að gefa því fólki sem hingað er komið sömu möguleika á því að fá vinnu og aðrir hafa. Staðreyndin er sú að ef að við gerum það ekki leiðir það til áframhaldandi undirboða og áframhaldandi brota. Það grefur undan aðstæðum á vinnumarkaði, gerir þær verri og leyfir fólki með skerta siðferðiskennd að komast upp að notfæra sér neyð annara til að verða sér út um vinnuafl á afslætti sem kvartar ekki yfir illri meðferð.

Þegar kemur að því að elta, hrella og hræða varnarlaust og allslaust fólk; þá er ekki eftir neinu að bíða.

Ég ætla líka að segja þetta: Á meðan yfirvöld setja fjármuni og mannafla í að eltast við það fólk á Íslandi sem á sér hvergi skjól eða málsvara hafa Samtök atvinnulífsins staðið af algjörri og forhertri þvermóðsku gegn því að hægt væri að innleiða sektarákvæði vegna kjarasamningsbrota og stjórnvöld hafa leyft þeim að komast upp með það. Refsingar fyrir launaþjófnað var eitt af þeim málum sem Efling lagði gríðarlega mikla áherslu á í kjarasamningsviðræðunum 2018-19 og stjórnvöld settu loks í „pakkann“ sinn margumrædda. „Heimildir til refsinga verði auknar, í samráði við aðila vinnumarkaðarins, ef atvinnurekandi brýtur gegn lágmarkskjörum launamanns.“ Hundruð milljóna er stolið á hverju ári af vinnandi fólki og ef það kemst upp gerist ekkert nema að atvinnurekandinn sem stal skilar þýfinu og er þá laus allra mála. Þetta er ástandið sem SA vill vernda. Og staðreyndin er sú að stjórnvöld hafa ekkert gert til að axla ábyrgð á því að uppræta þessa raunverulegu glæpastarfsemi og einfaldlega sjá að það er hlutverk þeirra og skylda að „auka heimildir til refsinga“, þrátt fyrir fögur fyrirheit. Þarna er samt um að ræða kerfisbundið og grafalvarlegt vandamál! En þegar kemur að því að elta, hrella og hræða varnarlaust og allslaust fólk; þá er ekki eftir neinu að bíða.

Þetta er til skammar. Ég fordæmi þessa hegðun og þessa forgangsröðun íslenskra stjórnvalda.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: