- Advertisement -

Grenjað á gresjunni

Engin verður svo arðgreiðslan í ár, skældi Grímur litli.

Halldór Árni Sveinsson skrifar:

Horfði á einn áhrifamesta leikara þjóðarinnar brillera í morgunþætti RÚV í morgun. Gunnar heitinn Eyjólfsson í hlutverki Hamlets, bliknaði í samanburði við grátbólginn Grím Sæmundsen, þegar hann stundi út úr sér yfirkominn af þyngslum siðferðis- og samfélagsábyrgðar, að ástæða þess að Bláa Lónið ákvað að setja 400 af 600 starfsmönnum þessa hugsjónafyrirbæris á samfélagsgreiðslur Vinnumálastofnunar í stað þess að nota digra sjóði stöndugrar eiginfjárstöðu til að brúa bilið, væru til að eiga eitthvað eftir í kröftuga viðspyrnu. Eins og hann orðaði það með kökkinn í hálsinum. Síðasta arðgreiðsla til eigenda upp á 4,3 milljarða hefðu ekkert að gera með þessa ráðstöfun, enda færi það að hálfu leyti í kjaftinn á ríkissjóði þar sem lífeyrissjóðirnir ættu helminginn í kompaníinu.

Og áfram þuldi hann upp lykiltölur úr rekstrinum. Ég hefði ekki orðið hissa þótt hann hefði skrökvað upp á sig Eflingartaxta fyrir forstjórastarfið, svo illa bar hann sig að sjálf grátdrottning sægreifanna, Heiðrún Lind, er eins og hver annar amatör í tilfinningaklámi sjálfsvorkunnarinnar. Ekki batnaði ástandið þegar rætt var um komandi mánuði, þegar og ef þessari veiruóáran lýkur einhvern tímann. Þá væri nú ekki víst að þeir erlendu ferðamenn sem fyllt hafa gullkistur Lónsins að 98% með þessu klinki sem aðgangseyririnn er, létu sjá sig.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ég held að Grímur þurfi ekki að skæla mikið.

Ég held að Grímur þurfi ekki að skæla mikið. Miðað við eldmóð ríkisstjórnarinnar að aðstoða þau fyrirtæki sem hvorki vilja né þurfa aðstoð, er einsýnt að Bjarni Ben borgi hverju mannsbarni á landinu fyrir að baða sig þar í leðjunni, einu sinni til tvisvar fyrir jól. Því ekki þekki nokkurn launþega í landinu sem hafði efni á því sjálfur, ekki einu sinni meðan allt lék í lyndi.

Engin verður svo arðgreiðslan í ár, skældi Grímur litli. Alveg er ég handviss um að hið milda Viðskiptaráð stingur upp á landssöfnun fyrir arði handa vesalings eigendunum, og að hinir spikfeitu og oföldu starfsmenn ríkis og sveitarfélaga láti nú talsvert af hendi rakna úr sínum digru og földu sjóðum.

En óneitanlega læðist að manni sá grunur að helstu auðmenn landsins hafi ekki snefil af sjálfsvirðingu og stolti yfir góðum árangri í rekstri fyrirtækja sinna, eða tími því að minnsta kosti ekki á meðan ókeypis peningar hrynja úr pilsfaldi þessarar svokölluðu kapítalísku ríkisstjórnar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: