- Advertisement -

Vinur minn Davíð

Þetta er sjúklegt viðhorf gagnvart venjulegu fólki sem fékk nóg af áralangri rótfastri spillingu fjórflokksins sem raungerðist svo í allsherjar hruni.

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins 2. maí fer ritstjórinn hamförum vegna orða minna um mögulegar afleiðingar verði fólkið og heimilin skilin eftir í aðgerðarpökkum ríkisstjórnarinnar.

Ég minnti ráðamenn þjóðarinnar á að Búsáhaldabyltingin hafi einmitt verið afleiðing þess en munurinn nú er að verkalýðshreyfingin er ekki lengur á hliðarlínunni eins og hún var þá.

Þetta virðist hafa farið þveröfugt ofan í ritstjórann sem kallar fólkið, „eitthvað lið, skríl, sora og brúðuleikara (Sem kemur reyndar úr hörðustu átt)“ .

Þú gætir haft áhuga á þessum

Fjórflokknum tókst svo að fela hana rækilega í stórum stafla svikinna loforða.

Þetta er sjúklegt viðhorf gagnvart venjulegu fólki sem fékk nóg af áralangri rótfastri spillingu fjórflokksins sem raungerðist svo í allsherjar hruni.

Fólkinu misbauð hvernig björgunarpakkar urðu í einu og öllu eftir hagsmunum auðvaldsins á meðan fólkinu og heimilunum var blætt út með skelfilegum afleiðingum.

Ástandið varð svo slæmt að ráðamenn þjóðarinnar boðuðu til þjóðfundar og ný stjórnarskrá var skrifuð sem samþykkt var með miklum meirihluta í þjóðaratkvæðagreiðslu. 
Fjórflokknum tókst svo að fela hana rækilega í stórum stafla svikinna loforða.

Hvorki verkalýðshreyfingin né pólitísk öfl gátu sameinað fólkið á Austurvelli. Það var ekkert traust né trúverðugleiki staðar. Vantraustið var algjört enda varð siðrof. Þetta var sjálfsprottin nauðvörn sem sannarlega getur endurtekið sig ef ekki verður hlustað á varnarorð.

Ég get tekið undir með vini mínum Davíð að lítið hefur áorkast síðan þá því spillingin og dekrið við auðvaldið og önnur hagsmunaöfl hefur sjaldan verið meiri og sýnilegri.

Það er niðurlægjandi fyrir íslenska þjóð hversu sýnileg og afhjúpandi sú hagsmunagæsla er og hverjir það eru sem standa þar fremstir í flokki. Og hvernig sami hópur reynir að endurskrifa sögu hrunsins með svo ótrúlega ósvífnum hætti að manni fallast stundum hendur.

Þegar ég var ungur maður trúði ég því að Davíð stæði með fólkinu.

Þegar ég var ungur maður trúði ég því að Davíð stæði með fólkinu, væri sanngjarn gagnvart vinnandi stéttum og þeim sem minna mega sín.

Hvað breyttist veit ég ekki. Eða var það kannski ég sem breyttist?

Ég hef einu sinni hitt vin minn Davíð en þá flaug hann með þyrlu inn í Þórsmörk þar sem framhaldsskólanemar héldu til í sinni árlegu skemmtiferð. Þetta var fyrir um 30 árum síðan, líklega 1991.

Þar var hann að sækja sér stuðning hjá sama liði, skríl og sora sem honum er svo tíðrætt um. Þarna voru líka verðandi popúlistar og óharðnaðir lýðskrumarar, brúðuleikarar og annað hyski sem síðar veittu honum það fylgi sem þurfti til að stjórna landinu lengst allra stjórnmálamanna.

Það vill svo skemmtilega til að það var tekin mynd af okkur vinunum í þetta eina skipti sem við hittumst.

En ég finn til með vini mínum Davíð því ég finn til með fólki sem talar svona til þjóðarinnar og hefur svo grimmilegt viðhorf til fólksins sem er hin raunverulega stoð í þessu samfélagi.

Fólkið sem þú vonar að verði veirunni að bráð ef því detti sú fásinna í hug að koma saman á Austurvelli aftur.

Við vitum hvar hið raunverulega vald liggur og það er hjá okkur skrílnum og soranum.

Þjóðin hefur verið rænd fyrir opnum tjöldum nægilega lengi til að hvert mannsbarn sjái í gegnum hverja hagsmuni er verið að gæta með skrifum Reykjavíkurbréfsins, hagsmunaklíku sem væri ekki til án vinnandi handa eða sama skríls og þú nefnir.

Án fólksins væru engin fyrirtæki. 
Án fólksins væri engin auðstétt. 
Án fólksins væru engin ehf – s/f – h/f – ohf – svf – sfl – svs – ses eða Global groups, sem mannkynið hefur þó komist af án.

Án stuðnings fólksins væri enginn Sjálfstæðisflokkur.

Að lokum vil ég benda þér á að hvorki völd þín né gamalgróin ítök ná lengur yfir verkalýðshreyfinguna eða eftirlaunasjóðina okkar. 
Við erum að rísa upp.

Við vitum hvar hið raunverulega vald liggur og það er hjá okkur skrílnum og soranum. Það hlýtur að hræða menn sem eru að missa tökin. Tökin á því hvað má segja og hvað ekki og hverjir eru inni og hverjir eru úti.

Ég vona að þú sjáir ljósið í þessu öllu saman gamli vinur.

Kveðja 
Ragnar Þór Ingólfsson
Formaður VR.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: