- Advertisement -

Afmælisgjöfin

Kristján Guy Burgess, fyrrum aðstoðarmaður Össurar Skarphéðinssonar í utanríkisráðuneytinu og eiginmaður Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur þingmanns Vinstri grænna, skrifaði í gær:

Þetta er hann Muhammed bekkjarbróðir Snæfríðar okkar í 1. bekk Vesturbæjarskóla og hann á sjö ára afmæli í dag. Til hamingju með það elsku vinur. Það ætti að vera besti dagur í heimi en ekki hjá honum og fjölskyldu hans því það á að vísa þeim úr landi á mánudaginn.

Hér hafa þau verið í meira en tvö ár og á þeim tíma hefur hann eignast ótrúlega marga vini og brætt hjörtu allra sem hann hefur kynnst. Enda er hann alveg sérstakur strákur. Hann er sá sem hin börnin tala mest um. Hann er bestur í reikningi, reiknar dæmi fyrir 12 ára börn. Hann talar betri íslensku en flestir hinir krakkarnir og hann man alla afmælisdaga krakkanna og starfsfólksins, en svo er hann bara alveg einstaklega ljúfur strákur.

Strákur sem allir vilja hafa nálægt sér. En ekki Ísland. Hann er ekki nógu góður fyrir okkur, passar ekki inn í excelskjalið um hverjir séu velkomnir að búa hér. Þá skulum við senda hann alla leið til Pakistan, þangað sem hann hefur aldrei komið og foreldrar hans ekki frá því þau flúðu þaðan fyrir 10 árum þegar móðurinni sem þá var 18 ára, var ætlað að giftast eldri manni sem hún vildi ekki.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Stjórnvöld hafa ekki viljað horfa á málið útfrá hagsmunum barnsins en samt hefur áður verið gripið inn í mál þegar börn hafa verið lengi hér á landi. Þegar Rauði krossinn og Unicef tala, eigum við að hlusta, sagði núverandi forsætisráðherra þegar hún mælti fyrir máli sínu og sex annarra flokksformanna á alþingi um að veita þeim dvalarleyfi af mannúðarástæðum sem höfðu verið lengur en 15 mánuði að bíða eftir svari. En þetta var fyrir tveimur árum rúmum og lögin sem voru samþykkt féllu úr gildi og ekkert tók við. Mohammed og fjölskylda hafa verið hér í 26 mánuði. Á þetta hefur lögfræðingur Rauða krossins bent í endurupptökubeiðni ásamt því að benda á álit Umboðsmanns alþingis um tímann sem stjórnvöld hafa til að vinna í slíkum málum, sem á að taka til alls ferlisins frá upphafi til enda.

Vesturbæjarskóli er Réttindaskóli UNICEF og fulltrúar foreldra og starfsfólks í Réttindaráði skólans skora á stjórnvöld að virða barnasáttmálann. Þau telja það ekki samræmast markmiðum sáttmálans að rífa barn upp með rótum úr umhverfi sem það aðlagast vel í meira en tvö ár af stuttri ævi, kynnst menningu, eignast vini og lært tungumálið, og senda það út í óvissuna án þess að tryggja öryggi þess í nýju landi.

Við hvetjum stjórnvöld til að setja það sem barninu er fyrir bestu í forgang og hætta við brottvísun fjölskyldunnar.

Endurupptökubeiðni hefur verið send inn en hingað til hafa stjórnvöld ekki fengist til að fresta brottför meðan hún verði tekin til umfjöllunar.

Besta afmælisgjöfin sem þessi flotti sjö ára strákur gæti fengið, væri að fjölskyldan fengi að vera hér áfram. Ég hvet ykkur til að skrifa undir til að reyna að hjálpa því að gerast og gefa dýrmætari gjöf en þið getið ímyndað ykkur.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: