- Advertisement -

Verður Bjarni og hitt ríka og fína fólkið ákært?

En hver er þá málsvörn ráðherrans og hins ríka og fína fólksins?

Jón Magnússon skrifaði:

Fyrir nokkru hafði lögreglan afskipti af mótmælafundi fólks, sem taldi sóttvarnaryfirvöld og ríkisstjórn ganga of langt. Sagt var, að ákæra yrði þá sem að þessu höfðu staðið þ.á.m. lækni, sem nýverið var svipt starfi sínu vegna skoðana sinna.

Á Þorláksmessu hafði lögreglan afskipti af partíi ríka fína fólksins í Ásmundarsal í Reykjavík. Ráðherra sem hafði sett reglur sem bannaði slíkt samkomuhald, tók þátt í partíinu, sennilega á forsendunni sem orðuð var í rómverska orðtakin: Quod licet Jovi non licet bovi (í frjálslegri þýðingu: Það sem guðunum leyfist leyfist ekki skóflupakkinu)

Laust eftir miðnætti á jólanótt hafði lögreglan síðan afskipti af messu í Landakotskirkju, en þeir í kaþólska söfnuðinum eru ekki eins værukærir og Lútherskir kollegar þeirra.

Hvað gerir nú ákæruvaldið? Verða mótmælendurnir, sem draga í efa gildi sóttvarnarreglnanna ákærðir?  Verður ráðherrann og hitt ríka fína fólkið ákært? Verða kirkjugestir og forstöðumenn kaþólskra safnaðarins ákært?

Málsvörn mótmælendanna er til staðar, þeir fylgdu sannfæringu sinni. Málsvörn kaþólsku kirkjunnar er líka til staðar, trúfrelsisákvæði stjórnarskrár og mörk þess og allsherjarreglu.

En hver er þá málsvörn ráðherrans og hins ríka og fína fólksins? Þau voru vísvitandi að brjóta reglur og hætt er við að málsvörn aðila sem stendur að því að setja reglur og brjóti þær svo, verði harla haldlítil. Svo er spurningin sem þjóðin þarf að svara hvort það skipti yfirhöfuð einhverju máli.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: