- Advertisement -

Að eiga sinn eigin stjórnmálaflokk – endurbirt

Frá Sauðárkróki: Rússar hættu að kaupa fisk, líka skagfirskan, en það sem verra var. Rússar hættu líka að kaupa afurðir af skagfirsku sauðfé.

Umræðan Stjórnmálamaðurinn Gunnar Bragi Sveinsson naut lengi baklands í Kaupfélagi Skagfirðinga, og ekki síst stuðnings Þórólfs Gíslasonar kaupfélagsstjóra. Allt virtist ganga samkvæmt því sem lagt var upp með.

Síðan varð Gunnar Bragi utanríkisráðherra. Í fyrstu var hann hæddur í embætti en hann snéri þeirri stöðu við. Framganga hans vegna Úkraínudeilunnar breytti þeirri mynd sem margir höfðu af honum. Bæði til góðs og ills, fyrir hann.

Þegar Gunnar Bragi sá til þess að Ísland var meðal þeirra þjóð sem beittu Rússa viðskiptaþvingunum fauk í flest skjól norðanlands. Kannski ekki vegna afstöðu Gunnars Braga einnar og sér. Miklu frekar vegna hagsmuna Kaupfélagsins.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Rússar hættu að kaupa fisk, líka skagfirskan, en það sem verra var. Rússar hættu líka að kaupa afurðir af skagfirsku sauðfé. Með framgöngu sinni hafði utanríkisráðherrann Gunnar Bragi skaðað, að mati kaupfélagsstjórans, hagsmuni og afkomu hins heilaga Kaupfélags. Slíkt gera menn ekki nema þola refsiaðgerðir fyrir.

Kaupfélagið fann sér annan frambjóðanda. Sá mun ekki leika af sér, ekki skaða hagsmuni Kaupfélagsins. Sá heitir Ásmundur Einar Daðason sem í fyrstu tilraun, sem fulltrúi þeirra fyrir norðan, varð ráðherra. Planið virkar.

Eftir að Gunnar Bragi sá að búið var að loka á hann og að hann ætti litla sem enga möguleika til að halda sæti sínu fór hann suður sem fylgdarmaður formannsins fyrrverandi, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.

Sá var formaður Framsóknarflokksins í áraraðir og þekkir innviði hans og uppbyggingu betur en flestir aðrir. Hann er viss og sannfærður um hver á Framsóknarflokkinn í raun og veru. Það er Kaupfélag Skagfirðinga. Nýjasta ríkisstjórnin er búin að redda sauðfjárbændum og afurðastöðvum, þar á meðal Kaupfélaginu. Kannski bara fyrir horn, en framtíðarredding er eflaust í planinu. Hinu skagfirska plani.

Sama er að segja um sjávarútveginn. Veiðigjöldin verða lækkuð og Kaupfélagið verður sátt. Það er virðist ekki ónýtt að eiga sinn eigin stjórnmálaflokk.

-sme

Var birt áður 8. janúar 2018.

 

 


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: