- Advertisement -

ENGIR VARASJÓÐIR!

Nú er bara að vita hvað veiruskrattinn dregur mikið fé úr sjóðum og hve lengi það endist.

Árni Gunnarsson skrifar:

Frá því fór að harðna á dalnum hjá ferðaþjónustufyrirtækjum, hafa forráðamenn þeirra og forystumenn samtaka, lýst mjög erfiðri stöðu þessara fyrirtækja. Fjöldi þeirra kunni að velta á hliðina ef ekki kemur til ríkisstuðningur.

Nú er vitað að mörg þessara fyrirtækja hafa átt góða daga og starf þeirra hefur skilað miklum hagnaði.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ég velti því fyrir mér hvort það sé ekki til siðs í íslenskum fyrirtækjarekstri, að leggja fjármuni í varasjóð til magurri ára. Getur verið, að allur arður sé greiddur út til eigenda eða hagnaður notaður til að reisa hótel og veitingastaði með miklum lánum frá bönkum, sem margfaldar þá vandann, þegar greiða skal af lánum. Arðgreiðslur íslenskra fyrirtækja, einkum banka, tryggingafélaga og fjármálafyrirtækja hafa verið með miklum ólíkindum og margir hluthafar og eigendur hagnast vel. Það getur varla verið eðlilegt, að íslenskir skattgreiðendur, sem borguðu bankahrunið, þurfi enn á ný, í gegnum ríkissjóð, að koma til bjargar. Það er í raun algjörlega óásættanlegt.

Ríkisstjórnin hefur þegar lofað gríðarlegum fjárhæðum til að bjarga atvinnurekstri og launagreiðslum fyrirtækja. Hve lengi fjármunir ríkisins duga, virðist nokkuð óljóst. Það er hins vegar þakkarvert, að stjórnvöld skuli hafa lagt á það áherslu að greiða niður skuldir ríkisins og eiga mikinn gjaldeyri í sjóði.

En af hverju er ekki gerð krafa til fyrirtækja um að leggja hluta hagnaðar í varasjóð til nota á erfiðum tímum. Kannski er það vegna þess, að þau treysta því, að ríkið, þ.e. skattgreiðendur, komi til aðstoðar þegar illa árar. Sá leikur var stundum kallaður pilsfaldakapitalismi, þegar einkafyrirtæki áttu í hlut. Nú er bara að vita hvað veiruskrattinn dregur mikið fé úr sjóðum og hve lengi það endist.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: