
Vilhjálmur Birgisson skrifaði:
…að á Alþingi muni sitja „þingmenn“ sem ekki hafa verið kjörnir af þjóðinni og það er gjörsamlega galið að löggjafavaldið sem setur almenningi lög…
Ég hlustaði á Jón Steinar Gunnlaugsson fyrrverandi Hæstaréttadómara í þættum Ísland í bítið og eftir þá hlustun er ég algerlega sannfærður um að það eigi að telja þau utankjörfundaratkvæði sem skilað var eins og kosningalög kveða á um.
Ekki var annað að skilja á Jóni Steinari að skýrt væri í kosningalögum að heimilt sé að skila utankjörfundaratkvæðum til sveitarfélaga, mikilvægt að skýra hvers vegna slík atkvæði væru ekki talin með, ef þau hafa verið löglega afhent á réttum stað og innan tímamarka. Nú hefur ekkert komið fram sem staðfestir að kjósendur sem í góðri trú skiluðu sínum atkvæðum eins og lög kveða á um hafi verið í andstöðu við kosningalög.
Lykilatriði í þessu samhengi:
- 1. Skýr framkvæmd kosningalaga: Lögin virðast veita kjósendum rétt til að afhenda atkvæði til sveitarfélaga. Ef sveitarfélögin hafa tekið við þessum atkvæðum, ætti ábyrgðin að liggja hjá kerfinu, ekki kjósendum. Það að útiloka slík atkvæði er mótsagnakennt og gæti talist rangtúlkun á lögunum.
- 2. Grundvallarreglan um viljann: Markmið kosningalaga er að tryggja að vilji kjósenda komist til skila. Ef kjósandi hefur fylgt settum reglum og afhent sitt atkvæði samkvæmt leiðbeiningum, ætti það að teljast gilt, nema um augljósan brotavilja eða villu sé að ræða.
- 3. Gildi réttaröryggis: Ef sveitarfélög tóku við atkvæðum án þess að þau skiluðu sér áfram, er það kerfisvilla. Kjósendur sem treysta á lögbundnar reglur eiga ekki að bera ábyrgð á því.
Hvers vegna ætti að telja atkvæðin?
Ef atkvæðin uppfylla lagaskilyrði um afhendingu, og mistök í flutningi þeirra eru utan áhrifa kjósenda, ætti að telja þau. Að gera það ekki væri brot á lýðræðislegum réttindum og gæti skapað vantraust í lýðræðislegu ferli. Það er hlutverk yfirvalda að tryggja að ferlið sé rétt og að ekkert lögmætt atkvæði verði útundan.
Það er afar undarlegt ef atkvæðin verða ekki talin með því það getur orsakað það að á Alþingi muni sitja „þingmenn“ sem ekki hafa verið kjörnir af þjóðinni og það er gjörsamlega galið að löggjafavaldið sem setur almenningi lög sé ekki hafið yfir allan vafa um að vera rétt kjörið skv. vilja kjósenda.
Munum að það má vel vera að talning þessara umræddu atkvæða hafi ekki neinn áhrif á niðurstöðu kosninga en mikilvægast er að markmið kosningalaga er að tryggja að vilji kjósenda komist til skila og það verður alls ekki gert ef þessi utankjörfundaratkvæði verða ekki talin með. Enda bendir allt til þess að þeir kjósendur sem „eiga“ þessi atkvæði hafi skilað þeim eins og kosningalög kveða á um!