- Advertisement -

Alþingi leiðréttir eigin mistök með afturvirkum lögum

„Réttur einstaklingsins gagnvart ríkinu er enginn. Mér finnst ekki að það eigi að vera sjálfsagt að hagsmunir ríkisins trompi alltaf hagsmuni almennings,“ sagði Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, þegar þingmenn ræddu breytingar á lögum um almannatryggingar. Umræðan varð vegna mistaka við setningu laganna. Mistaka sem urðu til þess að lifeyrisþegar fengu greitt um of, það er miðað við það sem að var stefnt.

Nichole Leigh Mosty, formaður velferðarnefndar og þingmaður Bjartrar framtíðar, mælti fyrir breytingunum. „Hér hafa því átt sér stað mannleg mistök sem ekki uppgötvuðust fyrr en eftir að lögin höfðu öðlast gildi þrátt fyrir mikla yfirlegu og yfirlestur margra aðila. Þessi mistök verður nú að leiðrétta. Verði það ekki gert gæti það haft þau áhrif að greiðsla frá lífeyrissjóðakerfinu yrði undanskildar við útreikning hins nýja ellilífeyris og ráðstöfunarfjár,“sagði hún, meðal annars í ræðu sinni.

 

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir Pírati var ósátt: „Mér finnst mjög grunsamlegt ef á að fara að setja lög afturvirkt. Ég rek augun í það með lögin sem á að breyta afturvirkt að samkvæmt greinargerð á að fjarlægja ákveðna ívilnandi undantekningu í lögum afturvirkt. Sú ívilnandi undantekning er sem sagt það að tekjur úr lífeyrissjóðum gildi ekki til skerðingar á ellilífeyri. Þetta eru ákveðnar væntingar, lögmætar væntingar, sem ellilífeyrisþegar hafa getað gert sér hingað til. Það eru okkar mistök og mistök þeirra stofnana sem við áttum sem verða þess valdandi að þau fengu ekki rétt greitt.“

Nichole Leigh sagði að sér skildist, „…á samtölum við þingmann sem hefur verið lengur hér á þingi en ég, að áður hafi afturvirk lög verið sett þegar um mannleg mistök er að ræða. Hér er um það að ræða.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þórhildur Sunna var ekki enn sátt: „Vissulega er hægt að setja afturvirk lög, sérstaklega ef þau hafa jákvæðar ívilnandi afleiðingar í för með sér fyrir þá sem fyrir þeim verða. Ef þau hafa hins vegar neikvæðar afleiðingar eða taka af fólki ívilnandi réttindi þá ber að stíga mjög varlega til jarðar því að það gæti varðað bótaskyldu ríkisins.“

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins sagði: „Textinn í ákvæðinu er rangur. Það þarf að leiðrétta hann.“

Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, segir á heimasíðu ASÍ: „Aðalatriðið er að Alþingi setur lög og skapar með því rétt sem ekki verður aftur tekinn með afturvirkum hætti. Þingmenn verða að átta sig á þessu,“ segir Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ.

Og hverjar verða afleiðingarnar. ASÍ segir: „Alþingi hyggst leiðrétta afturvirkt mistök sem gerð voru við breytingar á lögum um almannatryggingar sl. haust, sem þýðir að fjöldi lífeyrisþega mun nú þurfa að endurgreiða Tryggingastofnun umtalsverðar fjárhæðir. Málið hefur verið afgreitt úr velferðarnefnd þingsins með miklu flýti án þess að nægilegt tækifæri hafi gefist til umræðu og umsagna.

Í gærkvöld samþykkti Alþingi að endurheimta hina ofgreiddu peninga frá lífeyrisþegunum.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: