- Advertisement -

Hörmulegar afleiðingar ójafnaðar og fátæktar

Árni Gunnarsson fyrrrverandi fréttamaður og alþingismaður.

Umræðan Nýlega voru í Bretlandi birtar niðursstöður einhverrar viðamestu könnunar, sem gerð hefur verið á menntun og stöðu barna, og árangri þeirra í lífinu. Könnunin hefur staðið í 70 ár og náð til tugaþúsund barna og foreldra þeirra. Tilgangurinn var að skilgreina hvers vegna sumum vegnar vel; eru hamingjusamir og heilbrigðir á meðan aðrir eiga í erfiðleikum og stríða við mótlæti.
– Niðurstaðan er afgerandi og kemur varla á óvart. Börnum frá fátækum og efnalitlum heimilum vegnar mun lakar (á því eru þó undantekningar) en þeim, sem koma frá efnameiri heimilum. Fyrir þá fátækari verður þetta vítahringur og færist á milli kynslóða. – Það verður þá væntanlega ekki véfengt að ójöfnuður og fátækt er alvarlegt þjóðfélagsmein, sem verður að reyna að uppræta. – Um áratugaskeið hafa jafnaðarmenn bent á þessa staðreynd og reynt að berjast gegn fátæktaróværunni. – Það kemur einnig skýrt fram í þessari könnun, að ekkert er eins mikilvægt og menntun; menntun barna, framhaldsmenntun og stöðug endurmenntun. Þá eru áhrif foreldra á þroska og framtíð barna sinna mjög mikil. Sá tími, sem þeir gefa börnum sínum, samræður, reglubundinn svefntími, lestur fyrir börnin og að ýta að þeim góðum bókum, er talið geta haft úrslitaáhrif á framtíð þeirra. Þetta reynist hins vegar erfitt hjá foreldrum, sem báðir þurfa að vinna úti til að eiga í sig og á.
– Í erindisbréfi handa jafnaðarmönnum á nýrri öld segir Jón Baldvin Hannibalsson, að sjúkt fjármálakerfi sé undirrót ójafnaðar. Auðsöfnun í höndum fárra fylgi gríðarlegt pólitískt vald. Þetta forréttindavald hinna fáu sé þegar orðið ógnun við lýðræðið. Hinir ofurríku öðlist vald til að breyta helstu leikreglum samfélagsins sér í hag. Lýðræðið verði þá fórnarlamb auðræðis. – Hið fjársjúka og stjórnlausa fjármálakerfi, sem þanist hafi út á tímabili nýfrjálshyggjunnar, hafi leitt af sér sívaxandi ójöfnuð auðs og tekna. Þessi ójöfnuður sé nú orðinn meiri en hann var, áður en áhrifa velferðarríkis jafnaðarmanna fór að gæta eftir seinna stríð. – Eitt prósent hinna ofurríku eigi nú meiri auð en 99% mannkyns.
– Hér á landi hefur þessi þróun náð að festa rætur og þar með haft áhrif til aukinnar fátæktar. Það er verkefni jafnaðarmanna að takast á við þessi illu áhrif auðsöfnunar fárra, sem er almennt á annarra kostnað. Einnig að tryggja góða menntun á öllum stigum skólakerfisins og gefa þar engan afslátt. Velferðarríki jafnaðarmanna verður að vera skýr valkostur.

Árni Gunnarsson.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: