- Advertisement -

Þingmenn segjast verkefnalausir

Stjórnmál Þingmenn ræddu störf þingsins, dagspart í síðustu viku,, og það sem kom fram í máli þeirra allra var að þeir 54 þingmenn sem ekki eru ráðherrar, sitja nánast verkefnalausir alla daga og lýsingar þeirra sjálfra á verklaginu á Alþingi er einstakt, ekki einstakt fyrir Alþingi, mikið frekar fyrir það sem tíðkast á öðrum vinnustöðum. Það er erfitt að sjá þetta háttarlag viðgangast á öðrum vinnustöðum.

Það var Brynhildur Pétursdóttir sem hóf umræðuna og hún sagði meðal annars: „Mig langar til að gagnrýna skort á þingmálum frá ráðherrum. Fyrir vikið hafa margar nefndir lítið að gera og það setur þingstörfin í uppnám.“ Það var og.

Árni Páll Árnason var næstur í ræðustól og sagðist taka undir með Brynhldi, og sagði svo: „Það vekur furðu verkleysi ríkisstjórnarinnar sem birtist í skorti á þingmálum.“

Þá kom Heiða Kristín Helgadóttir í ræðustól og sagði fyrst, rétt einsog Árni Páll, að hún tæki undir með Brynhildi og sagði svo: „Ég segi bara: Hér er fullt af fólki sem er tilbúið að vinna og það er miður að málin komi svo inn í þingið eftir tvær til þrjár vikur og þá séu þau afgreidd á einhverju hundavaði.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Næst var komið að Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur og hún einsog þeir þingmenn  sem á undan komu tók undir það sem hafði verið sagt, og bætti við: „Í velferðarnefnd hafa, í þá tvo mánuði sem þing hefur verið að störfum, komið inn tvö þingmál frá ríkisstjórninni og þau eru rétt nýkomin til nefndarinnar. Við bíðum fjölda mála í húsnæðismálum sem nefndin þyrfti að komast í að vinna. Það er háalvarlegt ástand á húsnæðismarkaði. Þessi frumvörp hafa verið boðuð. Það eru tvö og hálft ár liðin af kjörtímabilinu og það er ekkert komið inn í nefndina.“

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir sagði meðal annars: „Ég verð að taka undir með þeim sem hér hafa talað því að þrátt fyrir að ein eða tvær nefndir hafi haft eitthvað að gera þá dugar það ekki til þegar stór hluti þingmannahópsins situr hér og bíður eftir málum sem ríkisstjórnin vill fá afgreidd fyrir jól.“

Svandís Svavarsdóttir kom í ræðustól og sagði: „Nú eru búnir tveir mánuðir af þessu þingi og staðan er enn þannig að eftir því sem mér sýnist eru þrír ráðherrar sem enn hafa ekki skilað einu einasta þingmáli til þingsins.“

Birgitta Jónsdóttir sagði: „Það væri mjög ánægjulegt ef þingmenn meiri hlutans mundu beita ríkisstjórn sína meiri þrýstingi. Ég legg til að við förum hreinlega í verkfall í nefndunum þar til við fáum mál hingað inn af því að við þekkjum alveg hvernig þetta er.“

Vigdís Hauksdóttir kom næst í ræðustól og sagðist hafa verið á móti að þingið kæmi svo snemma saman að hausti: „Ég hef til dæmis aldrei skilið af hverju fallið var frá því að fyrsti þingdagur væri 1. október ár hvert. Ég bara skil það ekki, sem birtist svo í því að það eru ekki næg verkefni fyrir þingið,“ sagði hún og bætti við: „Eins vil ég minna á það, virðulegi forseti, að hér þýðir ekki fyrir þingmenn og koma upp og skammast út í það að ekki séu komin mál frá ráðherrunum. Hér liggja í bunkum óteljandi þingmannamál bæði frá stjórn og stjórnarandstöðu, en þau komast ekki á dagskrá þingsins þrátt fyrir það að það sé málefnaþurrð því þá er búið að taka upp eitthvert kvótakerfi í forsætisnefnd sem leiðir af sér að þingmenn koma ekki sínum málum á dagskrá.“

Vigdís var ekki eini stjórnarsinninn sem tók til máls. Unnur Brá Konráðsdóttir kom í ræðustól og sagði: „Nú stýri ég allsherjar- og menntamálanefnd sem er sú nefnd sem var að minnsta kosti á síðasta þingvetri undir gríðarlegu vinnuálagi. Í þingmálaskrám ráðherra var boðað að 50 stjórnarfrumvörp ættu að koma inn í nefndina og nú þegar nóvember er að verða hálfnaður er eitt stjórnarfrumvarp búið að koma inn og við í nefndinni erum að sjálfsögðu búin að afgreiða það. Við erum jafnframt búin að afgreiða eitt þingmannamál.“ Það er ekkert annað, bara eitt stjórnarfrumvarp af fimmtæiu komið til nefndarinnar. Unnur Brá sagði að lokum: „En ég tek undir þá hvatningu til ráðherra að fara að koma fleiri málum hérna inn svo að við í þinginu getum tekið það hlutverk okkar alvarlega að vinna að málum vel,“ og svo fór að einn ráðherranna, Eygló Harðardóttir kom í ræðustól og sagði: „Ég vildi aðeins fá að segja það sjálf, að ég hef tekið þessa hvatningu til mín og mun halda áfram að reyna að vinna í því að koma málunum sem fyrst hingað inn.“

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: