- Advertisement -

Bónus oftast með lægsta verðið

Neytendur Verslunin Bónus Korputorgi var oftast með lægsta verðið þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð í lágvöruverðsverslunum, stórmörkuðum og klukkubúðum víðsvegar um landið þriðjudaginn 12. ágúst. Hæsta verðið var oftast að finna í verslun 10/11 Laugalæk eða í næstum helming tilvika og hjá Samkaupum-Strax í Hófgerði í þriðjungi tilvika.  Bónus var með lægsta verðið í um 70% tilvika og Krónan Lindum og Fjarðarkaup í 10% tilvika. Oftast var verðmunurinn á hæsta og lægsta verði vöru frá 25% upp í 75% en í um 20% tilvika var meira en 75% verðmunur. Mesti verðmunur í könnuninni var hins vegar 147%. Athygli vekur að í um 10% tilvika var umbeðin vara ekki verðmerkt hjá Hagkaupum Kringlunni.

Flestar vörurnar sem skoðaðar voru í könnuninni voru fáanlegar hjá Hagkaupum eða 100 af 103 og Fjarðarkaup átti til 99. Minnsta úrvalið var hjá 10/11 eða 64 af 103, Kjarval Hvolsvelli átti til 70 og Samkaup-Strax í Hófgerði átti 71.

Af þeim 103 vörum sem skoðaðar voru, var munur á hæsta og lægsta verði sjaldan undir 25%, oftast var hann á milli 25-75% og í um 20% tilvika var yfir 75% verðmunur. Minnstur verðmunur var á G-mjólk 250 ml. sem var ódýrust á 78 kr. hjá Bónus, Krónunni, Iceland og Víði en dýrust á 85 kr. hjá Kjarval verðmunurinn var því 7 kr. eða 9%. Mestur verðmunur í könnuninni var á ódýrustu fáanlegu gulu paprikunni, sem var dýrust á 985 kr. hjá Víði Skeifunni en ódýrust á 398 kr. hjá Bónus sem er 587 kr. verðmunur eða 147%.

Af þeim vörum sem til voru í öllum verslunum má nefna að mikill verðmunur er á LU TUC bacon kexi 100 gr. sem var ódýrast á 139 kr. hjá Bónus en dýrast á 259 kr. hjá 10/11 sem er 86% verðmunur. Annað dæmi um mikinn verðmun má nefna skólakæfu frá SS sem var ódýrust á 1.660 kr./kg. hjá Bónus en dýrust á 2.270 kr./kg. hjá Samkaupum-Strax sem er 610 kr. verðmunur eða 37%. Sykurmolarnir frá Dansukker 500 gr. voru ódýrastir á 388 kr. hjá Krónunni en dýrastir á 489 kr. hjá Samkaupum-Strax sem er 101 kr. verðmunur eða 26%. Rjómasúkkulaði frá Síríus 150 gr. var ódýrast á 257 kr. hjá Bónus en dýrast á 399 kr. hjá Samkaupum-Strax og 10/11 sem er 55% verðmunur.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Í könnuninni var skráð niður hilluverð vöru eða það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um inni í búðinni að hann eigi að greiða fyrir vöruna. Þegar skýrt er gefið til kynna að veittur sé afsláttur af merktu verði við kassa var skráð afsláttarverð. Til að auðvelda verðsamanburð er oft skráð mælieiningaverð vöru, þar sem pakkastærðir eru mismunandi eftir verslunum.

Könnunin var gerð á sama tíma í eftirtöldum verslunum: Bónus Korputorgi, Krónunni Lindum, Nettó Mjódd, Iceland Vesturbergi, Fjarðarkaupum Hafnarfirði, Nóatúni Nóatúni, Samkaupum-Úrval Hafnarfirði, Hagkaupum Kringlunni, Víði Skeifunni, 10/11 Laugalæk, Samkaupum-Strax Hófgerði, Kaskó Húsavík og Kjarval Hvolsvelli.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Sjá nánar hér.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: